06.05.1958
Neðri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

183. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Samkvæmt gildandi lögum um sýsluvegasjóði er skattur til sýsluvegasjóðanna innheimtur sem ákveðinn hundraðshluti af fasteignamatsverði landa og húsa í hverri sýslu, þar sem sýsluvegasjóður hefur verið stofnaður, og fer mótframlag ríkissjóðs eftir því, hve hár sá hundraðshluti er. Leyft hefur verið að innheimta þessi framlög með allt að 70% álagi miðað við gamla fasteignamatið, og hafa flestar sýslur, þar sem sýsluvegasjóðir eru starfandi, notfært sér þá heimild.

Í fjárlögum þessa árs eru veittar 21/2 millj. kr. til sýsluvegasjóða sem framlag ríkisins móti framlögum héraðanna á þessu ári. En nú hefur tekið gildi nýtt fasteignamat skv. lögum um samræmingu á fasteignamati, sem gengu í gildi hinn 1. maí 1957.

Nú þykir það sýnilegt, að ef á að leggja hið nýja fasteignamat til grundvallar við útreikning sýsluvegasjóðsgjalda á þessu ári, þá muni framlag ríkissjóðs, sem ákveðið er í fjárlögum þessa árs, alls ekki hrökkva til sem mótframlag ríkisins gegn framlögum héraðanna. Þetta mál er því í nokkurri óvissu, eins og sakir standa. En nú eru sýslufundir að hefjast í sumum héruðum, og vegamálastjóri hefur gert samgmn. grein fyrir því, að til hans berist nú víða að fyrirspurnir frá sýslunefndunum um það, hvort nýja fasteignamatið eigi að vera grundvöllur undir þessum framlögum á þessu ári eða hið gamla.

Frv. þetta er flutt af samgmn. eftir beiðni samgmrn, til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni. Og skv. frv. er gert ráð fyrir, að vegaskattur til sýsluvegasjóða verði á þessu ári innheimtur samkvæmt gamla fasteignamatinu með heimild til 70% hækkunar, svo sem verið hefur undanfarin ár.

Þessi lagabreyting, ef samþ. verður, er í fullu samræmi við lög, sem sett voru á fyrri hluta þessa þings, eða 18. des. 1957, um breyt. á l. um samræmingu á mati fasteigna. En þá var ákveðið, að sveitarstjórnum yrði almennt gefinn frestur til 1. jan. 1959 til þess að endurskoða samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár um opinber gjöld til sveitarsjóða, sem miðuð eru við fasteignamatið.

Samgmn. hefur athugað þetta mál og leggur til, að frv. verði lögfest, eins og það liggur fyrir.