22.11.1957
Efri deild: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

18. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja mjög mikið um þetta frekar. Þær voru hliðstæðar þessu, umr., sem fóru hér fram í hv. d. í fyrra um þetta sama mál, og sömu atriðin bar á góma þá, og skal ég víkja aðeins að sárafáu.

Hv. frsm. allshn. orðaði það eitthvað á þá leið, að með ákvæðum frv. væri verið að lögfesta núverandi ástand í aksturshraða manna almennt eða hið algengasta, m.ö.o.: að það sé viðhafður það mikill hraði, að það nálgist þetta almennt eða hið algengasta. Það er rétt hjá honum, að það er ekið þó nokkru hraðar almennt, en nú er leyft, það er alveg rétt. Við flm. þessarar till. viljum líka leyfa meiri hraða, en nú er í lögunum. En við viljum ekki fara svona gífurlega langt í einu stökki, vegna þess að við óttumst aukna slysahættu. En má ég spyrja hv. frsm. n., hvernig á að tryggja það, að lögunum verði hlýtt um þennan 45 km hraða? Verður þá ekki ekið á 50–60 km hraða á eftir? Hvaða ástæða er til að ætla, að menn fari allt í einu að fylgja nákvæmlega 45 km hraða, ef þeir hafa engu skeytt hámarkshraðanum, sem hingað til hefur gilt? Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn bendir mjög ýtarlega á það, þegar kærðir eru menn fyrir of hraðan akstur, að þeir séu ekki kærðir, nema lögreglumenn telji þá a.m.k. vera 5–10 km hraðar á ferðinni en hámarkshraðinn, sem þeir miða við, því að þeir vilja vera vissir í sinni sök, þegar þeir fara að kæra mann, sem eðlilegt er. Það má því alveg bóka það, að hraðinn verður meiri en 45 km, þegar búið er að samþykkja þetta frv.

Þá drap hv. þm. á 49. gr. og gat þess alveg réttilega, að þar væru margs konar ákvæði, sem takmarka hraða. Þetta er alveg rétt hjá honum, Ég nenni nú ekki að fara að svara hv. 1. þm. NM., sem kallaði hér fram í og sagði, að við hefðum ekki lesið þessa lagagrein. Ég sagði í ræðu minni áðan, að ég efaðist um, að hér í bænum væri hægt að aka lengri vegalengd í einu en 2 km með fullum hámarkshraða, ef ekki ætti að brjóta þessi lög, og það benti á, hvort við mundum ekki hafa lesið 49. gr. Nei, okkur eru alveg ljós hin nauðsynlegu og ýtarlegu ákvæði 49, gr. En einmitt það sannar líka, hversu ósköp lítil þörf er á þessum hraða, því að sé þeirri grein fylgt út í æsar, þá fyrirfinnst varla sú gata í Rvík, að hægt sé að notfæra sér þennan hámarkshraða nema brjóta lögin.

Hv. þm. gat þess, að sjálfsagt væri að ákveða minni aksturshraða á sérstökum götum bæjarins. Það er þá alveg nýtt, mér er ekki kunnugt um, að hér t.d. í höfuðstaðnum sé einhver sérstakur hraði fyrir ákveðnar götur. Hraðinn er mjög lágur hér, ekki nema 25 km hraði, en ég veit ekki betur en hann sé sá sami fyrir allar götur bæjarins. Og ekkert stendur um það í þessu frv., að slíkt skuli ákveðið. Það hefur verið heimild til þess fyrir bæjarstjórnir að gera það og verður eins hér eftir. Það hefur bara ekki verið gert hér enn þá, hvað sem kann að verða hér eftir, og það getur vel verið, að nú opnist alvarlega þörfin fyrir að fara að gera það m.a.

Þá sagði hann, að ég hefði farið rangt með um það, að nefndin hefði flutt till., sem búið er að samþykkja, um það, að dómsmrh, skuli heimilt að takmarka ökuhraðann. Það er að vísu ekki nema eitt orð, sem er nýtt og kom frá nefndinni núna, en ekki í fyrra. Það stendur í frumvarpsgreininni, eins og hún er óbreytt: „Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ökuhraða, þ. á m. ákveðið lægri hámarkshraða, en að framan greinir“ o.s.frv. En í till. n. stendur: „Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ökuhraða, þ. á m. ákvæði um lægri hámarkshraða almennt“. Það var þetta „almennt“, sem nefndin kom með. M.ö.o.: nú er það sett inn í lögin, að ráðherra getur þurrkað út ákvæðið, eins og það leggur sig í 50. gr., þ.e.a.s. þennan 45 km hraða og 70 km hraða. Það er þetta, sem ég átti við. Ég var því ekki að fara með neitt rangt.

Ég vil þá svara hv. 11. landsk. Hann fer að tala hér um dráttarvélar. Ég veit ekki til, að það hafi enn verið rætt hér í þessari hv. deild um aksturshraða dráttarvéla, svo að þetta er alveg út í hött. Það, að minnzt var á dráttarvélar um daginn, var það, að ég mótmælti því, að dráttarvél yrði kölluð bifreið og lenti undir öðrum tollaflokki, af því að hún gæti farið hraðar en þetta. Ég held, að hann hafi alveg misskilið þetta, það kom ekkert þessu máli við.

Hann segir, að regluna á Norðurlöndum megi telja þá, að það sé enginn hámarksaksturshraði. Er það rangt hjá mér, að í Noregi sé 40 km aksturshraði, minni en nú á að fara að lögfæra hér? Ég man ekki betur, en það standi í grg. frv. Það er rétt, að það er sums staðar enginn hámarkshraði, þetta er nokkuð sitt á hvað. En þau ummæli hv. 11. landsk. þm. get ég ekki tekið undir, að það sé ekki hundrað í hættunni, þar sem dómsmrh, getur lagfært þetta, lækkað allan aksturshraðann í landinu. Ég verð nú að segja, að Alþingi ber að taka sínar ákvarðanir, en ekki treysta á það, að hæstv. dómsmrh. fari að lagfæra allt á eftir.