01.11.1957
Neðri deild: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseli. Hv. 9. landsk. beindi þeirri fsp. til mín, hvort þetta frv. breytti ekki réttargrundveili ríkisskattanefndar og yfirskattanefndar. Ég ráðlegg honum að lesa yfir þann kafla útsvarslaganna, sem fjallar um valdsvið yfirskattanefnda og ríkisskattanefndar. Í þeim kafla laganna er engu breytt, engum stafkrók breytt, eins og þetta frv. ber með sér, nema því, að þar sem stendur að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd megi ekki breyta útsvari, sem kært er yfir, nema a.m.k. reynist 10% of hátt eða lágt, kemur nú í staðinn alveg nákvæmlega sama orðalag þessarar málsgreinar, nema í staðinn fyrir töluna 10 kemur 3, í staðinn fyrir 10% kemur 3%, Réttargrundvöllur nefndarinnar breytist því ekkert, Hann er sá að taka afstöðu til útsvarsupphæða þeirra einstaklinga, sem kæra til ríkisskattanefndar, en þeir hafa venjulega áður, kært til niðurjöfnunarnefndar og yfirskattanefndar. Nákvæmlega sami grundvöllur helzt fyrir öllu þeirra starfi, nema þeir mega nú breyta útsvari, sem kært er yfir, til hækkunar eða lækkunar, nemi skekkjan, sem þeir komast að niðurstöðu um, 3%, í staðinn fyrir að þeir máttu aðeins breyta áður, ef útsvarið var tíunda hluta of hátt eða of lágt. Ég held því, að það sé alveg öruggt, að bæjarfélögin eru ekki í neinum auknum háska við þetta frv. Þetta er ekki nein leyniárás á bæjarfélögin, síður en svo, breytir engum réttargrundvelli að öðru, en að einstaklingarnir eiga lagalegan rétt til að fá leiðréttingu hjá þessum æðri aðilum.

Ég skal svo að síðustu aðeins láta enn í ljós undrun mína yfir þeirri skoðun hv. þm., að þessi vinnubrögð tíðkist í flokkapólitíkinni gagnvart nefndum. Og ég er sérstaklega undrandi yfir því, að hv. þm. skuli geta látið sér detta það í hug, þegar um er að ræða eiðsvarna nefnd eins og ríkisskattanefnd. Niðurjöfnunarnefnd, yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd eru eiðsvarnir aðilar, og það er persónuleg móðgun við hvern þann mann, sem fengi fyrirmæli um að gera þar annað en það, sem samvizka hans byði honum að gera.