21.04.1958
Neðri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Eftir að umr. var frestað, hefur allshn. komið saman og athugað frv., eins og það liggur fyrir nú, og vildi ég með örfáum orðum gera grein fyrir þeim breytingum, sem hafa verið gerðar á frv. í Ed.

Það er í fyrsta lagi við 25. gr., að þar er fellt niður það ákvæði, sem sett var inn í frv., að hverfi ökumaður af vettvangi, eftir að hann hefur átt hlut að umferðarslysi, en náist skömmu síðar með áfengisáhrifum, þá sé talið, að hann hafi verið undir áfengísáhrifum við aksturinn.

Þá er það enn fremur í 28. gr., 1. málsgr., að eins og frv. fór frá þessari deild, þá var gert ráð fyrir, að það þyrfti hæfnisskírteini til aksturs dráttarvéla við jarðyrkjustörf, Þessu er aftur breytt í Ed., þannig að nú stendur aðeins: „Eigi þarf ökuskírteini til aksturs dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við jarðyrkjustörf utan alfaravegar.“

Þriðja breytingin er svo við 73. gr. Henni er breytt í það upphaflega horf, sem hún var í frv. sjálfu, felldar niður þær breytingar, sem gerðar voru hér í d. áður, en greinin tekin upp eins og hún var upphaflega í frv.

Allshn. leggur ekki til, að gerðar séu neinar breytingar á frv., eins og það kemur nú frá Ed., en einstakir nm. kunna vitanlega að standa að eða fylgja brtt., sem kynnu að koma fram. Tíminn fer nú mjög að styttast, einkanlega vegna þess, að tryggingafélögin þurfa nauðsynlega vegna sinna starfa í sambandi við tryggingu bifreiða að fá þessi lög samþ. fyrir 1. maí, þegar gert er ráð fyrir að þau taki gildi, og n. varð sammála um að bera ekki fram sem slík eða standa sameiginlega að neinum breytingum, og því höfum við engar till. að gera um breytingar í sambandi við frv., eins og það liggur fyrir.