18.04.1958
Neðri deild: 80. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil nú segja það, að það er sjáanlega til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, að færa sveitarstjórnarkosningar í kaupstöðum og kauptúnum fram á vorið. En ég verð að segja það, að mér þykir dálítið undarlegt í þessu frumvarpi, að það skuli þá ekki vera um leið ákveðið, að sveitarstjórnarkosningar fari fram á sama degi um land allt, eins og á sér stað um alþingiskosningar, en samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að kosningarnar fari fram í maí í kauptúnum og kaupstöðum, en í júní í sveitahreppum. Ég vildi nú biðja hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, að athuga, hvort það getur ekki verið eðlilegra að færa það í það horf, að kosningarnar séu á sama degi yfir land allt.

Í öðru lagi verð ég að segja það, að ég teldi það framför, ef með þessu frv. væri fært í það gamla horf að hafa kjörtímabilið til sveitarstjórnarkosninga sex ár, en ekki fjögur, því að þessar sífelldu og tíðu kosningar hafa lítið gott í för með sér. Við sjáum það á ýmsum aðgerðum, að það hefur ekki verið til mikilla bóta að stytta kjörtímabilið, hvorki til Alþingis né sveitarstjórna.

Í þriðja lagi vildi ég svo segja það, að ef frv. verður samþ. eins og það er nú, þá sýndist mér réttara, að það væri þá ákveðið í því, af því að það stendur í 1. gr., að það skuli skilyrðislaust kjósa á fjögurra ára fresti, að næstu sveitarstjórnarkosningar í kauptúnum og bæjum færu þó fram í maímánuði árið 1962, því að annars gæti leikið vafi á því, hvort þær ættu þá ekki að fara fram að hálfu fjórða ári liðnu. Þetta vildi ég einnig biðja hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, að hugleiða.