17.03.1958
Neðri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti, Allshn. hefur komið saman út af þessu frv., einkanlega vegna þeirra umræðna, sem fóru fram hér fyrir nokkrum dögum, þar sem kom fram allmikill skoðanamunur um nokkur atriði, og ræddum við í n. alveg sérstaklega um það atriði, sem þá kom fram varðandi 28. gr. frv., varðandi aldur unglinga við akstur dráttarvéla.

Það kom greinilega fram þá, að það rákust á þau öryggissjónarmið, sem ýmsir héldu fram og vissulega eiga fullan rétt á sér, og svo hins vegar hagsmunasjónarmið þess atvinnuvegar, sem viðkomandi atriði á við.

Við í n. ræddum þetta mál nokkuð, og niðurstaðan varð sú, að 3 nm., hv. þm. N-Þ. og hv. 2. þm. Reykv. ásamt mér, flytjum brtt. á þskj. 304, þar sem í staðinn fyrir, eins og það er nú í frv., „eigi þarf ökuskírteini til aksturs dráttarvéla“ o.s.frv., setjum við: Til aksturs dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við jarðyrkju- eða heyskaparstörf utan alfaravegar, þarf hæfnisskírteini. — Þessi till. okkar miðar nokkuð í þá átt að reyna að samræma þau sjónarmið, sem komu fram hér um daginn. Það er með till. viðurkennt, að það þurfi að hafa eitthvert ákvæði í lögunum varðandi þetta tiltekna atriði, og þeir hv. þm., sem lögðu sérstaka áherzlu á öryggissjónarmiðið þá, kynnu kannske að geta sætt sig við þessa málamiðlun, ef sett er inn í lögin, að hæfnisskírteini skuli þurfa, til þess að unglingar megi aka dráttarvélum.

Varðandi hitt atriðið, þ.e.a.s. hagsmuni atvinnuvegarins, þá ættu þeir aðilar, sem sérstaklega töluðu fyrir því, máske að geta sætt sig við þetta fyrirkomulag, fremur en hafa tiltekið aldurstakmark.

Það kom greinilega fram í umr. hér áður, að það eru ýmsir örðugleikar á því að setja aldurstakmark, hvort sem það væri 14 ár eða eitthvað annað, og því höfum við lagt fram þessa brtt., ef vera mætti, að samkomulag næðist þar um, enda hvor tveggja sjónarmiðin viðurkennd að nokkru með henni.

Búnaðarþing hefur alveg nýlega gert þál. varðandi þetta frv., og með leyfi hæstv. forseta, þá ætla ég að lesa till. þingsins.

Í fyrsta lagi: „Búnaðarþing ályktar að halda fast við ályktun sína og greinargerð um 28. gr. frv. til umferðarlaga, sem lá fyrir Alþingi 1957.“

Og í öðru lagi, sem væntanlega skoðast sem varatill.: „Ef Alþingi telur sér ekki fært annað en að hafa takmarkanir á aldri unglinga til aksturs heimilisdráttarvéla við heyvinnu og önnur bústörf, telur búnaðarþing, að betra sé fyrir bændur, að hæfnispróf verði lögleitt í þessu efni, heldur en að aldurstakmark verði ákveðið.“

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði. Það var þrautrætt hér fyrir nokkrum dögum og er öllum hv. þm. í fersku minni síðan.