06.02.1958
Neðri deild: 47. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Eftir beiðni hreppsnefndarinnar í Eyrarbakkahreppi hef ég leyft mér að flytja frv. það á þskj. 184, sem hér er til 1. umr., um heimild handa ríkisstj. að selja Eyrarbakkahreppi land það, sem þorpið Eyrarbakki stendur á, eða nánar tiltekið lönd jarðanna Einarshafnar, Skúmsstaða og Stóru-Háeyrar með hjáleigum og eignarnámsheimild á erfðafesturéttindum, að undanskildum þeim eignarlóðum, sem þegar hafa verið seldar úr landi Stóru-Háeyrar.

Í grg., sem fylgir frv., eru dregnar fram þær helztu forsendur og þau helztu rök, er hreppsnefndin byggir á óskir sínar um að fá keyptar þær lendur, er um ræðir í frv., en til frekari glöggvunar fyrir þá hv. alþm., sem ókunnir eru aðstæðum á Eyrarbakka og fortíð staðarins, vil ég fara um málið nokkrum orðum.

Eyrarbakki mun vera meðal elztu þorpa í landinu og einn hinn elzti verzlunarstaður, og var allt fram á daga þeirra, sem enn lifa, verzlun sótt þangað af stærra svæði, en að nokkrum öðrum verzlunarstað á landi hér, en það var úr Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafeilssýslu. Vegna verzlunarinnar myndaðist þorpið, og þrátt fyrir þótt þar væri einhver hættulegasta brimlending, sem til er, þá var þar þó alltaf talsvert útræði samfara þeirri atvinnu, sem verzlunin skapaði. Landbúnað höfðu Eyrbekkingar alltaf, og hefur sá þáttur í atvinnulífi þeirra mjög aukizt á síðustu áratugum.

Upp úr aldamótunum síðustu keypti Eyrarbakkahreppur Flóagaflstorfuna í Sandvikurhreppi, en land hennar lá að löndum Eyrbekkinga, í því skyni að notfæra hana handa þorpsbúum til slægna, en þar eru slægjulönd góð. Er mér minnisstætt frá bernskuárum mínum, þegar hinar löngu heybandslestir Eyrbekkinga voru að koma utan úr engjum, eins og það var kallað, með hina kraftmiklu gulstör í böggum. Flóagaflstorfan var sameinuð Eyrarbakkahreppi með lögum frá Alþingi 7. maí 1946.

Þorpið stendur á landi þriggja fornra jarða, Stóru-Háeyrar, Skúmsstaða og Einarshafnar. Jarðir þessar hefur ríkið átt um alllangt skeið, en áður átti Landsbankinn þessar jarðir. Eins og flest hin eldri þorp hér á landi, þá byggðist Eyrarbakki án skipulags, en nú eru liðnir rúmlega tveir áratugir, síðan staðfestur var skipulagsuppdráttur fyrir þorpið.

Eyrbekkingar hafa öðrum landsmönnum fremur þurft að heyja harða baráttu til að verja byggð sina fyrir eyðingu náttúruafla, og sýndu þeir í því starfi mikla þrautseigju, er þeir hlóðu sjóvarnargarð frá Ölfusárósum austur fyrir Hraunsá. Er þetta langur vegur, og þurfti mikið efni í þennan sjóvarnargarð, en hann er allur hlaðinn úr hraungrjóti, sem sótt var alllangt að, og var það aðallega flutt á sleðum, þegar ísalög voru á vetrum, en þá voru ekki önnur flutningatæki til.

Þetta mikla og merkilega verk hefur bjargað byggðinni undan hafrótinu, sem áður olli næstum árlega stórtjóni á landi og mannvirkjum. Eru þar nú grasgefnar grundir og matjurtagarðar, sem áður en sjóvarnargarðurinn var byggður voru sandar og grjót, sem sjórinn skolaði á land í hinum stórkostlegu hamförum við strönd bakkans.

Árið 1897 var Stokkseyrarhreppi hinum forna skipt, og var þá þorpið á Eyrarbakka gert að sérstöku hreppsfélagi, Eyrarbakkahreppi. Innan hins nýja hreppsfélags voru þessar jarðir: Stóra-Hraun með hjáleigum, Litla-Hraun, Gamla-Hraun, Stóra-Háeyri, Skúmsstaðir og Einarshöfn, allar með hjáleigum, og Óseyrarnes með hjáleigunni Refstokki.

Þremur árum áður en þetta var, hafði verið stofnað búnaðarfélag í hinum forna Stokkseyrarhreppi, en við myndun hins nýja Eyrarbakkahrepps var stofnað þar sérstakt búnaðarfélag, sem enn starfar, og var það eitt fyrsta verk þess að gangast fyrir byggingu sjóvarnargarðsins. Að vísu var þá þegar búið að byggja sjóvarnargarða á vissum svæðum, svo sem fyrir landi Lefolíus-verzlunar og fyrir landi Stóru-Háeyrar. En endurbæta þurfti þessa kafla og hækka þá. Þegar búnaðarfélagið hafði lokið byggingu sjóvarnargarðsins, var tekið til við sandgræðslu, og sá Gunnlaugur heitinn Kristmundsson um framkvæmd þess verks. Voru girtir 152 ha., sem nú er allt gróið land og notað fyrir matjurtarækt, slægjur og beit.

En þó að mikið afrek væri unnið með því að bjarga Eyrarbakka frá sjávarflóðum, þá var þó björgunarstarfinu ekki lokið með því. Að Eyrarbakka norðanverðum liggur hinn mikli landfláki, Breiðamýri. Hún er tugir þúsunda ha. að flatarmáli og þekur mjög mikið af því svæði, sem í daglegu máli er nefnt Flói. Hallinn á Breiðumýri liggur allur að Eyrarbakka, og þaðan kom hinn ægilegasti vatnsflaumur á vetrum í leysingum og á öllum árstímum, þegar rigningar voru miklar. Næsta átak var því að ræsa þann mikla vatnsflaum fram og koma honum til sjávar. Á þessu verki var byrjað fyrir nær 30 árum, og þá keyptu Eyrbekkingar þúfnabana og tættu með honum um 50 ha. í mýrum norðan við þorpið, og er það land nú fyrir löngu orðið að túnum. Síðan hefur landþurrkun og ræktun verið haldið áfram. Er nú öðruvísi um að litast á þessum slóðum en áður var, og geta ókunnugir ekki ímyndað sér breytinguna, sem orðið hefur, eða réttara sagt, hvernig þarna var umhorfs áður.

Eyrarbakkahreppi hefur nú verið bjargað um aldur og ævi frá ágangi sjávarins. Hinn mikli sjóvarnargarður er nú að mestu hulinn þykku jarðvegslagi, því að sandur barst að honum beggja vegna og greri síðan, svo að út frá honum eru nú ávalar grundir. Landið hefur hækkað í kring, landbrotið og jarðvegsfokið er fyrir löngu stöðvað, og vegna landþurrkunar eru fen og foræði orðin að hörðum túnum og valllendishögum. Þó er enn mikið verk óunnið við landþurrkun.

Til allra þessara framkvæmda hefur verið lagt fé af hálfu þess opinbera, og eru Eyrbekkingar þakklátir fyrir það. En mest hafa þeir þó sjálfir lagt fram, eins og eðlilegt er, Þeir hafa bjargað byggð sinni og gert landið, þar sem þeir búa, fegurra og margfalt betra, en það var áður. Nú óska þeir eftir því að kaupa þetta land, sem segja má að hafi verið með dugnaði og harðsækni sótt í heljargreipar. Þá langar til, að hreppsfélagið eignist landið og hafi sjálft umráð yfir því að öllu leyti. Um þetta eru þeir allir sammála.

Mín persónulega skoðun er sú, að í raun og veru sé eðlilegt og sjálfsagt, að bæjarfélög og þorp eigi sjálf það land, sem þau þurfa íbúunum til nytja og nauðsynja. Eyrbekkingar hafa alltaf verið fúsir til þess að leggja fram krafta sína sjálfum sér og sveitarfélagi sínu til framdráttar. Þeir sækja þar sjóinn við hin erfiðustu skilyrði og hafa komið upp hjá sér hraðfrystihúsi og fiskvinnslustöð til að hagnýta aflann. Þeir hafa byggt dráttarbraut fyrir fiskibáta, og nokkur iðnaður er rekinn í þorpinu. Landbúnaður mun þó í framtíðinni eflast þar meir en orðið er og verða meginbjargræðisvegur íbúanna.

Ég hef rakið nokkuð og þó ekki nema í mjög fáum dráttum framkvæmdasögu þessa litla þorps, þar sem íbúarnir eru milli 500 og 600, til þess að sýna, að þar eru engir aukvisar að verki, heldur menn, sem hafa vilja og eru færir um að standa á eigin fótum. Slíkt byggðarlag, sem skipað er dugandi fólki, á skilið að vera sjálft eigandi þess lands, þar sem það stundar þýðingarmikla bjargræðisvegi.

Dugandi menn kunna því illa að vera um alla framtíð leiguliðar ríkisins. Þess vegna óska þeir nú eftir því að mega kaupa það land, sem líf og starf íbúanna er grundvallað á.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til, að þegar þessari umræðu er lokið, þá verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. landbn.