06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef undirritað nál. þetta með fyrirvara, að því er varðar 3. tölulið, en er að öðru leyti algerlega sammála því, að frv. nái fram að ganga. Fyrirvarinn varðar sölu á Skógarkoti í Andarkílshreppi til eiganda Grjóteyrar.

Land þetta, sem er nú sennilega ekki mjög verðmætt, liggur upp að Grjóteyrarlandi. Hins vegar er mér tjáð, að þeir Grjóteyrarmenn hafi nægilegt land til umráða, nægilegt olnbogarými.

Þá er og vitað mál, að meðan land Skógarkots er ógirt og ekki nytjað af Hvanneyri, þá geta Grjóteyrarmenn að sjálfsögðu nytjað það, því að búpeningur þeirra spyr ekki um landamerki. En þá er að athuga hvaða hagsmuni Hvanneyri hefur af því að eiga þetta land. Þeir, sem leitað hefur verið umsagnar hjá, telja þá hagsmuni litla. Skólastjóri Hvanneyrarskólans hefur á hinn bóginn lagt á móti því, að frv. þetta næði fram að ganga, bæði í fyrra og aftur núna.

Margir ætla Hvanneyri og Hvanneyrarskólanum enn meira hlutverk í búnaðarfræðslunni hér á landi, en verið hefur hingað til. Á ég þar við, að þeir muni vera ærið margir, sem álíta, að þar eigi í framtíðinni að rísa búnaðarháskóli. Ég sé því ekki, ef ég ber saman hagsmuni þessara tveggja jarða, beina ástæðu til að vera að selja þetta land undan Hvanneyri gegn ítrekuðum og ákveðnum mótmælum skólastjóra.

Ég mun því greiða atkvæði á móti þessum tölulið og legg til, að hann verði felldur út úr frv., en að öðru leyti, að það nái fram að ganga.