14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

35. mál, útsvör

Forseti (BSt):

Það hefur verið beðið um forsetaúrskurð um, hvort þessi till. fái staðizt samkvæmt þingsköpum og anda þeirra. Það er nú ekki á mínu færi beinlínis að kveða upp úrskurð um það, hvað sé andi laga, heldur hvað séu lög og þá sérstaklega hvað séu þingsköp.

Þessi ákvæði þingskapa, sem hér um ræðir, hafa tvisvar verið lesin, ég skal lesa þau enn: „Brtt. um atriði, sem búið er að fella í deild, má ekki bera upp aftur í sömu deild og á sama þingi, en heimilt er að bera hana upp í hinni deildinni“ o.s.frv.

Hér er eingöngu bannað að bera upp till., sem búið er að fella í deild. Till. um þetta atriði, sem hér um ræðir, hefur ekki verið felld í deildinni. Þar af leiðandi er löglegt að bera þessa till. upp.

Hitt er annað mál, að ég kann illa við það að bera upp till. um að setja aftur inn í frv. það, sem hv. deild er nýbúin að breyta, og það því síður, sem á þeim fundi, þar sem þetta var gert, voru yfirleitt allir þdm. mættir, þeir sem hér á landi eru, kannske ekki við þessa atkvgr., en það hefur þá verið einhver tilviljun, því að það var samþ. frv. með 16 shlj. atkv. á þessum fundi, og það kom víðar fram. Það komu fram t.d. 10 atkv. gegn 6, þannig að 16 atkv. komu hvað eftir annað fram, þótt ekki væri um þessa tillögu.

Ég kveð upp þann úrskurð, að það er ekki ólöglegt að bera upp þessa till. og það er á valdi deildarinnar að veita afbrigði fyrir henni, ef deildinni sýnist, en ég vildi frekar óska þess, að hv. þm. breytti till. (PZ: Ég skal gjarnan verða við þeirri ósk og setja þar 3.5.)