21.04.1958
Neðri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þegar frv. á þskj. 184 um heimild handa ríkisstj. til að selja Eyrarbakkahreppi land jarðanna Einarshafnar, Skúmsstaða og Stóru-Háeyrar var hér til 2. umr., þá hafði landbn. fjallað um málið og gert á því þá breytingu að fella inn í það frv. um sölu Raufarhafnar. Er álit n. á þskj. 299, og voru allir nm. sammála um afgreiðsluna. Lýsti ég þá fyrir hönd n. í fáum orðum afstöðu hennar, sem var að öllu leyti ágreiningslaus og á þá lund, að mælt var með því, að málið næði fram að ganga óbreytt efnislega.

Við umr. gerði hv. 1. þm. Reykv. fsp. um það, hvort n. væri kunnugt um orðróm, sem væri á kreiki um, að áhugi Eyrbekkinga fyrir kaupum á landinu væri e.t.v. til kominn vegna sandsölu frá Eyrarbakka til Reykjavíkur og víðar og deilna, sem orðið hefðu nýlega milli stéttarfélaga vörubílstjóra annars vegar hér í Reykjavík og hins vegar í Árnessýslu um rétt til vöruflutninga. Óskaði hann eftir athugun á því, hvort þessi orðrómur hefði við rök að styðjast, og fór þess á leit, að málinu yrði frestað til frekari athugunar á þessu atriði, annaðhvort þá þegar eða fyrir 3. umr.

Málinu var svo frestað, og tók n. þetta atriði til athugunar.

N. kallaði fyrir sig fulltrúa hreppsnefndarinnar á Eyrarbakka, fulltrúa frá Landssambandi vörubilstjóra og fulltrúa frá Vörubilstjórafélaginu Þrótti hér í Reykjavík, einnig fulltrúa frá Vörubilstjórafélagi Árnesinga. Í viðræðum n. við þessa aðila kom þegar í ljós, að fulltrúar vörubilstjóranna hér í Reykjavík töldu, að áhugi Eyrbekkinga fyrir því að kaupa landið væri til kominn m.a. til þess, að þeir gætu þá fremur útilokað þá frá sandflutningum til Reykjavíkur, og vildu þeir láta undanskilja við sölu landsins töku vikursands á Eyrarbakka. Hins vegar upplýsti fulltrúi hreppsnefndarinnar og sannaði með skriflegum heimildum, að 14 ár eru síðan forráðamenn hreppsfélagsins fóru að hugsa um að fá landið keypt handa hreppnum, og var þá ekki um neina sandflutninga þaðan að ræða. Hafði þáv. 2. þm. Árn., Eiríkur sálugi Einarsson, verið með þeim í ráðum um þetta. Ekki varð þó úr því, að til alvöru kæmi í þessu þá, þó að oft væri um þetta rætt þá og síðar, fyrr en nú, að hreppsnefndin í vetur bað okkur þm. kjördæmisins að leggja fyrir Alþ. frv. það, sem hér liggur fyrir, og réðst svo millum okkar hv. samþingismanns míns, að frv. yrði lagt fyrir þessa hv. d. og ég þá að sjálfsögðu yrði flm. þess.

Þegar landbn. hafði rætt við þá aðila, sem hér hafa verið nefndir, þá ákvað hún að fara austur á Eyrarbakka og kynna sér með eigin augum aðstæður allar. Var sú ferð farin 28. marz s.l., og voru með í ferðinni formaður Landssambands vörubilstjóra og forstöðumaður jarðeignadeildar ríkisins. Og að sjálfsögðu fór hv. samþingsmaður minn, Sigurður Ó. Ólafsson, einnig með í þessa ferð.

Ég hef áður lýst því lítils háttar, hvernig vikurnáminu á Eyrarbakka er háttað. Það er með þeim hætti, að vikursandurinn berst innan úr öræfum með Hvítá-Ölfusá til sjávar og rekur á fjörur Eyrarbakka. Mest brögð eru að vikurrekinu, þegar vöxtur hleypur í ána. Vikurinn sezt í hrannir í fjörunni á tiltölulega stuttu svæði, og til þess að hann komi að notum, þarf að hirða hann úr fjörunni strax og þá á milli sjávarfalla. Annars skolast hann aftur í sjóinn og dreifist þá með nýju flæði víðar um, og ef sandgárarnir verða eftir í fjörunni við minnkandi háflæði, þá fjúka þeir í burtu, ef vind gerir, eða dreifast innan um þara og rusl, því að þessi sandur er fisléttur. Til þess að vikursandurinn, sem þarna rekur, verði hagnýttur, þarf að vera vel á verði um að hirða hann jafnóðum og koma honum eins og hverjum öðrum reka undan sjó. Þess vegna er það, að bílstjórar á Eyrarbakka, sem flytja sandinn til kaupenda, grípa hverja stund, sem hentar, til þess að ná sandinum úr flæðarmálinu og flytja hann upp fyrir sjóvarnargarðinn, þar sem þeir safna honum í haug, þar til einhver pantar sand. Stundum er kannske hægt að ná einu hlassi eða tveimur, stundum aðeins hálfu hlassi, stundum kannske aðeins einni kerru. Mér er því ómögulegt að sjá, hvernig bílstjórar, sem heima eiga í mikilli fjarlægð, eiga að geta hagnýtt sér þessa sandtöku sem atvinnu.

Af þessu má það einnig vera ljóst hverjum manni, að þarna er ekki um neina vikurnámu að ræða. Ef svo hefði verið, þá væri allt öðru máli að gegna, og hefði afstaða mín þá til málsins að þessu leyti verið öðruvísi.

Landbn. er enn sammála um að mæla með því, að Eyrarbakkahreppur fái umrætt land keypt, en hins vegar hafa tveir nm. nú lagt fram brtt. á þskj. 389, þar sem þeir leggja til, að undanskilin sé við sölu landsins taka vikursands nema til framkvæmda á vegum hreppsfélagsins. Mér er ómögulegt að skilja þessa breyttu afstöðu hv. nm. til málsins, eins og aðstaðan er til vikurnámsins og ég hef lýst. Og ég stend í þeirri meiningu, að ef þessi till. yrði samþ., þá yrði mjög lítið um það, að vikursandurinn frá Eyrarbakka kæmi mönnum utan hreppsins að gagni sem byggingarefni, því að eins og ég hef áður drepið á, hver á að bjarga sandkornunum, jafnharðan og þau berast í flæðarmálið, undan sjó og safna þeim í dyngju, því að oftast er um mjög litið magn að ræða í einu? Ég legg því eindregið til, að brtt. verði felld og frv. verði samþ. í sinni núverandi mynd, og er það afstaða meiri hl. nefndarinnar,

Þá vil ég geta þess, að landbn. hefur tekið til athugunar brtt. á þskj. 354 frá hv. þm. Snæf. og hv. 10. landsk. um að selja Eyrarsveit jörðina Hrafnkelsstaði og að selja Þorvarði Einarssyni á Bakka í Stykkishólmshreppi jörðina Kiðey í sama hreppi. Mælir n. einróma með því, að þessi brtt. verði samþykkt.

Ég vænti svo þess, að málið nái fram að ganga.