21.04.1958
Neðri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Skagf. höfum leyft okkur að flytja brtt. við frv. það, sem hér er til 3. umr. Brtt. okkar er á þskj. 389 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við I. gr. Við 1. tölulið bætist:

Undanskilin við sölu landsins sé taka vikur sands, nema til framkvæmda á vegum hreppsfélagsins.“

Þegar frv. hv. 1. þm. Árn. á þskj. 184 um heimild handa ríkisstj. að selja Eyrarbakkahreppi land jarðanna Einarshafnar, Skúmsstaða og Stóru-Háeyrar í Eyrarbakkahreppi var til umr. í landbn. deildarinnar, var það sent jarðeignadeild ríkisins til umsagnar. Í bréfi frá jarðeignadeildinni frá 26. febr. s.l. er mælt með sölu áður nefndra jarða, en þar er enn fremur lagt til að undanskilja sölu landsins töku sands, malar og vikurs nema til framkvæmda á vegum hreppsfélagsins.

Það er ekki óalgengt út af fyrir sig, þegar nýjar upplýsingar koma fram í hinum ýmsu málum, sem liggja fyrir fundum í deildum, að þá séu málin tekin fyrir á ný og athuguð og rædd, og það er það, sem hér hefur gerzt. Í sambandi við þetta álit jarðeignadeildarinnar leggjum við sem sagt til, hv. 2. þm. Skagf., að undanskilja við sölu landsins töku vikursands nema til framkvæmda á vegum hreppsfélagsins. Í bréfi jarðeignadeildarinnar er lagt reyndar til að undanskilja bæði sands- og malartöku, en við teljum, að sé hætta á ferðinni með það, að of mikið sé tekið af þessu byggingarefni, þá muni það falla undir vitamálaskrifstofuna og að það sé þá að fara eftir hennar áliti um það, hvort taka byggingarefnis á þessum stað getur orsakað landbrot eða ekki.

Taka vikursands á þessum stað virðist vera allmikið deilumál, eins og kom fram hér í ræðu hjá hv. flm., á milli vissra aðila, og álit okkar er það, sem flytjum þessa till., að sú deila verði frekast leyst með því, að vikursandurinn verði áfram í eigu ríkisins og að það opinbera úthluti leyfum til þeirra, sem óska eftir því að fá þetta efni.

Það er öllum ljóst, að vikursandur er alldýrt og eftirsótt byggingarefni og að vikur sá, sem þarna rekur á fjörur, er mjög eftirsóttur, m.a. til einangrunar.

Þó að samþ. verði að undanskilja vikurtökuna við sölu landsins, ætti það ekki að verða til neins verulegs baga fyrir Eyrbekkinga eða fyrir íbúa Eyrarbakkahrepps. Það hlýtur þó að vera aðalatriðið í málinu, að Eyrarbakkahreppur fái eignarheimild á landinu sjálfu, og hitt hlýtur þó frekar að vera aukaatriði, hvort undanskilin er vikurtakan eða ekki, sérstaklega þegar það er þá haft í huga, að leyfilegt er að nota vikursandinn til allra framkvæmda á vegum hreppsfélagsins. Að öðru leyti mælum við eindregið með því, að frv. verði samþ., þó með þeirri breytingu, sem um getur á þskj. 389, sem ég þegar hef lýst.