06.05.1958
Neðri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður lengi, enda er ekki mikil ástæða til þess. Ég vil aðeins segja nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Eyf.

Það, að frv. sem þetta, ef að lögum verður, gefi ekki fordæmi, getur hver maður sagt sér sjálfur. Og ég get ekki betur séð, en opin sé leið fyrir öll félög, líknarfélög og önnur, sem vinna að þjóðhagslega nauðsynlegum málefnum, að fara inn á þá braut að fá lögfest í Alþ. tekjuöflunaraðferðir fyrir þau með því að skattleggja beina tekjustofna ríkissjóðs. Um þetta getur ekki verið neinn vafi.

Hv. þm. sagði, að þetta félag, sem er nýstofnað, hafi verkefni með höndum, sem sé brýn þjóðfélagsleg nauðsyn. Þetta er vafalaust mjög rétt. En það er líka svo um mörg málefni, sem líknarfélög hafa með höndum. Það er t.d. brýn þjóðfélagsleg nauðsyn að byggja sjúkrahús. Sjúkrahúsaskorturinn hefur verið svo mikill í landinu og er enn, að til vandræða horfir. Það er varla hægt að neita því, að þau félög, sem hafa á stefnuskrá sinni að auka sjúkrahúskostinn í landinu, berjist fyrir brýnum þjóðfélagslegum málefnum. Hvers vegna skyldu slík félög ekki hafa sama rétt og þetta félag, sem hér um ræðir, til þess að fá styrk frá Alþ. eða ríkinu í svipuðu formi og þetta félag? Auðvitað hafa slík félög alveg sama rétt, ef á að gera þeim jafnt undir höfði. En ef á að gera þeim misjafnt undir höfði og láta eitt félag fá milljónastyrk, en hin ekki neitt, er félögunum mismunað á mjög áberandi hátt, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni.

Því verður aldrei neitað, að þó að til séu tvö fordæmi um tekjuöflun á svipaðan hátt, sem þó eru í grundvallaratriðum ólík, þá er hér lagt inn á nýja braut, sem snertir mjög tekjuöflun ríkissjóðs yfirleitt, Ég efast um, að nokkur geti sagt með vissu, hvenær eða hvernig verður spyrnt við fótum, ef svona fjáröflunarleiðir ná nú samþykki Alþingis.