27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Allshn. hefur orðið sammála um að flytja þetta frv., vegna þess að um réttarstöðu óskilgetinna barna gildir önnur meginregla, en yfirleitt í íslenzkum lögum, þegar kveða skal á um, hvorum réttarreglum eigi að beita: heimalandsins, þar sem móðir barnsins á heima, eða hvort miða á við ríkisfang hennar.

Í núgildandi lögum er miðað við ríkisfang móðurinnar, en í öllum öðrum sambærilegum tilfellum í íslenzkum lögum er miðað við heimilisfangið. Það er upplýst, að þetta er að nokkru leyti af misskilningi komið inn í íslenzka löggjöf, þó að það sé búið að vera þar lengi og sé algert undantekningaákvæði. Við urðum að vel athuguðu máli sammála um, að það væri ástæðulaust og verra, en það að halda því í gildi, og flytjum því þetta litla frv., sem, ég vonast til þess að geti fengið greiðan framgang. Það er búið að vera til athugunar í n. og þarf þar ekki frekari athugun, svo að ég vonast til þess, að það geti náð ágreiningslaust fram að ganga.