02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið, að við bætum mikið úr fyrir því, að lög verði haldin í þessum efnum, með því að tefja fyrir máli þessu, og vil ég því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann ljúki umr. nú þegar í þessari deild, eftir að enginn hefur kvatt sér hljóðs, því að málið liggur nokkuð ljóst fyrir. Mig undrar það nokkuð, að hv. 1. þm. Reykv., sem mjög hefur deilt á hrossaútflutninginn í vetur, átti sæti sem dómsmrh., að ég hygg, í 3 ár af þeim 10, sem sams konar útflutningur hefur átt sér stað á hrossum úr landinu. Ég held, að það hafi verið fyrst 1947, þegar hv. 1. þm. Reykv. varð dómsmrh., að þá hafi verið byrjað á svipuðum hrossaútflutningi og nú, og mig undrar enn fremur, að í þessi 10 ár skyldi hann ekki frekar, en raun hefur sýnt, hafa látið þessi mál til sín taka, því að sannarlega bar honum það ekki síður en öðrum, þar sem hann hefur lengst af átt að gæta laga og réttar í landinu á þessu tímabili. En þar með vil ég undirstrika það, að ég er ekki að mæla lögbrotum neina bót, en mér finnst bara, að úr því að hv. þm. fór með dómsmál landsins og átti að gæta laga og réttar á þessum tíma, þá geti hann nú tæplega mikið sagt. En það er gott, að hann hefur komið auga á þetta, því að sannarlega er batnandi manni bezt að lifa.

En ég vil geta þess, að undirbúningur þessa frv., sem hér liggur fyrir, er búinn að vera allt að því í eitt ár. Það mun hafa verið í fyrrasumar, sem hrossaræktarráðunautur Gunnar Bjarnason samdi drög að frv., sem síðar voru lögð fyrir stjórn Búnaðarfélags Íslands og ef til vill landbrn., en þetta frv. var síðar lagt fyrir búnaðarþing og hlaut þar samþykki og svo að því loknu lagt fyrir Alþingi, og á meðan var náttúrlega ekki ástæða til að setja nein bráðabirgðalög um þessi efni, enda Alþingi starfandi lengst af þennan tíma. Og ég vil undirstrika það, sem ég tók hér fram við framsögu þessa máls, að réttur Dýraverndunarfélags Íslands er alveg jafn og annarra aðila til að tryggja það, að allar aðstæður, eftir því sem hægt er að gera sér grein fyrir, séu það góðar, að útflutningur hrossa eigi ekki að vera neitt hættulegur fyrir dýrin. En við vitum það, að þótt ekki sé um flutning á dýrum að ræða á milli landa, þá getur hann verið og það á milli hafna innanlands allerfiður og víðsjáll, og mér er vel kunnugt um það af þeim fjárflutningum, sem fram hafa farið á undanförnum árum hér á landi. Og þótt benda megi á, að eitt folald og tvö fullorðin hross af um rúmlega 200 hrossum, sem hafa verið flutt út frá því í haust og þar til nú, hafi drepizt, þá er það hlutur, sem alltaf getur fyrir komið og jafnvel á þeim tímum árs, sem maður hyggur að líðan hrossanna eigi að vera sem bezt, því að slíkt getur ætíð fyrir komið. Og ég tel, að það beri ekki að gera svo mikið úr því, enda sést það í skýrslu, sem þýzki embættisdýralæknirinn í Hamborg hefur gefið, að hann telur að folöldin hafa verið vei frísk og litið vel út, þegar þau komu út, og að það hafi ekki verið neitt sérstakt af útbúnaðinum, sem hafi valdið því, þó að eitt folald hafi drepizt eða hross hafi farið úr hrossasótt, enda vita allir, sem hafa komið nálægt hrossum, að slíkt getur ætíð fyrir komið. Og ég vil vonast eftir því, að hæstv. forseti hraði þessu máli, svo að við þurfum ekki að horfa fram á það, að þetta frv. dagi uppi hér á þessu þingi nú, og að það verði kannske framvegis að brjóta lög í þessum efnum, bara fyrir það, að einstaka menn hafa tafið með málþófi, að frv. næði fram að ganga.