10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Hv. þm. V-Sk. (JK) vill nú ganga lengra, en lagt er til í þessu frv, Hann sagði, að ástæðan til þess, að miðað hefði verið áður í lögunum við 10%, hefði vafalaust verið sú að koma í veg fyrir, að menn gerðu sér leik að því að kæra út af útsvari sínu áfram til yfirskattanefndar eða ríkisskattanefndar, og fyrirbyggja þannig, að menn væru með slík kærumál, nema veruleg ástæða væri fyrir hendi.

Það má vel vera, að þetta hafi verið tilætlunin, og skal ég ekki fara nánar út í það. En útsvör eru nú orðið svo há að krónutölu, að það getur verið um allverulega upphæð að ræða, þó að ástæða sé til þess að breyta útsvari vegna minni skekkju en 10%.

Við skulum segja, að maður hafi 20 þús. kr. útsvar. Þá fær hann enga leiðréttingu á því máli, nema því aðeins að skekkjan nemi 2.000 kr. eða meira. Og ég vil segja, að margur mundi telja ástæðu til þess að skrifa stutt kærubréf til yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar, þó að hann hefði ekki von um að fá lagfæringu, sem næmi upphæð, sem lægi í kringum 2.000 kr. Það er góð borgun fyrir að skrifa eitt lítið bréf og sannarlega, þó að krónan sé ekki verðmikil, ástæða til þess að leiðrétta skekkju, sem væri upp að 2.000 kr.

Maður, sem hefði 14 þús. kr. útsvar, gæti ekki átt þess von að fá leiðrétta skekkju, sem hann teldi vera í álagningu útsvars síns, nema því aðeins að hann ætti rétt á að fá 1400 kr. leiðréttingu. Mér þætti líka vera ástæða til þess að leiðrétta slíka skekkju, og það væri fyllilega ástæða, sem réttlætti það, að viðkomandi gjaldandi settist niður og skrifaði stutt kærubréf út af því til yfirskattanefndar eða ríkisskattanefndar.

Á þetta virðist mér líka vera fallizt af hv. þm. V-Sk., að það sé ástæða til að heimila yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd leiðréttingar niður fyrir það mark, sem nú er í lögum, 10%, og hygg ég því, að þetta sé ekkert deiluatriði okkar á milli. Ég hafði það meira að segja í huga, þegar ég samdi þetta frv., hvort ekki væri ástæða til þess að fella markið alveg niður. Þannig er það hjá niðurjöfnunarnefnd. Gjaldandinn getur kært, hversu litið sem hann telur að hann eigi rétt á að fá útsvar sitt lækkað. Og það má vel vera, að það sé bezt í samræmi við það, að ekkert lágmark sé heldur hjá yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd. Mér finnst, að þetta komi því vel til athugunar hjá þeirri hv. n., sem fær frv. til meðferðar. En þeirri hugsun, sem var með 10% markinu, er haldið með 3% markinu nú, og má segja, að það sé ekki um háar upphæðir að ræða til leiðréttingar og kannske ekki ástæða til að ómaka yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd til þess að gera breytingu á útsvari, sem þá vafalaust hefur áður verið kært til niðurjöfnunarnefndar, ef þessir aðilar telja skekkjuna vera innan við 3%. Ég tel því mjög álitamál, hvort afgreiða beri frv. óbreytt eða taka til greina þá till., sem hv. þm. V-Sk. bar hér fram, því að það hvarflaði meira, en að mér að hafa það eins og hjá niðurjöfnunarnefnd, að hafa ekkert lágmark. Og ég treysti fyllilega hv. n., sem frv, fær til meðferðar, að athuga það, og set mig þannig ekkert upp á móti þeirri hugsun nú að óathuguðu máli frekar og læt það í vald n. að athuga þá ábendingu, sem fram hefur komið.