15.04.1958
Efri deild: 78. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. til l. um breyt. á l. um sveitarstjórnarkosningar á nokkrum fundum. Hún sendi frv. til umsagnar til hagstofustjóra og til stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga, og eru umsagnir þessara aðila prentaðar með nál. á þskj. 380.

Nefndin var sammála um að leggja til, að frv. yrði samþykkt með nokkrum breytingum: Í fyrsta lagi breytingum á ákvæðum frv. um það, hvenær kosningar fari fram. Í öðru lagi, að kjörskrár miðist við 1. des. Og í þriðja lagi, að fellt sé niður ákvæði, sem nú er í lögum og var tekið upp í frv., að sérstök kjörskrá skuli samin fyrir hverja kjördeild.

Það er talið, að síðari hluti maímánaðar sé óheppilegur tími til kosninga í sveitum. Um það leyti stendur yfir sauðburður og annríki því í meira lagi. Þetta eru rök, sem ég beygi mig fyrir sem flm. frv., og er því sammála meðnm. mínum í allshn. um að leggja til, að þessu verði breytt í það horf, að hreppsnefndarkosningar skuli fara fram síðasta sunnudag júnímánaðar, eins og tíðkazt hefur hingað til, — breytingin verði einungis um kosningatíma í kaupstöðum og í svokölluðum kauptúnahreppum, þ.e.a.s. þeim hreppum, þar sem 3/4 eða fleiri af íbúunum eru búsettir í kauptúnum.

Þá hefur hagstofustjóri í rækilegri umsögn, sem hv. dm. eiga kost á að lesa á þskj. 380, gert grein fyrir því, að rík ástæða sé til þess, að kjörskráin sé miðuð við 1. des., í stað þess að í frv. var gert ráð fyrir því, að hún yrði miðuð við þann mánuð, sem hún yrði samin í, þ.e.a.s. marzmánuð. Telur hann skipta verulegu máli, að því verði breytt í þetta horf, og er allshn. sammála honum um það og leggur því til, að tekið verði upp í frv. ákvæði um það, að þar skuli menn á kjörskrá teknir, sem þeir áttu lögheimili hinn 1. des. næsta ár áður en kjörskrá var samin.

Ákvæðið um, að sérstakar kjörskrár skuli semja fyrir hverja kjördeild, leggur nefndin til að fellt verði niður úr frv., og liggja til þess þau rök, sem hagstofustjóri greinir í sinni álitsgerð, en þar segir hann m.a. um þetta:

„Þessu ákvæði hefur yfirleitt ekki verið fullnægt af sveitarstjórnum nema að mjög takmörkuðu leyti, og raunar á það litinn eða engan rétt á sér. Engin þörf virðist vera á því, að lögð sé fram fyrir hinn lögákveðna frest sérstök kjörskrá fyrir hverja kjördeild í kosningaumdæmi, og það er t.d. ógerlegt að koma því við í Reykjavík, enda hefur það aldrei verið gert.“

Allshn. féllst á þessi rök og hefur því lagt til, að frv. verði breytt í þetta horf.