16.05.1958
Neðri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

189. mál, bráðabirgðastöðvun á tollafgreiðslu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það hefur verið haft samband við formann Sjálfstfl. um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það skal hins vegar tekið fram, að það vannst ekki tími til þess að halda um það flokksfund. En það var skoðun okkar, að málið lægi þannig fyrir, að það væri ástæðulaust að fetta fingur út í það, að þessi heimild væri veitt, né heldur að hún væri í því formi, sem hún er hér borin fram l. Það er auðvitað ljóst, að fullnaðarafgreiðsla á þessu frv, merkir ekki á neinn hátt, að það feli í sér, að það verði samþ. það getur eins orðið fellt, og útilokar það þá engan veginn, en hins vegar óeðlilegt, ef það mundi dragast allverulega enn, að frv. yrði afgr. frá þinginu, að það þyrfti þá enn á ný ef til vill að fara að sækja um heimild til þess að stöðva tollafgreiðslu.

Ég sé heldur ekki, að það sé ástæða til að fara að veita almenna heimild í sérstöku frv. Ef það ætti að gerast, þá er eðlilegt, að það væri gert með breytingu á þar að lútandi lögum um tollafgreiðslur, en ekki með sérstökum lögum, eins og hér er um að ræða.

Ég vildi staðfesta það hér, að það er rétt, að formaður Sjálfstfl, hefur fyrir sitt leyti fallizt á, að þetta frv. yrði afgr. á þennan hátt og að það þyrfti ekki að fara í nefnd, heldur fengi hér skjóta afgreiðslu, og ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. flokksins hér í d., þó að því miður hafi ekki til þeirra náðst til að hafa samráð um þetta mál, þar sem það bar mjög brátt að, muni einnig styðja þá skoðun.