10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

18. mál, umferðarlög

Skúli Guðmundsson:

Ég held, að það sé einmitt hv. 1. þm. Reykv., sem ætti að athuga betur sinn gang í þessu máli. Ég býst ekki við, að hann finni neitt um það í minni till., sem fyrir liggur, að það eigi að miða þarna við meira vínandamagn í blóði manna heldur en ákveðið er í 25. gr. frv., þ.e.a.s. að þeir, sem hafa drukkið meira en svo, að vínandamagnið verði 0.6%0 eigi að sleppa við refsingu.

Hitt er annað mál, hvernig þetta kann að hafa verið framkvæmt á liðnum árum. Ef dómarar, sem um mál hafa fjallað þessu viðkomandi, hafa ekki farið eftir lögunum og ekki dæmt menn seka, þótt þeir væru undir áhrifum áfengis við akstur, þá er það vitanlega önnur framkvæmd en átti að vera, og þá hefði þessi hv. þm., sem alllengi var dómsmrh., átt að athuga þá hluti.