09.05.1958
Neðri deild: 90. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

177. mál, eignarnámsheimild fyrir Hvammstangahrepp

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv, um eignarnámsheimild fyrir Hvammstangahrepp á erfðafesturéttindum í eignarlandi hreppsins er komið frá Ed., og hefur heilbr.- og félmn. verið sammála um afgreiðslu málsins þar og mælti með frv. En frv. er borið fram samkvæmt ósk hreppsnefndar Hvammstangahrepps, og virðist hreppsnefndin hafa verið einhuga um að óska eftir þessari heimild.

Í grg. fyrir frv. á þskj. 410 er skýrt frá, hvers vegna sérstaklega er óskað eftir þessari eignarnámsheimild. Það er að nokkru leyti vegna skipulags í kauptúninu, og þarf að breyta þá og fara inn á lönd, sem einstaklingar hafa nú erfðafesturéttindi á, og svo sömuleiðis til þess að hreppsnefndin geti haft yfirleitt meira vald á þessum málum öllum.

Heilbr.- og félmn. þessarar d. er einhuga um að mæla með samþykkt frv. óbreytts, eins og það hér liggur fyrir.