21.11.1957
Efri deild: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. leggur til á þskj. 96, að gildistökuákvæðum frv. verði breytt þannig, að lögin skuli öðlast gildi hinn 1. maí 1958. Í frv. er gert ráð fyrir, að 6 mánuðir liði, frá því að frv. er staðfest sem lög þar til það öðlast gildi. Það ákvæði var sett til þess, að nokkurt ráðrúm gæfist til þess að kynna almenningi í landinu breytingar frá fyrri lagaákvæðum. En þar sem frv. hefur nú verið til meðferðar á tveim þingum og alþjóð veit um tilvist þess og væntanlega um hinar veigamestu breytingar, sem í því felast, þótti allshn. ekki ástæða til, að haldið yrði ákvæðinu um sex mánaða frestinn. Hin sérstöku gildistökuákvæði í 1. og 2. mgr. 70 gr., sem fjalla um breytingar frá fyrri reglum um vátryggingar bifreiða, áttu samkvæmt frv. að öðlast gildi hinn 1. maí 1958, og var það ákvæði sett inn í frv. að tilhlutan allshn. á síðasta þingi, en það var sökum þess, að vátryggingarárið telst byrja 1. maí og vátryggingarfélög tjáðu sér naumast unnt að breyta vátryggingarárinu án stórkostlegrar fyrirhafnar.

Að tilmælum meðnm. minna í allshn. hef ég ákveðið að taka aftur brtt. mína á þskj. 75 um, að 3. mgr. 20 gr. skuli falla niður. Mun ég því styðja till. hv. 11. landsk. á þskj. 91, en í henni felst aðalatriði það, sem ég hugðist ná með brtt. minni á þskj. 75, það atriði, að niður falli skylda til að afla vottorðs bifreiðaeftirlitsmanns til þess að fá bifreið afskráða.