29.11.1957
Neðri deild: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

35. mál, útsvör

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki skrifað undir álit það, sem hér liggur fyrir, með fyrirvara, en á þeim fundi hv. fjhn., þar sem þetta mál var tekið til afgreiðslu, lýsti ég því, að fylgi mitt við frv. væri bundið ákveðinni forsendu með tilliti til skilnings á lögunum, og fyrir því ætla ég nú að gera grein með örfáum orðum.

Lög þau, sem hér er verið að breyta, útsvarslögin, eru að ýmsu leyti orðin úrelt og ýmissa breytinga á þeim þörf. Það sjónarmið hefur og komið fram hjá einstökum hv. þm. í sambandi við önnur mál, er til umræðu hafa verið á þessu þingi, að heildarendurskoðun útsvarslaganna væri tímabær, og get ég fyllilega undir það tekið. Og meðal þeirra ákvæða laganna, sem ég tel að ýmsu leyti úrelt, þar eð þau eru frá tímum, er aðstæður voru ólíkar því, sem nú eru fyrir hendi, eru ákvæði laganna um eftirlit með útsvarsálagningu einstakra bæjar- og sveitarfélaga, en það er einmitt eitt þeirra ákvæða, sem frv. þetta gerir ráð fyrir að breytt sé.

Ákvæði útsvarslaganna um þetta efni eru tvenns konar: Í fyrsta lagi ákvæði 3. gr. útsvarslaganna um heimild félmrh. til handa til íhlutunar um útsvarsálagninguna. Þau kveða þannig á, að eigi megi hækka útsvör í neinu bæjarfélagi um meira en fimmtung eða 20% frá meðaltalsútsvarsálagningu þriggja undanfarinna ára. Tilgangurinn með þessu ákvæði er augsýnilega í fyrsta lagi sá, að koma í veg fyrir það, að útsvör séu hækkuð óeðlilega mikið frá ári til árs, og auk þess að tryggja nokkurt samræmi í útsvarsálagningu hinna einstöku bæjarfélaga. Um það atriði býst ég ekki við að sé neinn ágreiningur, hver tilgangur þessa ákvæðis er. Þessi ákvæði eru mjög gömul. Samsvarandi ákvæði voru í tilskipun um bæjarmálefni Reykjavíkur frá 1872, með þeim mun, að landshöfðingja var þá að vísu falið það vald, sem félmrh. er falið nú, En fyrirmyndin að þessu ákvæði mun hafa verið þágildandi lög um málefni danskra kaupstaða.

Á þeim tímum, sem þessi mjög gömlu ákvæði voru sett, voru aðstæður vitanlega allólíkar því, sem nú er. Verðlag var þá yfirleitt stöðugt, þannig að þær miklu og öru verðlagsbreytingar, sem við þekkjum nú, voru hlutur, sem ekki var reiknað með, Og sama máli gegndi um þá miklu búferlaflutninga, sem átt hafa sér stað t.d. milli sveita og bæja nú á síðustu áratugum. Af þessu, að breytingar, sem verða á útsvörunum, stafa ekki eingöngu af því, að útsvarsstigum hafi verið breytt, heldur og e.t.v. öllu meira af verðlagsbreytingum og fólksflutningum á milli staða, leiðir það, að ákvæðin í þeirri mynd, sem nú er, þyrftu endurskoðunar við og ekki er trygging fyrir því, að þau nái tilgangi sínum. Ef við þannig t.d. hugsum okkur, að fólki í einhverju byggðarlagi fækki mjög verulega og tekjur lækki, þá mundi viðkomandi sveitarstjórn geta þyngt útsvarsbyrðina mjög verulega eða allmiklu meira, en nemur þeim 20%, sem heimiluð eru, án þess að nokkur gæti nokkuð við því sagt. Ef hins vegar er um það að ræða, að fólki hafi fjölgað á einhverjum stað og tekjurnar hækkað, þurfa viðkomandi sveitarfélög að sækja um leyfi til hækkunar útsvara í samræmi við það, og það jafnvel þó að útsvarsstigar hafi verið lækkaðir, og einna nærtækasta dæmið um það er útsvarsmál Reykjavíkur á þessu ári, sem öllum hv. þdm. er kunnugt.

Annað meginákvæði núgildandi útsvarslaga um eftirlit með útsvarsálagningunni er ákvæðin um heimild einstökum útsvarsgreiðendum til handa, til þess að áfrýja úrskurði niðarjöfnunarnefndar í útsvarsmáli þeirra til yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar. Það virðist mér vera algerlega ljóst af útsvarslögunum, að sá hugsunarháttur liggur þeim til grundvallar, að heimildir þær, sem þessar nefndir hafa, eru fyrst og fremst fólgnar í því, að þeim er ætlað að samræma útsvör einstaklinga innbyrðis, gæta þess, að útsvar hvers einstaklings sé ákveðið í samræmi við hina gildandi útsvarsstiga. Hins vegar er ljóst, að þessum n. er ekki ætlað það vald að breyta sjálfum útsvarsstigunum, enda kæmi slíkur skilningur í bága við önnur ákvæði laganna, m.a. það, að þetta vald er falið félmrn., eins og áður hefur verið minnzt á. Skýrasta ákvæðið í þessu efni í núgildandi lögum er þó ábyggilega ákvæðið um 10%, sem nú á að breyta. Það ætti að vera ljóst, að bæri að skilja lögin þannig, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd hefðu heimild til þess að breyta útsvarsstigunum, þá væri það algerlega út í hött að hafa þetta ákvæði þannig, að heimilt sé að lækka öll útsvör um 10% eða meira, en ekki minna, enda mun það aldrei koma fyrir í raunveruleikanum, að deila um það, hvort útsvarsstigar séu hærri en vera eigi, eftir að útsvarsálagningin hefur gengið í gegnum sinn hreinsunareld í félmrn., snúist um upphæðir, sem nema meiru en 10% af álögðum útsvörum. Enda þótt sá skilningur á útsvarslögunum væri að vísu af öðrum ástæðum fráleitur, að þessar nefndir hefðu heimild til þess að breyta útsvarsstigunum, þá er þetta gleggsta ákvæðið, sem sker alveg úr um þetta atriði. En einmitt vegna þess að hér er um skýrasta beina ákvæðið að ræða, sem sker úr um það, að hlutverk þessara nefnda sé aðeins samræming útsvaranna innbyrðis, svo og vegna þess, að útsvarsmálið hér í Reykjavík hefur með réttu eða röngu blandazt nokkuð inn í umræður um þessi mál, beindi ég þeirri fsp, til hæstv. félmrh. í sambandi við 1. umr. málsins, hvaða skilning bæri að leggja í þetta atriði, hvort hér væri um það að ræða, að fela ætti þessum nefndum stóraukið vald frá því, sem áður hefði verið, eða hvort aðeins væri um það að ræða, að þær hefðu rýmri heimild, en áður til lagfæringar á útsvörum einstakra manna. Þó að mér fyndist að vísu, að svör hæstv. félmrh. væru ekki svo ljós sem æskilegt hefði verið, skildi ég hann á þann veg, að hér væri aðeins um að ræða rýmkun á heimild til handa þessum nefndum til þess að leiðrétta útsvörin innbyrðis, en ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að hann taldi, að réttarstaða sveitarfélaganna væri að öðru leyti óbreytt.

Í framhaldi af þessu inntum við hv. 5. þm. Reykv, eftir því í n., hvaða skilning bæri að leggja í þetta, en allir meðnm. okkar töldu, að þann skilning einn bæri að leggja í breytinguna, að hér væri um að ræða rýmkun á heimild yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar til innbyrðis samræmingar á útsvörunum, en töldu, að hinn skilningurinn, að þær hefðu með þessu öðlazt heimild til þess að breyta útsvarsstigum almennt, kæmi ekki til mála. Með tilliti til þessa tel ég, að ekki sé ástæða til þess að spyrna á móti því, að þessi breyting sé gerð. Að vísu tel ég, að þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir nauðsyn þessa, séu vafasöm. Það hefur t.d. verið nefnt, að útsvarsupphæðirnar næmu nú hærri krónutölu, en áður hefði verið. Það atriði tel ég að skipti ekki máli í þessu sambandi. Aðalatriðið er hitt, hve mikinn hluta af tekjum sínum mönnum beri að greiða í útsvar. Enn fremur má á það benda, að sú lagfæring, sem hér er um að ræða, kemur fyrst og fremst til góða hinum stærri gjaldendum, því að þegar um lágtekjufólk er að ræða, skiptir deila um útsvar innan þeirra takmarka, sem hér er um að ræða, það litlu máli, að kæra borgar sig ekki. En þar sem það er skoðun mín og okkar sjálfstæðismanna yfirleitt, að greiða beri fyrir því, að einstaklingar geti leitað réttar síns, ef þeir telja sig órétti beitta, hvort sem er í sambandi við útsvarsálagningu eða annað, og telja má, að þetta ákvæði laganna sé spor í þá átt, þó að lítilvægt sé, þá leggjum við til, að frv. verði samþykkt, með þeim skilningi, sem ég nú hef tekið fram.

Hv. 5. þm. Reykv. hafði skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég ætla, að hans fyrirvari sé sprottinn af því sama sem ég nú hef gert grein fyrir, en að öðru leyti mun hann gera frekari grein fyrir sínum fyrirvara, ef það hefur ekki komið nægilega fram í því, sem ég hef um þetta sagt.