13.05.1958
Efri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

183. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 488, hefur samgmn. hv. d. athugað frv. til l. um breyt. á l. nr. 102 19. júní 1933, um sýsluvegasjóði, og leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Þess er þó að geta, að tveir nm. voru utanbæjar, er nefndin afgreiddi frv., og höfðu því ekki tök á að taka þátt í afgreiðslu n. á því, það voru þeir hv. þm. V-Sk. og hv. þm. N-Ísf,

Efni frv. er það, að aftan við lögin um sýsluvegasjóði komi bráðabirgðaákvæði á þá lund, að til loka yfirstandandi árs skuli innheimta sýsluvegasjóðsgjöld eftir sömu reglum og giltu um þá innheimtu áður en núgildandi fasteignamat gekk í gildi, þannig að miða skuli gjaldið við hundraðshluta af gamla fasteignamatinu, sem í gildi var til 30. apríl 1957; enn fremur, að haldast skuli til 1. jan. 1959 heimild sýslunefnda til þess að innheimta sýsluvegasjóðsgjald með allt að 70% álagi, svo sem verið hefur undanfarin ár, enda hækki ríkisframlagið að sama skapi.

Með gildistöku nýja fasteignamatsins 1. maí 1957 raskaðist grundvöllur þeirra reglna, sem sýsluvegasjóðsgjaldið miðaðist við. Er því sjáanlegt, að óhjákvæmilegt er að endurskoða lögin um sýsluvegasjóði í ljósi þeirrar staðreyndar. Án efa mun vegamálastjóri hafa meiri eða minni veg og vanda af slíkri endurskoðun, en þar til hún hefur farið fram, sem gera má ráð fyrir að verði á þessu ári, sýnist ekki verða hjá því komizt að fylgja þeim álagningarreglum, sem gilt hafa undanfarið. Frv. er fram komið í því skyni, að svo verði gert, og samgmn. hefur að athuguðu máli lagt til, að það verði samþykkt óbreytt.