22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) las hér upp bréf frá Dýraverndunarfélagi Íslands, og eins og þegar hefur komið fram, þá hefur landbn. reynt að koma til móts við Dýraverndunarfélagið með þeim brtt., sem hér liggja fyrir. En ástæðan fyrir því, að landbn. sá sér ekki fært að breyta tímatakmarkinu um útflutning hrossa, er sú, að salan á hestum til útlanda er bezt framan af vetri og framan af vori. Það er lægst verðið á hestunum seinni hluta sumars. Það er dálítið erfitt, úr því að útflutningur hesta er leyfður á annað borð, að neita útflutningnum á þeim tíma, sem salan er bezt, og ég tel, að það sé ekki rík ástæða til þess að vera að breyta tímatakmarkinu frá því, sem það er nú í frv., vegna þess að réttur Dýraverndunarfélags Íslands til þess að fjalla um útflutning hrossa er jafnmikill og annara aðila, þar sem það er meðal þeirra, sem eiga að semja reglugerð samkv. þessum lögum, og þar tel ég, að þeir menn geti tryggt það, sem þeir telja í hættu vera varðandi útflutning hrossa að vetrinum, þegar um er að ræða skipaútbúnað og annað, sem þar til heyrir.

Enn fremur hefur hrossaræktarráðunauturinn upplýst það, að skipaútbúnaður allur nú sé mun betri, en áður var og því ekki ástæða til að hafa sömu tímatakmörk í lögum og nú eru.

Um það atriði málsins, sem hv. þm. gat hér um, varðandi þann útflutning, sem fram hefur farið, að hann eigi enga stoð í lögum, það skal ég ekki um segja, en hygg þó, að hann eigi einhverja stoð í lögum, því að a.m.k. er leyfður útflutningur á hestum á þessum tíma árs, en það mun vera álitamál, hversu víðtækt beri að skoða þau ákvæði laganna, sem þar að lúta. En ég skal játa það, að þessi atriði málsins hefur n. ekki kynnt sér sérstaklega, og vænti ég, að það þurfi ekki að tefja framgang þessa máls núna vegna þessa, því að hann hefur tafizt alllengi, og ef frekari skýringa þarf við, þá hygg ég, að hæstv. landbrh. og forsrh. geti gefið þær í Ed.