06.05.1958
Neðri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt inn á nýja braut í opinberum fjármálum, með því að félagi einstaklinga er leyft með sérstökum lögum að skattleggja einn af aðaltekjustofnum ríkissjóðs.

Ég ætla ekki hér að tala út frá sjónarmiði framleiðenda, þeir mega innheimta skattinn hjá almenningi, sem lagður er á samkv frv., heldur ætla ég að ræða um það frá sjónarmiði opinberra fjármála og hvert stefnir, ef frv. nær samþykki Alþingis. Hér er félagi, sem var stofnað fyrir rúmum einum mánuði, veitt leyfi til að fara inn á einn aðaltekjustofn ríkissjóðs og innheimta hjá almenningi fjárhæð, sem nemur 2–3 millj. kr. á ári, í 5 ár.

Þessi félagsskapur, sem ég skal ekki leggja neinn dóm á og hefur mjög virðingarverðan tilgang, hefur því ekki eða þeir menn, sem fyrir honum standa, haft tækifæri til að sýna, að þeim sé treystandi til þess að ráðstafa á skynsamlegan hátt því mikla fé, sem félaginu er ætlað að fá til umráða með frv. Samt hefur það nú gerzt, að frv, hefur farið svo að segja orðalaust í gegnum þrjár umr. í Ed.

Þetta er mjög óvenjuleg ráðstöfun og mjög léttúðug ráðstöfun um skattlagningu á almenning. Eins og ég sagði, fá framleiðendur skattinn greiddan frá almenningi, svo að í raun og veru snertir þetta þá litið, að öðru leyti en því, að þeim er lagt á herðar að innheimta skattinn.

Sá skattur, sem þannig er lagður á almenning, nemur, eftir því sem ég get bezt séð, 6–7% af heildsöluverði gosdrykkja. Þetta mundi nú verða talinn þungur skattur, ef bæjarfélaginu væri heimilað að taka slíkan skatt til þess að létta af borgurunum t.d. veituútsvarinu, en um það horfir nú til stórvandræða fyrir bæjarfélögin.

Að vísu mun það vera svo, að iðnaðurinn er ekki ginnkeyptur fyrir því að innheimta milljónir kr. fyrir einstök félög. En það er annað, sem mér skilst að hann sé hræddari við, og það er, að ef svona frv, verður samþ., þá megi hann búast við stórri skriðu á eftir, sem yfir hann á að dynja, ef þetta fordæmi verður gefið. En hér er fyrst og fremst um skattlagningu á almenning að ræða, án þess að hann sé sjálfráður um það, hvort hann vill láta skattleggja sig eða ekki. Þetta stingur því nokkuð í stúf við tvö fordæmi, sem hér hafa verið gefin í sambandi við félög, annað er líknarfélag og hitt má segja að sé þjóðþrifafélag. Sérstakur skattur er á eldspýtur og skattur á sígarettur, en almenningi í sjálfsvald sett, hvort hann vill greiða þennan skatt eða ekki, með því að hann getur fengið þessar vörur án skattmerkjanna, ef hann óskar þess. Hér er því um fullkomlega frjálst val að ræða, sem ekki kemur til greina í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir.

Hér er því, eins og ég sagði áðan, um það að ræða að gera einn af mikilvægum tekjustofnum ríkisins að tekjulind með lagaboði fyrir einstakt líknarfélag. Þetta hlýtur að lita út frá almennu sjónarmiði þannig, að þegar ríkisvaldið hefur skattað tollvörurnar, eftir því sem framast þykir fært, í þágu ríkissjóðs, þá er gefið leyfi til félaga að skatta þessa stofna á ný, og almenningur verður að borga. Ég vil nú segja án tillits til þess, hversu óviturlega ég álit þessa ráðstöfun, að það væri næsta ósmekklegt, ef Alþingi legði nú slíkan milljónaskatt á almenning, meðan ríkisvaldið stritast við mánuðum saman að fá stéttirnar til að samþykkja álagningu skatta, sem ríkissjóði, eins og sakir standa, er lífsnauðsyn að fá. Ég mundi segja, að það væri ósmekklegt af Alþingi undir slíkum kringumstæðum.

Með þessu er stefnt út í reiðuleysi í opinberum fjármálum, og slíkt reiðuleysi sem þetta held ég að þekkist hvergi nema þar, sem allt veður á súðum fjárhagslega.

Ég hygg, að það muni margir álíta, að það sé einmitt lýsingin á ástandinu hjá okkur í dag. Hér er ekki farið eftir neinum reglum eða grundvallarvenjum efnahagslífsins, hér er hlutunum leyft að fara úr reipunum, og hér eru þverbrotnar einföldustu reglur, sem opinber fjármál hljóta að byggjast á, en þess vegna er nú komið sem komið er í mörgum og mikilvægum þáttum efnahagslífsins. Reiðuleysið blasir við, hvar sem litið er.

Einstaklingarnir og atvinnulífið í landinu stynur undir sköttunum. Ísland er að verða víða að viðundri í fjármálum af þeim ráðstöfunum, sem hér eru gerðar. í skattamálum er brjálsemin og hugsunarleysið komið á svo hátt stig, að fjárhagskerfi landsins riðar til falls.

Það kann að vera, að mörgum þyki, að hér sé djúpt tekið í árinni. En ég hygg, að tíminn eigi eftir að leiða í ljós, að svo er ekki, ef ekki verður stungið við fótum í skattamálum landsmanna.

Hvarvetna annars staðar og hér einnig til þessa dags hefur starfsemi líknarfélaga byggzt á frjálsum framlögum almennings, en ekki löghelgaðri skattlagningu, Almenningi á að vera í sjálfsvald sett, hversu mikið hann vill láta af hendi rakna til slíkra félaga. Ég held, að óhætt sé að segja, að menn séu hér venjulega með opnar hendur, ef til þeirra er leitað af líknarfélögum. Það á ekki að drepa þennan vilja almennings með lagaskyldu, ekki ákveða með lagaskyldu, hvað hann á að láta mikið af hendi rakna í líknarskyni.

Hér er lagt inn á óvenjulega og ég vil segja hættulega leið, eins og ég tók fram í upphafi, með því að veita einu félagi slíkan óvenjulegan fjárstyrk til sinna þarfa eins og hér er gert ráð fyrir, 2–3 millj. kr. á ári. Ég verð að segja, að mörgum öðrum líknarfélögum, sem starfað hafa hér í áratugi með ágætum árangri, er gert stórlega rangt til, ef samþ. verður, að félag, sem er að byrja að starfa, hefur ekki sýnt neinn árangur af starfi sínu, skal á næstu fimm árum fá 12–15 millj. kr. til ráðstöfunar, meðan félögum, sem lengi hafa starfað og vinna að mjög mikilvægum þætti líknarmálanna, er ekki sinnt.

Hvers vegna hafa þeir, sem hafa verið í forstöðu fyrir ríkissjóði, aldrei viljað fallast á það, að þessi félög fengju að skattleggja t.d. áfengið? Það er af þeirri einföldu ástæðu, að hver sem verið hefur fjmrh. hefur séð það, að ef litli fingurinn væri réttur fram á þennan hátt, mundi öll höndin hverfa, áður en við væri litið. Menn skulu ekki halda, að þetta verði eitt einstakt tilfelli, ef frv, verður samþykkt, eins og það liggur fyrir. Margir munu á eftir koma, sem heimta sama rétt, og það verður að segjast, að mörg félög hafa sama rétt og sum betri.

Ef einu félagi er sinnt, þá er ekki hægt að synja öðrum um styrk í þessu skyni. En hvar stöndum við, ef öll félög, stofnuð og óborin, geta farið inn á þessa braut? Er þá ekki hin opinbera fjármálaforsjá Alþingis komin út í slíkt kviksyndi, að enginn maður veit, hvar hann á að botna?

Í sambandi við frv. þetta mun ég bera fram till. um fjáröflun á svipaðan hátt og hér liggur fyrir handa öðrum líknarfélögum, sem í áratugi hafa sýnt með starfsemi sinni að eiga skilið, ef nokkurt félag á það skilið, að fá slíkan styrk frá hendi hins opinbera.

Og ég mun leggja til, að það sé t.d. lagt sérstakt gjald á hvern pakka af sígarettum og hverja flösku af áfengi, sem renni í sjóð þessara líknarfélaga.

Ég skal svo ekki að þessu sinni ræða þetta frekar. En ég vil benda á, að þetta mál er fyrst og fremst fjárhagsmál, og því álít ég, að þetta frv. eigi að ganga til fjhn., en ekki til félmn., eins og var í Ed., því að uppistaðan í frv. er fjárhagsmál.