10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

18. mál, umferðarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er komið í ljós, að það var sízt að ástæðulausu, að ég kvaddi mér hljóðs. Það upplýstist að vísu, sem var mér gleðiefni og ekki annað en við mátti búast, að hv. þm. Borgf. hafði gert sér grein fyrir efni málsins. En þá kemur það stórfurðulega fram, að sjálfur flytjandi till. hefur gersamlega misskilið það, sem hann er að gera till. um, að hann sýnist halda, að hann sé að gera till. um að hafa ákvæðin strangari, en þau eru í frv. En það er einmitt það mikilsverða, að menn átti sig á, að hans till. fer í þveröfuga átt. Hún fer í þá átt að halda við sams konar reglum og hér hafa verið í gildi, og það liggur fyrir alveg örugg dómstólavenja, áratugagömul, um það, að þar er mun linlegar farið í sakirnar heldur en verða mundi, ef frv. yrði samþykkt.

Ef hv. þm. V-Húnv. vildi láta svo lítið að kynna sér, hver framkvæmdin á þessu hefur verið, þá getur hann, svo glöggur maður, ekki verið í neinum vafa um það, að ef hann heldur sjálfur, að hann sé að gera hér till. um strangari meðferð en verið hefur, þá þarf hann vissulega að athuga sinn gang og ætti að taka till. aftur til 3. umr. til þess að læra betur, ef svo má segja.