10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

18. mál, umferðarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., enda þótt margt sé hér um að ræða. En þar sem hæstv. aðalforseti þessarar d. hefur nú leitt umr. út á nýtt svið, þá get ég ekki látið hjá líða að segja hér fáein orð, og það er vegna þess, að þegar það kemur í ljós, að svo greindur maður og áhrifamikill stjórnmálaforingi eins og hv. 3. þm. Reykv. (EOl) trúir því, að aðstaða landbúnaðarins sé slík, eins og fram hefur komið í hans lýsingum, þá tel ég það skyldu fyrir okkur, sem vitum betur, að sýna fram á, að þetta er því miður rangt.

Það er komið svo með okkar atvinnumál, að það er í mörgum sveitum þannig, að eini vinnukraftur, sem bændurnir geta fengið yfir sumartímann, er unglingar frá 10–15 ára aldurs, og einu mennirnir, sem hægt er að fá í sveitirnar að vetrinum til, eru menn, sem fluttir eru frá öðrum löndum. Þetta má sanna með ummælum þess manns, sem hefur með mannaráðningar að gera af hálfu Búnaðarfélags Íslands. Ég spurði hann að því í nóvembermánuði s.l., hvernig honum gengi að útvega bændunum vetrarmenn, og hann hélt, að hann mundi nú geta að miklu leyti fullnægt eftirspurninni, en tók það fram skv. spurningu frá mér, að þar væri eingöngu um útlenda menn að tala. Hitt vita allir, sem kunnugir eru okkar landbúnaði, að víða er það svo á sumrin, að þá er eini aðflutti vinnukrafturinn, sem hægt er að fá, unglingar innan við fermingaraldur.

Nú er það kannske ekkert óeðlilegt, að það sé um það nokkur deila, hvort það sé réttmætt að leyfa þessum unglingum að fara með dráttarvélar. En ég vil leyfa mér að fullyrða, að drengjum frá 12 til 15 ára aldurs, sem eru með fullkominni heilbrigði, er auðvelt að kenna að fara svo með þessi tæki á sléttu túni og í hálfunnum flögum eða meira, að af því á ekki að þurfa að stafa nein hætta, og þess vegna vil ég segja, að ég get ekki samþykkt að leggja þar bann við. Annars er það svo, að eins og kunnugt er, þá unnum við að því saman, ég og hv. 3. þm. Reykv., á Alþingi 1943 að fá fram lög, sem almennt eru kölluð sexmannanefndarlögin, og í þeim l., sem var okkar á milli og þeirra manna, sem hlut áttu að máli, hið bezta samkomulag um, þá var til þess ætlazt, að í því yrði samræmi, sem bændurnir fengju fyrir sína vinnu og sveitafólkið og aðrir verkamenn og þeir menn, sem vinna hin önnur störf í kauptúnum landsins. Þetta var þannig framkvæmt líka fyrstu árin. En það hefur áreiðanlega alltaf gengið meira og meira í öfuga átt, þannig, eins og hv. 1. þm. Rang. gat um, að ef bændur og þeirra fólk ætti að hafa sama kaup og verkamenn í kaupstöðum hafa, þá yrði verðið á landbúnaðarafurðum að vera miklu hærra, en það nú er. En þessu er ekki til að dreifa, því að almennt mun það svo vera, að í gegnum verðlagið hafa bændur miklu lægra, en almennt gerist um verkamannavinnu, og þetta má sanna á mjög einfaldan hátt. Og því miður er það svo, að það hefur ekki tekizt að halda því samkomulagi, sem gert var með þessum l. 1943, og það hefur aldrei verið verra, það vil ég leyfa mér að fullyrða, heldur en núna, síðan þeir menn tóku við stjórn í okkar landi, sem nú hafa hana.

Ef hv. þm. vilja hafa fyrir því að fá sannanir fyrir þessu, þá hafa þeir þær allir á borðunum hjá sér, og þeir þurfa ekkert annað, heldur en líta í ríkisreikninginn, sem hver hv. þdm. hefur fyrir framan sig, fyrir árið 1956. Og ef þessir menn vilja hafa fyrir því að fletta upp í þessum ríkisreikningi og athuga reikningana yfir 3. gr. fjárl., þá sjá þeir, að þar eru reikningar yfir nokkur ríkisbú, — bú, sem eru rekin af ríkinu á beztu jörðum í landinu og með fullkomnustu tækni, sem völ er hjá okkar þjóð. Og aðstaða þessara búa er þannig, að þau fá jarðirnar, bústofninn, vélarnar, sem sagt allan höfuðstól, kostnaðarlaust og afgjaldslaust, en þó er það þannig samkv. þessum reikningi, að rekstrarhallinn á einu þessu búi er 97 þús. kr. þetta tiltekna ár, á öðru 96 þús. og á því þriðja 28 þús.

Nú er þetta mjög athyglisvert fyrir mann eins og hv. 3. þm. Reykv., sem er ríkisrekstrarmaður eða vill, að atvinnureksturinn sé yfirleitt í höndum opinberra aðila, og mælti fyrir því réttilega hér áðan, að það er náttúrlega mjög önnur aðstaða, ef það væru stór flæmi, sem væru öll orðin ræktuð. En ég vil fullyrða, að einmitt á þessum jörðum, þar sem þessi tilteknu bú eru, er aðstaðan slík, að hún er hvergi fullkomnari í okkar landi, og þetta er svo glögg sönnun fyrir aðstöðu bændastéttarinnar varðandi kostnað og tekjur sem mögulegt er að fá, enda er það alveg fullvíst, að ef vinnandi bændur og þeirra fólk ætti að reikna sér kaupgjald, eins og það er reiknað á hinum almenna vinnumarkaði í kauptúnum landsins, þá er verðið á afurðunum langt fyrir neðan það, sem það mundi vera, ef slík útgjöld væru öll tekin með.

Það er náttúrlega tvennt ólikt að segja frá þessu, eins og það raunverulega er, eða hitt hvernig á að koma því í lag að breyta þessu. Það er örðugt, eins og komið er, vegna þess, hve mikið öngþveiti hér er búið að setja öll fjármál í, En hvað sem öllu þessu líður, þá vil ég segja það, að menn skulu fara varlega í að takmarka með lögbönnum það, að þeir unglingar og sá eini vinnukraftur, sem bændurnir fá yfir sumarið, megi vinna með þeim tækjum, sem til eru í sveitunum og nauðsynlegt er að nota. Það mega menn vara sig á að gera. Hitt er sjálfsagt, að gera kröfur til þess að geta treyst í því efni á þá, sem hlut eiga að máli, að þessir krakkar læri meðferð vélanna það vel, að það sé óhætt að sleppa þeim við þá.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta frv. Það er töluvert flókið mál og margt, sem þar kemur til greina. En ég treysti á þær n., sem hafa undirbúið málið og að öðru leyti fjallað um það hér á Alþ., og vil yfirleitt helzt sem minnst breyta því frá því, sem það kom frá hv. Ed.