10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

18. mál, umferðarlög

Pétur Ottesen:

Herra forseti, Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, frv. til umferðarlaga, hefur verið í Ed. og hlotið afgreiðslu þaðan. Ég hef nokkuð fylgzt með meðferð þessa máls í Ed. og veit, að það mál hefur verið rætt þar mjög ýtarlega, og sú n., sem fjallaði um málið, hefur haft samráð og rætt við ýmsa aðila, sem hafa látið til sín taka um afgreiðslu þessa máls. Ég held, að þetta frv. sé þannig úr garði gert af hálfu Ed., eins og það liggur hér fyrir nú, að það sé allvel viðhlítandi. Ég vil þó taka það fram, að ég tel a.m.k. sumar af brtt. hv. þm. V-Húnv. til bóta á frv., einkum og sér í lagi þær, sem að því lúta að gæta nokkru betur öryggis að því er snertir bílstjóra, sem neytt hafa áfengis. Ég mun þess vegna við atkvgr. styðja þær till. hans, sem að því lúta að færa þetta mál hvað þetta snertir inn á betri öryggisgrundvöll.

Það er ein brtt., sem hér hefur verið lögð fram alveg nýlega, sem einnig á að stefna að því að bæta nokkuð úr í þessu efni, þ.e. brtt. á þskj. 283 frá hv. 6. landsk. Þar vill hann láta setja aldurstakmark hjá þeim unglingum, sem stýra dráttarvélum utan þjóðvega, hvort heldur er við heyskap á túnum ellegar þá að því leyti sem þessar vélar eru notaðar til jarðvinnslu. í frv., eins og það liggur hér fyrir, er veitt skv. 28. gr. sú undanþága, að þeir, sem stýra dráttarvélum við heyskaparstörf og jarðyrkju, þurfi ekki á ökuskírteini að halda, án þess að þar séu sett nokkur ákvæði um aldurstakmark.

Ég vil að því er snertir þetta ákvæði um öryggið benda á, að af hálfu foreldra, sem börn eiga, sem falið er að stýra slíkum dráttarvélum, er að sjálfsögðu leitazt við að stuðla að því, að fullt öryggi sé í þessu efni. Og ég verð að segja, að það er harla einkennilega litið á umhyggju foreldra fyrir börnum, ef því er haldið beinlínis fram, að ekki megi treysta, að þar sé ýtrasta öryggis gætt um að stofna ekki börnunum í hættu.

Ég held þess vegna út frá þessu sjónarmiði séð, að ekki sé þörf á að vera að setja slíkt hámark eins og lagt er til í þessari brtt. Að sjálfsögðu er allt öðru máli að gegna um akstur slíkra tækja á almannafæri, þ.e.a.s. á vegum úti, að það er ekki nema í samræmi við aðrar ráðstafanir, sem gerðar eru um umferðina á vegum úti, þó að slíkt takmark væri sett þar. Gildir að sjálfsögðu allt öðru máli um akstur slíkra véla á sléttu túni eða þá við jarðvinnslu í flögum, sem nokkuð er búið að vinna áður, því að yfirleitt er það svo, að dráttarvélar eru ekki notaðar við jarðvinnsluna nema til þess að ljúka þeirri vinnslu, eftir að stærri vélar hafa brotið landið. Ég held þess vegna, að það sé ekki hyggilegt að fara að setja slík ákvæði sem þessi og heldur engin þörf á að gera það.

Það á að vera nóg öryggi fólgið í eftirliti fullorðinna manna á heimilunum og þá sérstaklega foreldra þessara barna, því að í flestum tilfeilum er það svo, að það eru börn foreldranna, sem falið er slíkt verkefni eins og hér um ræðir, og skiptir ekki heldur máli, því að heimilisfeður líta að sjálfsögðu alveg jafnt á um það, að gætt sé fyllsta öryggis í þessu efni, hvort heldur það eru þeirra börn eða annarra, sem þeir fela þetta starf.

Hitt er svo vitað, eins og hér hefur komið fram, að það er mikill hópur ungmenna á aldrinum allt frá 11–14 ára, sem vinna mikið og gott verk með dráttarvélum á heimilunum, og það er ekki vitað, að við slíka vinnu hafi orðið tjón eða valdið neinu tjóni umfram það, sem alltaf getur átt sér stað við slíkan akstur. Ég held, að það séu undantekningaratriði, ef slíkt hefur orðið að tjóni, og það þekkjum við ákaflega vel, sem mikið látum vinna á heimilum með þessum dráttarvélum, að aldurstakmarkið eitt út af fyrir sig felur ekki í sér sérstakt öryggi, því að það er ákaflega mismunandi, hvað þeim unglingum, sem falið er að stýra slíkum vélum, fer þetta vel úr hendi, en aldurtakmarkið eitt út af fyrir sig er ekki afgerandi um það efni. Hins vegar má löggjafinn fullkomlega ganga út frá því, að heimilisfeður feli ekki öðrum að fara með þessar dráttarvélar en þeim, sem treysta má til þess að vinna með þeim verk, án þess að börnunum sjálfum eða vélunum, sem þau fara með, sé í nokkra hættu stefnt.

Ég held þess vegna, að það sé langhyggilegast fyrir löggjafann að hafa þetta innan þeirra takmarka, sem sett eru nú í 28. gr. þessa frv., eins og Ed. hefur frá þessu gengið. Það er líka áreiðanlega rétt, sem frsm. n. sagði, að það mundi verða nokkuð erfitt um eftirlit með framkvæmd á þessum lögum, því að með þessu ákvæði, sem hv. 6. landsk. vill setja inn í frv., eru skertir svo verulega starfskraftar á heimilum í sveitunum, að ég tel, að það væri dálítið erfitt að fylla það skarð, bæði að því er til þess tekur að fá aðra til þess að vinna þetta, auk þess kostnaðar, sem af því mundi leiða.

Ég vildi þess vegna fyrir mitt leyti mæla með því, að þessi ákvæði frv., eins og þau nú eru, væru ekki skert hvað þetta snertir, og ég held, að löggjafanum sé alveg óhætt að byggja á því, að þess öryggis sé gætt í þessu efni á hverju einasta sveitaheimili, að 14 ára aldurstakmarkið mundi ekki bæta þar úr.

Hitt er svo allt annað mál og ekkert við því að segja, þó að slík ákvæði sem í frv. felast um notkun þessara véla séu sett, þegar vélunum er ekið á fjölförnum vegum eða á almannafæri, því að þar kemur náttúrlega allt annað og miklu meira til greina í þessu efni heldur en þar, sem umferðinni er ekki til að dreifa, eins og er á sléttum túnum eða við þá jarðvinnslu, sem unnið er að með dráttarvélum.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta og ekki heldur um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, aðrar en þær, sem ég hef drepið á að því er snertir brtt. hv. þm. V-Húnv.