06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, erum við nm. sammála, og frsm. hefur tekið fram ástæðurnar fyrir því og þarf ekki um það að tala, en hins vegar vildi ég gjarnan segja nokkur orð út af Skógarkotinu.

Skógarkotið er eyðijörð, sem var byggð þegar Árni Magnússon var á ferðinni, og þá var þar, ef ég man rétt, 1 kýr og 18 eða 19 kindur, sem áttu að fóðrast á útigangi, því að heyskapur var enginn. Mjög stuttu þar á eftir lagðist það í eyði og hefur verið í eyði síðan, en fylgdi Hvanneyrartorfunni, eins og reyndar fleiri jarðir, Kvígsstaðir, Horn o.s.frv. Mikið af þessum jörðum er lagt undir Hvanneyri og eru komnar í eyði, eins og Svíri, Ásgarður, Tungutún, Hamrakot, Hóllinn o.s.frv., og er því Hvanneyri samsteypa af mörgum jörðum, sem komnar eru í eyði, en enn þá eru byggðar Ausan og Kvígsstaðirnir og Hornið.

Ég kom á Hvanneyri 1909 sem kennari og var þar til 1920. Öll þau ár bjó Halldór Vilhjálmsson á Hvanneyri sem bóndi og skólastjóri, og þá notaði hann Skógarkotið á þá leið, að hann rak þangað stóðið sitt, ótömdu hrossin, að vorinu og hafði þau þar sumarið yfir og stundum fram á vetur. Þau voru náttúrlega ekki í Skógarkotslandinu, því að það er allt of lítið til þess, og þar að auki er töluvert af því uppblásið, heldur voru þau í Hafnarskógi, í Hafnarlandi, en Hafnarskógur er, eins og kunnugir menn vita, nokkurs konar almenningur fyrir stóð þeirra í Leirár- og Melasveit að sumrinu, sem safnast þar saman og heldur sig þar, — og hefur meira að segja komið fyrir, að hross hafa komið úr skóginum, sem menn hafa ekki vitað hvar voru, eftir tveggja ára skeið.

Halldór notaði þetta svona. Svo kom Runólfur. En þá var nú viðhorf til hrossanna dálítið breytt. Það var hætt að hafa mikið af stóði, og það, sem þá var, fyrst eftir að hann kom, var einungis til þess að viðhalda tömdum hrossum. Svo komu dráttarvélar í stað hrossanna, svo að þau hurfu, og ég veit ekki til, að Runólfur hafi notað landið nema tvö fyrstu árin, sem hann var á Hvanneyri. Þá rak hann þangað ótömdu hrossin. Svo fækkaði hann þeim, og hann sá þá ekki ástæðu til þess að nota Skógarkot, og Guðmundur Jónsson hefur aldrei notað það til nokkurs hlutar árin sem hann hefur verið á Hvanneyri. Hann hefur aldrei haft þarna nokkra skepnu eða notað það til nokkurs hlutar og hefur því enga ástæðu til að ætla, að Hvanneyri þurfi á neinn hátt á því að halda. Um það, hvort á Hvanneyri verður landbúnaðarháskóli eða ekki, skal ég láta alveg ósagt, það er mál út af fyrir sig. En þó að það yrði gert að landbúnaðarháskóla, þá verður ekkert gert með Skógarkotið. Að vísu væri hugsanlegt að girða Skógarkotið af og planta þar skóg. Það eru þar dálitlir runnar, svona hnéháir, eins og í Hafnarskógi. Það er hugsanlegt að friða hann og í skjóli þessara runna gróðursetja þar barrtré og reyna að fá þar upp skóg. Þetta væri hugsanlegt að gera við Skógarkotið og kannske setja það að einhverju leyti í samband við skólann, þó að honum sé nú ekki beint ætlað það hlutverk að sjá um skógrækt nema sem garðrækt í kringum bæinn.

Að öðru leyti kemur ekki til greina, að Hvanneyri noti Skógarkotið. Það er ekki heldur það, sem vakir fyrir þeim, sem ekki vilja láta selja þessa jörð, heldur er það hitt, að það er komið á um Mýra- og Borgarfjarðarsýslu nautgripasamband, sem í eru flestir bændur í héraðinu, sem hafa sameiginlegt nautahald og sæðingarstöð, sem þeir sæða frá.

Það hefur ýmsum dottið í hug, einmitt af því að þetta land er ekkert notað, að setja þar upp girðingu til að geyma í naut, sem eru annaðhvort lítið notuð og þó helzt reyndar ekkert notuð, að sumrinu. Ég tel þetta land algerlega óhæft til þess, og hefði ég verið enn þá nautgriparáðunautur og verið borið undir mig, hvort ætti að nota þetta land, þá hefði ég sagt nei. Það er ósköp lítið. Lengdarhliðin á því liggur meðfram alfaravegi, veginum norður í landið, og girðingin yrði meðfram honum. Og þó að maður geri ráð fyrir, að girðingin fái að vera í friði, þá er það nú svona, að það eru á ýmsum stöðum gerð skemmdarverk og girðingin liggur alveg meðfram vegi, sem fólkið fer um og sér nautin fyrir innan og svo er kannske einhver að yggla sig framan í þau o.s.frv., þá tel ég það ekki heppilegt, — það er nú það fyrsta. Í öðru lagi er mikill meiri hluti af þessu litla landi, sem Skógarkot á, flög og ekkert haglendi, en upp undir kverkinni graslendi, og graslendið sæmilegt kannske fyrir eitt eða tvö naut, sem gætu verið þar að sumrinu til, það er ekki miklu meira, sem þar er um að ræða. En þá liggur þetta á því svæði undir Hafnarfjalli, sem á koma slík ódæmaveður, að hver skepna, sem þar er, nema þá því meira ullað sauðfé, blotnar inn að skinni, og er ákaflega óheppilegt að hafa nautkindur úti vörzlulausar í slíkum veðrum. Ég mundi þess vegna aldrei hafa mælt með því, hefði ég verið ráðunautur, að það land væri tekið undir nautagirðingar, — og það er það eina, sem þeir menn hafa talað um, sem halda fram, að landið mætti ekki seljast, af því að það þyrfti að nota það til þess arna, og telja, að þar sem það væri almannaeign, þá væri rétt að nota það á þennan hátt í almannaþágu. Ég vil þess vegna vona, að þeir verði fáir, sem greiði atkvæði með því, að þessi liður falli út úr frv. Ég tel, að hann eigi alveg hiklaust að vera þar.