21.11.1957
Efri deild: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Mér þætti mjög miður, ef svo skyldi fara, að málinu yrði enn frestað, og er það vegna þess, að ég óttast, að svo kunni að fara, að ekki vinnist tími til að fullafgreiða málið á þessu þingi. Það má hverjum manni ljóst vera, að í Nd. hlýtur það að taka langan tíma að afgreiða þetta mál vegna þess, hve vandasamt það er og yfirgripsmikið, og gæti svo farið, ef verulegur dráttur yrði á, að við gætum afgr. þetta mál hér úr hv. d., að það dagaði enn uppi, og það teldi ég mjög miður farið. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu sérstaklega, að það er sjáanlegt, að Nd. hlýtur að þurfa mjög langan tíma til að fara yfir þetta frv. og rannsaka það og athuga, og þess vegna tel ég, að þessari hv. d. beri að flýta því, svo sem unnt er.

Friðjón Þórðarson: Herra forseti. Við 2. umr. flutti ég brtt. á þskj. 91, en tók hana síðan aftur til 3. umr, Allshn. athugaði þessa till. milli umræðna og varð sammála um að fylgja henni. Vona ég því, að till. nái fram að ganga. Ég rökstuddi hana nokkuð við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég aðeins taka undir orð hv. þm. Ak., að við reynum nú að flýta þessu máli, svo sem unnt er, því að Nd. á áreiðanlega eftir að velta því lengi fyrir sér, og satt að segja er tíminn orðinn ærið skammur, þar sem við höfum slegið því föstu í till. okkar, að frv. taki gildi 1. maí 1953.