28.03.1958
Neðri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Skúli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hv. frsm. allshn., sem flytur þetta frv. Frv. er um að fella niður 19. gr. l. nr. 87 frá 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Segir í grg., að þau ákvæði, sem þarna er lagt til að fella niður, séu um réttarstöðu óskilgetins barns.

Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort frv. þetta, ef samþykkt verður, hafi nokkur áhrif til breytinga á réttarstöðu óskilgetinna barna, sem fædd eru áður, en þetta tekur lagagildi, ef samþykkt verður, og réttarstaða þeirra barna, sem fædd eru á þeim tíma, meðan 19. gr., sem hér er rætt um, hefur verið í gildi, breytist nokkuð við afgreiðslu á eða samþykkt þessa frv.

Mér þykir raunar ósennilegt, að lögin verki þannig aftur fyrir sig, þó hefði ég gjarnan viljað fá um þetta skýrar upplýsingar frá hv. nefnd.