14.05.1958
Efri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Frsm. 2. minni hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti, Frv. það, sem hér er á dagskrá, um breyting á lögum nr. 87/1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, fjallar um það, að 19. gr. þeirra laga skuli falla niður, en sú gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Afstaða óskilgetins barns fer að íslenzkum lögum, hafi móðir þess íslenzkan ríkisborgararétt. Svo er og, ef ekki verður upplýst um ríkisborgararétt hennar eða barnsins og það dvelur hér á landi.“

Ég hef ekki orðið var við, að ágreiningur sé um það hér á Alþingi, að rétt sé að fella niður ákvæði þetta úr íslenzkum lögum, enda sýnist eðlilegra, að réttarstaða óskilgetins barns fari eftir dvalarlandi móður, heldur en ríkisfangi hennar. Hins vegar sýnist jafnsjálfsagt, að sá fyrirvari sé hér um hafður, að ekki sé til þess ætlazt, að röskun verði á réttarstöðu þeirra einstaklinga, sem 19. gr. laganna fjallar um og þegar er orðin staðreynd. Þar sem þessi fyrirvari er ekki berum orðum greindur í frv., hefur okkur hv. 1. þm. N-M. þótt hlýða að flytja brtt. við frv., þótt ekki gæti orðið um það samkomulag í allshn., sem málið hafði til meðferðar.

Líklegt er eða jafnvel víst, að einhverjir, sem hlut eiga að máli, muni halda því fram, að frv. sé afturvirkt og kollvarpi réttarstöðu einstaklinga, sem þegar hefur stofnazt. Slíkt er með öllu óeðlilegt og óheppilegt, og miðar brtt. okkar hv. 1. þm. N-M. að því að koma í veg fyrir ágreining um það. Brtt. er að efni til á þá leið, að brottfall ríkisfangsreglunnar, sem ráðgerð er í 1. gr. frv., skuli miðað við þá einstaklinga, sem fæðast 1. .júlí 1958 eða síðar, og skuli heimilisfangsreglan gilda um þá einstaklinga. Þetta ákvæði álítum við nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir óþarfar deilur og að margvísleg vandamál spretti af því, að í frv. í núverandi mynd sinni er ekki nægilega ljóst um þetta efni og mun því líklegt að valda ágreiningi. Að vísu gerum við ráð fyrir því, að frv. verði skilið á þann veg, að það taki einungis til einstaklinga, sem fæðast eftir að frv. fær lagagildi. Væri það ekki skilið með þeim hætti, heldur á þann veg, að það taki til allra einstaklinga, fæddra og ófæddra, sem um ræðir í 19. gr. l. um óskilgetin börn, gæti það haft og hefði án alls efa í för með sér röskun á réttarstöðu fjölda einstaklinga hér á landi, þannig að ófyrirsjáanlegt er með öllu um afleiðingar þess.

Ég tel, að það séu engin rök gegn brtt. okkar hv. 1. þm. N-M., sem hv. 11, landsk. hafði hér uppi í framsögu sinni, að brtt. gerði ráð fyrir því, að tvenn lög mundu gilda á Íslandi næsta mannsaldur í þessum efnum og slíkt væri óeðlilegt og kæmi yfirleitt ekki fyrir í löggjöf. Þetta er alls ekki rétt hjá hv. þm. Þetta er engan veginn óeðlilegt, og sömuleiðis hefur þetta átt sér stað vafalaust oftar, en einu sinni í íslenzkri löggjöf, og er þar skemmst að minnast ákvæðisins um erfðarétt óskilgetinna barna, sem hv. þm. mun efalaust muna eftir, en um það voru ákvæði í lögum frá 1949, að mig minnir, sem að vísu eru nú numin úr gildi, og höfðu að geyma fyrirmæli um það, að erfða

réttur óskilgetinna barna, sem fædd væru eftir að lögin gengu í gildi, skyldi hlíta öðrum reglum en hinna, sem áður voru fædd.

Þótt vitað kunni að vera um einhver tilfelli, þar sem heppilegt eða æskilegt þætti, að heimilisfangsreglan gilti, þá teljum við flm. brtt. með öllu óhæfilegt annað, en líta á mál þetta frá almennu sjónarmiði. Hér er um að ræða viðkvæm persónuleg einkamál manna, sem mjög er vandfarið með. Við vörum því við þeim skilningi á frv., að í því skuli felast, að réttarstaða þeirra einstaklinga, sem 19. gr. laganna fjallar um og þegar eru fæddir, breytist við gildistöku frv., enda flytjum við brtt. í því skyni, að hér verði ekki um villzt og komið verði í veg fyrir óþarfa og ófyrirsjáanlega röskun á réttarstöðu manna, sem af gætu risið margvíslegar og óæskilegar deilur.