10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

18. mál, umferðarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að það verði talsverðar umr. um svo veigamikið mál sem hér er um að ræða, þegar um það er að ræða að setja umferðarlög.

Eins og nú er háttað í okkar landi, þá er véltæknin og vélknúin tæki, sem notuð eru almennt, bæði á þjóðvegum og svo heima við bústörfin, dráttarvélarnar.

Það hefur verið allmikið rætt um till. þá, sem hv. 6. landsk. þm. (GJóh) hefur flutt á þskj. 283, þar sem lagt er til að banna unglingum innan 14 ára aldurs að aka dráttarvélum heima við heyskap og jarðvinnslu.

Það hefur verið gert litið úr því, hvaða áhrif það mundi hafa hjá bændum, ef ekki væri unnt að nota unglinga undir þessum aldri við dráttarvélanotkun. En eins og tekið hefur verið hér fram, þá er þetta veigamikið atriði. Þannig háttar nú orðið í sveitinni, að það er tæplega um fullorðið fólk að ræða á heimilunum nema hjónin, og svo eru það börnin, sem hjálpa til, eftir því sem þau eldast og fá orku til.

Nú er það svo, að allir hv. þm. hafa sömu skoðun um, að það beri að forðast slysin, það beri að gæta fyllsta öryggis, og það er vissulega rétt, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði hér í dag, að foreldrarnir munu gera sitt ýtrasta til þess að vernda börnin gegn slysum. Nú mun einhver segja, að það sé ekki alltaf um það að ræða, að börn foreldranna séu að vinna á dráttarvélunum, heldur séu það einnig aðkomubörn. En ég hygg, að segja megi, að þegar börn koma á heimili vandalausra manna, þá líti húsbændurnir þannig á, að þessi aðkomubörn séu í þeirra ábyrgð og þeim sé skylt að annast þau eins og sin eigin börn, svo að ekkí sé um það að ræða.

Nú hefur verið talað um það og færð rök fyrir því, að slysahættan geti jafnvel verið eins mikil hjá þeim, sem eldri eru, eins og unglingum, og það væri fróðlegt að athuga það, hvort slysin, sem orðið hafa á dráttarvélum, eru fleiri hjá unglingum innan 14 ára, heldur en t.d. á 14 ára aldri eða aðeins þar yfir. Ég efast um, ef þetta væri rannsakað og það er vitanlega mögulegt að gera, að sú rannsókn leiði í ljós, að unglingar innan 14 ára aldurs séu fleiri, sem hafa orðið fyrir slysum á þennan hátt, heldur en unglingar 14 ára og eldri. Og eins og vikið hefur verið að, þá hafa jafnvel fullorðnir menn slasazt á dráttarvélum, og því er ekki að neita, að meðferð dráttarvéla eins og annarra vélknúinna tækja er alltaf nokkuð áhættusöm.

Það var í gamla daga talað um, að það væri hættulegt að láta börn fara með orf og ljá, þau gætu skaðað sig á því, þau gætu skorið sig við að brýna ljáinn, og þetta kom vissulega oft fyrir. Það kom iðulega fyrir, að börn innan við fermingaraldur sköðuðu sig á því að fara með orf og ljá. Eigi að síður munu flestir unglingar í þá daga hafa farið með þetta hættulega tæki, þennan stóra og bitra ljá, þótt það kæmi stundum fyrir, að þau sköðuðu sig á honum. Og þannig hefur það verið í lífsbaráttu þessarar þjóðar, að það hefur alltaf fylgt nokkur áhætta, og sem betur fer hafa börnin og unglingarnir haft áhuga fyrir því að reyna á sig, að hjálpa til, jafnvel þótt það fylgdi því nokkur áhætta. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það hefði holl uppeldisáhrif að neita kröftugum unglingum, strákum, sem hafa áhuga fyrir því að hjálpa til á heimilunum, að nota dráttarvél.

Dráttarvélin er að segja má á hverjum einasta bæ, og með því að unglingnum innan við 14 ára aldur væri bannað að nota dráttarvélina, þá mundi vissulega mikið vinnutap verða á heimilinu, (Gripið fram í: Mundi verða samkomulag um 12 ár?) Það er mjög nærri lagi að gera samkomulag um 12 ár, og ég hygg, að það sé mjög sjaldan, sem yngri börn en 12 ára séu á dráttarvélum. En það er dálítið erfitt að draga aldurstakmark, og ég mundi helzt leggja til, að frv. væri samþ. í því formi, sem það nú er, og það væri undir mati húsbændanna hverju sinni, hvort rétt væri að leyfa barninu að nota traktorinn. Ég held, að það væri eðlilegra, vegna þess að það er matsatriði. Við skulum hugsa okkur 10 ára, 11 ára gamla stráka, kröftuga stráka, sem vilja hjálpa til og geta hjálpað til. Er líklegra, að þeir fari sér að voða, heldur en 12–13 ára strákar? Þetta er mjög vafasamt. Eigum við ekki að treysta húsbændunum, að þeir geri það, sem í þeirra valdi stendur til þess að hafa vit fyrir unglingunum? Eigum við ekki að leyfa unglingunum, eftir því sem þeir fá orku, að reyna sig að hjálpa til við vinnuna og uppgötva það, að þeir geta orðið til gagns? Þeir geta hjálpað pabba og mömmu, og kaupstaðarbörnin, sem í sveitina koma, finna það, að þau geta orðið að gagni í sveitinni hjá þessum nýju húsbændum, sem vissulega munu gera það, sem í þeirra valdi stendur, til að forða þeim frá tjóni.

En ég ætlaði að koma að einu atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) minntist hér á áðan. Hann sagði, að bændunum væri reiknað Dagsbrúnarkaup við framleiðslu varanna og þess vegna væri ástæðulaust að vera að tala um vinnutap eða tjón hjá bændunum, þótt þeir gætu ekki notað vinnukraft barnanna. Þeir, sem eru lítið kunnugir högum bænda og ekki hafa gert sér far um að kynna sér vinnutímann í sveitinni og útreikningana, sem verðlag landbúnaðarvara er byggt á, geta komið með svona fullyrðingar, og þeir, sem hafa ekki kynnt sér þessar aðstæður meira en þeir, sem fullyrðingarnar fara með, gætu jafnvel fallizt á, að vegna þess að bændum er á vissan hátt reiknað Dagsbrúnarkaup, þá væri alveg ástæðulaust fyrir þá að reyna að notfæra sér vinnukraft barnanna. En það er þannig í sveitinni, að vinnutíminn er ekki 8 tímar. Hann er oftast 16 tímar a.m.k. við heyskap, og bændunum er ekki reiknað eftirvinnukaup, þegar verið er að reikna út verð búanna. Þeim er ekki reiknað næturvinnukaup, því að ef það væri gert, að bændunum væri reiknað næturvinnu- eða eftirvinnukaup, þá yrði verðlag landbúnaðarvaranna hærra, en það er núna, og ég vil, að menn viti þetta. Ég vil, að menn viti það, að þegar talað er um, að bændum sé reiknað Dagsbrúnarkaup, þegar verið er að framleiða mjólk og kjöt, garðávexti og aðrar landbúnaðarvörur, þá er þeim aldrei reiknað nema dagvinnukaup, þótt þeir vinni langt fram á kvöld og langt fram á nótt, og þetta þarf öllum að vera ljóst. Og það er annað einnig, að enda þótt konan vinni fullkomið verk við framleiðslu varanna, þá er henni ekkert kaup reiknað. Henni er ekkert kaup reiknað við að mjólka kýrnar, og henni er ekkert kaup reiknað við að raka heyið af túninu. En varan væri ekki framleidd eins og gert er, nema af því að hjónin vinna bæði saman að þessari framleiðslu, Það er þess vegna ekki grundvöllur til þess að fárast yfir því, þótt unglingarnir leggi eitthvað fram í sambandi við framleiðsluna.

Það er nú ekki ástæða til að fara öllu fleiri orðum um þessa tillögu. Ef hún gæti orðið til þess að skapa öryggi, til þess að forðast slys, þá mundi ég fylgja henni. En af því að ég hef ekki trú á því, að hún leiði til aukins öryggis, að hún útiloki slysin, þá verð ég á móti till., vegna þess að ef hún væri samþ., þá leiðir hún til þess, að vinna unglinganna nýtist ekki, og hún leiðir einnig til þess að spilla unglingunum að því leyti, að þeim er meinað að hjálpa til og vinna og finna til þeirrar ánægju, sem unglingurinn verður aðnjótandi, þegar hann uppgötvar það, að hann getur unnið til gagns og nytsemdar foreldrum sínum og öðrum, sem honum er ætlað að hjálpa. Ég er sannfærður um, að einmitt það, að unglingarnir fái möguleika til þess að vinna og vinna snemma, eftir því sem orka leyfir, það hefur holl uppeldisáhrif og það skapar vaxandi öryggiskennd hjá unglingunum að finna það, að þeim er treyst, en ekki alltaf bannað, og það er það, sem hefur fleytt þessari þjóð áfram á undanförnum árum, að unglingarnir hafa orðið að treysta á sig fyrr heldur en seinna og að þeim hefur ekki alltaf verið bannað að leggja fram krafta sína.