06.05.1958
Neðri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) hefur flutt hér mikið mál, þar sem hann lagðist mjög eindregið gegn þessu frv. og taldi, að sú braut, sem þar væri farið inn á, væri hin óheppilegasta á allan hátt, og jafnvel, að því er mér skildist, að það mundi verða til þess að auka hér mjög á reiðuleysi í fjármálum, eins og hann komst að orði, og auka á öngþveitið í því efni, sem þegar væri nógu mikið fyrir.

Ég skal sízt af öllu draga úr orðum hv. þm. varðandi ástandið í okkar fjármálum yfirleitt. En hins vegar held ég, að það hafi verið nokkuð ofmælt hjá honum, að þetta frv, út af fyrir sig væri hættulegt í sambandi við þróun þeirra mála og mundi verða til þess að ýta þeim lengra í ógæfuátt, en nú væri. Og mér fannst satt að segja hv. þm. taka nokkuð mikið upp í sig varðandi þetta mál og hversu óhæfilegt það væri í alla staði.

Mér kom það einnig nokkuð kynlega fyrir sjónir, eftir að hann hafði fordæmt svo mjög frv., að hann skyldi lýsa því yfir, að hann hefði í hyggju að bera fram till. um fjárframlög til ýmissa annarra líknarfélaga, fjáröflun, sem byggðist á sömu sjónarmiðum og væri í þessu frv., því að eftir orðum hans að dæma hefði hann að sjálfsögðu átt að leggja fyrst og fremst ríka áherzlu á, að inn á þessa braut væri ekki farið, eftir því sem efni máls hans benti til.

Ég skal fúslega játa, að það getur verið mjög varhugavert að fara langt út í það að veita einstökum félagssamtökum fríðindi, a.m.k. lögvarin fríðindi eða rétt til þess að krefja inn skatta af landsfólkinu, og það er vissulega rétt hugsun, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., að það mætti varast það mjög að draga úr kostum hinna frjálsu samtaka á þann veg, að þessi samtök gætu reiknað með því að geta örugglega náð inn með skattlagningu ákveðnu fé og þyrftu þar litið eða ekkert á sig að leggja á móti. Það er vissulega alveg rétt. Hins vegar er því ekki að leyna, að þessi samtök, sem hér um ræðir, og raunar mörg önnur samtök líka vinna mjög mikilvægt starf fyrir þjóðarheildina og leysa af hendi hlutverk, sem ríkisvaldinu siðferðilega bæri skylda til að inna sjálft af hendi. Með þessu móti fæst þarna fram orka margra manna, sem ella væri ónotuð, og þetta leiðir til þess, að það næst mun betri árangur og það verður meira, sem fæst fyrir hverja krónu, sem af ríkisins hálfu er lögð fram, vegna atorku og framlaga frá því fólki, sem þessi samtök myndar.

Hér eru mörg líknarsamtök starfandi, sem hafa fengið opinbera fyrirgreiðslu með ýmsu móti, annaðhvort með því að þau hafa fengið lögvarinn rétt til þess að hafa happdrætti, sem notið hafa skattfrelsis, eða á þann hátt, að þeim hefur verið veittur réttur til skattlagningar í svipuðu formi og hér er gert ráð fyrir. Það eru þegar til tvö fordæmi um skattlagningu á svipaðan hátt og hér er lagt til. Annar aðilinn er að vísu að öllu leyti opinber aðili, þ.e.a.s. skóggræðslan eða landgræðslusjóður, en þar er veittur réttur með lagaákvæði til þess að skattleggja sígarettur. Í annan stað hefur verið veittur réttur félagi, sem er gersamlega hliðstætt þessu, þ.e.a.s. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, til þess að skattleggja eldspýtur.

Nú má segja, eins og á var bent hér áðan, að á þessu sé munur, að þarna sé um að ræða frjálst mat kaupenda þessarar vöru, hvort þeir greiða þetta skattgjald eða ekki. Og varðandi eldspýturnar mun það vera svo, en hins vegar ekki um sígaretturnar, vegna þess að landgræðslusjóðsmerki er sett á þær tegundir af sígarettum, sem mest eru keyptar og almenningur mest notar, og þær eru ófáanlegar nema með þessu merki, þannig að hér er ekki lengur um neitt frjálst val að ræða.

Ég skal fúslega játa, að mér hefði þótt það skemmtilegra, ef hægt hefði verið með þá fjáröflun, sem hér um ræðir, að haga henni á þann hátt, að það hefði verið um að ræða frjálst val hjá fólki, sem kaupir þessa vöru, hvort það greiddi þetta gjald eða ekki. En við nánari athugun mun hafa komið í ljós, sem í rauninni er skiljanlegt, að það yrði ákaflega erfitt í framkvæmd og í rauninni mundi það leggja miklu meiri erfiðleika á bæði framleiðendur og aðra þá, sem kynnu að hafa þurft að innheimta slík gjöld, heldur en að hafa þann einfalda hátt á, sem er í þessu frv. Og því hefur verið farið inn á þessa braut, að undanþiggja ekki neinar ákveðnar tegundir eða hluta af þeim, heldur að þetta gjald skuli greiðast af hverri flösku.

Ég hef bent á það, að með þessu frv. er ekki verið að brjóta neinar reglur, sem áður hafa gilt, vegna þess að inn á þessa braut hefur verið farið áður, bæði með eldspýtur og sígarettur. En það kemur þá aftur að hinu, hvort eðlilegt sé að gera þetta í þessu tilfelli og hvort önnur samtök ættu þá ekki að fá sömu fyrirgreiðslu og þau, sem hér um ræðir.

Um það atriði, hvort önnur líknarfélög skuli fá svipaða fyrirgreiðslu og hér er gert ráð fyrir, skal ég ekki segja á þessu stigi málsins, en ég held, að það greiði ekki á neinn hátt fyrir lausn vandamála þeirra samtaka, þó að það sé farið að blanda þeim inn í þetta mál, sem hér liggur fyrir. Aðstoð við hin einstöku líknarsamtök hefur yfirleitt verið afgreidd hér á þann hátt, að það hefur ekki verið blandað saman málum margra samtaka, heldur hefur verið reynt að leysa vandamál hverra einstakra út af fyrir sig, því að ella gefur að skilja, að það minnka horfur á því, að yfirleitt sé hægt að fá fram lausn fyrir nokkurn aðilann.

Það má auðvitað segja, að þau samtök, sem hér um ræðir, séu ung og af því leiði, að þau hafi ekki sýnt neina reynslu, ekki sýnt það, hvers þau eru megnug. En hér er aftur hins að gæta, að hér er um að ræða fjáröflun til mála, sem eðli sínu samkvæmt hlýtur að öllu leyti að heyra undir ríkisvaldið að sjá um, og hér er um að ræða þann hátt heilbrigðismálanna, sem allt of mikið hefur verið vanræktur, þannig að það er stórkostlegt þjóðfélagsvandamál að fá á þessu einhverja úrlausn.

Það má segja, að það sé því nánast formsatriði, hvort þessi fjáröflun væri látin ganga til þessa félags, sem hér er stofnað, eða beinlínis látin ganga til þeirra opinberu aðila, sem með framkvæmd þessara mála hafa að gera. Það, sem mér finnst höfuðatriði málsins, er það, að hér er verið að gera tilraun til þess að afla fjár til framkvæmda, sem er hin brýnasta þjóðfélagsleg nauðsyn að sinna, meir en gert hefur verið. Það má auðvitað segja, að þetta hefði átt að gerast með framlögum í fjárlögum, Það hefur ekki tekizt að fara þá leið, og þá hefur það orðið ofan á, að hópur manna, sem sérstaklega ber þessi mál fyrir brjósti, hefur sameinazt um að reyna að benda á einhver úrræði til þess að afla hér aukins fjár til þessara þarfa. Og ég fæ ekki séð, að hér sé skapað neitt hættulegt fordæmi umfram það, sem þegar hefur verið gert, og hér er um að ræða nauðsyn, sem engum getur blandazt hugur um að er fyrir hendi, og í þriðja lagi, að þótt hér sé ekki um gamalt félag að ræða, þá er þannig frá þessum málum gengið, að það er auðið fyrir ríkisvaldíð að hafa eftirlit með því fullkomlega, hvernig fé þessu er ráðstafað, og auk þess í lögunum sjálfum beinlínis tekið fram, að því megi ekki ráðstafa á annan hátt, en til þess að koma upp stofnunum fyrir vangefið fólk.

Ég held því að, að þessu leyti sé engin hætta á því að gera þessa ráðstöfun til fjáröflunar til þessa mikilvæga máls, enda þótt félag það, sem hér um ræðir, sé ekki gamalt, þannig að það gæti út af fyrir sig ekki fælt mann frá því að veita þessu máli brautargengi. Ég skal fúslega játa, að það hefði verið umhugsunarefni að fara inn á þessa braut, ef hér væri verið að byrja slíkar ráðstafanir til skattlagningar. En hér er aðeins verið að halda áfram á braut, sem áður hefur verið mörkuð. Vitanlega er alveg rétt, að það er mjög vafasamt, hvað langt á að ganga í slíku efni, og það er auðvitað eins um þetta atriði og önnur skattamál í því sambandi. En ég get ekki fallizt á, að hér sé verið að brjóta

neinar reglur, sem hafi gilt í okkar skattamálum til þessa, þó að þetta frv. nái fram að ganga, Það er vissulega svo, að það er full ástæða til að taka okkar skattamál til rækilegrar athugunar og reyna að gera þau einfaldari í sniðum, en nú er. En ég held ekki, að það muni auka neitt á glundroðann í því efni, þó að þetta frv. yrði samþ. Og miðað við þá geysimiklu þjóðfélagsnauðsyn, sem er fyrir hendi á því, að hægt verði að gera eitthvað meira, en nú eru möguleikar til fyrir það fólk, sem hér um ræðir, þá vil ég fyrir mitt leyti mjög eindregið mæla með því, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þetta frv., og hygg, að þó að það verði gert, þá sé ekkert það spor stigið, sem þurfi að vera til óþurftar, nema síður sé.