28.03.1958
Neðri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Varðandi þær brtt., sem hv. þm. V-Húnv. hefur lagt fram, langar mig aðeins til að segja örfá orð.

Um seinni liðinn í brtt. á þskj. 352, þ.e. breytinguna við 81. gr., vildi ég fyrir mitt leyti segja það varðandi a-lið, um það, að kærði hafi eigi áður orðið sekur um sams konar eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem bifreiðastjóri, að því atriði er ég alveg samþykkur og tei, að það sé eðlilegt, að slíkt sé sett inn, með því að það er að sjálfsögðu aldrei um of ítrekað, að ef menn hafa gerzt sekir um þessi atriði áður, þá skuli það tekið til greina. Mér finnst því ekkert óeðlilegt við það, að þessi breyting komi.

En varðandi b-liðinn í brtt. við 81. gr., þá finnst mér þar skipta nokkuð öðru máli og vildi, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem umferðarmálanefndin hafði um það atriði að segja í fyrra:

„Þar sem sú leið er valin, að ökuleyfissviptingu skuli beitt að mun meira, en verið hefur, verður ekki hjá því komizt, að sviptingartíminn verði styttur að lágmarki til. Ber tvennt til. Ökuleyfissvipting kemur mjög hart og þó misjafnlega niður, og dómstólar mundu því stundum hika við að beita henni um langan tíma, þótt þeir teldu rétt að beita henni um skamman. Réttindasvipting er og mjög til þess fallin að hamla gegn brotum, þótt hún sé fyrst og fremst öryggisráðstöfun, en sviptingartími, sem verulegu nemur, er mjög til þess fallinn að draga úr hæfni ökumanns, er hann byrjar akstur að nýju.“

Umferðarmálanefndin gat um þetta, ef ég man rétt, þegar hún var eða nokkrir úr henni voru til viðtals við allshn. á sínum tíma, og hafði rætt þetta atriði sérstaklega og mælti mjög með því, að sá háttur væri tekinn upp að hafa ökuleyfissviptingartímann ekki lengri en 1 mánuð, með því að að öðru leyti væri mjög hert á þeim ákvæðum, sem nú eru í gildi.

Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til þess að standa að þessum b-lið, og mér finnst, að þau rök, sem umferðarmálanefndin hefur fært fram fyrir sinni afstöðu þar, eins og það er í frv. nú, séu mjög sterk.

Varðandi brtt. á þskj. 358, þá er hún, eins og hv. þm. V-Húnv. gat um, aðeins hugsuð koma til atkvæða, ef till. okkar fjórmenninganna yrði samþykkt.

Mér sýnist það mjög orka tvímælis, hvort þau rök hv. þm. eru sterkari, að eitt félag gæti stöðvað það, að heimildin væri notuð, eins og hann sagði, eða hitt, að eitt félag gæti pressað það í gegn, að heimildin væri notuð. Ef það t.d. hefði 51% af tryggingunum, þá mundi það koma þannig út, að öll hin félögin, sem gætu kannske og vildu hafa annan hátt á þessu og hefðu samkeppni sín á milli, verða að hlíta þessu. Mér virðist reynslan hafa verið sú, að á milli tryggingafélaga hafi verið allmikil samkeppni í þessum málum, og mér finnst ekkert óeðlilegt við það, að hún haldi áfram.

Það er ljóst, að ef þessu ákvæði er bætt þarna inn í gr., þá gæti, eins og ég sagði áðan, eitt eða kannske tvö félög, sem vildu standa saman, með nauman meiri hluta pressað það á öll hin félögin, og það finnst mér ekki sanngjarnt.

Um hitt atriðið, að eitt félag, sem hefði kannske 5%, mundi stöðva það, að heimildin væri notuð, þá held ég, að það hljóti að liggja einhver dýpri rök til þess þá, en að það litla félag gæti stöðvað það, enda ef tryggjendur telja sér hagkvæmara að tryggja hjá því félagi, sem notaði slíka heimild, þá er það væntanlega vegna þess, að tryggjendur vilja fá þennan litla stubb bættan, þessar 500 kr. eða 1000 kr., — og hví þá ekki lofa þeim að tryggja þar, sem þeir vilja? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.

Varðandi svo hitt atriðið, sem er aðalatriðið, eins og það liggur fyrir núna, hvort það skuli vera skylt, eins og það er samkv. frv., eða aðeins heimilt, eins og er samkv. till. okkar fjórmenningana, þá er það vitanlega aðalatriðið, sem mér sýnist að verði að hugsa um, hvort sé tryggjendum fyrir beztu. Ef tryggjendur sjálfir, bifreiðaeigendur, vilja fá tryggingu sína fulla og fullkomna, þá finnst mér, að það eigi að gefa þeim möguleika til þess, og ég hef ekki mikla trú á því, að bifreiðastjórar aki á aðra bíla eða geri bifreiðatjón að yfirlögðu ráði. Ég er ekki að segja, að það kunni ekki að eiga sér stað, ef einstöku prökkurum skyldi detta það í hug, en ég held, að það sé ekki almennt.

Ég held, að það vaki fyrir tryggjendunum fyrst og fremst að fá sína tryggingu þannig, að hún taki yfir þau væntanlegu tjón og þá óheppni, sem ökumenn verða fyrir, ef þeir valda tjóni. Og það er einmitt það, sem þeir eru að tryggja sig fyrir, að fá það tjón bætt, og því vil ég fyrir mitt leyti eindregið mæla með till. okkar fjórmenninganna og leggja til, að í frv. verði aðeins heimild.