13.03.1958
Neðri deild: 65. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

150. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Lögin um atvinnu við siglingar eru nú um það bil 12 ára gömul, og raunar eru þau langtum eldri að stofni. Á því tímabili, sem liðið er, frá því að frá þeim lögum var gengið, hafa orðið miklar og stórfelldar breytingar á verulegum hluta af þeim störfum, sem lögin kveða á um eða setja skilyrði fyrir rétti manna til að stunda.

Fiskibátaflotinn fer stöðugt stækkandi, og bátarnir, sem notaðir eru til veiða, eru jafnan að stækka, og á þetta þó enn þá frekar við um vélakost þeirra, því að hann fer enn þá örar stækkandi. Vélastærð báta er stöðugt að færast í það horf, að stærri vélar eru notaðar í skipin. En hvor tveggja þessi þróun gerir það að verkum, að lögin um atvinnu manna við skipstjórn og vélstjórn á þessum skipum úreldast mjög fljótt. Það verður þess vegna öðru hverju að breyta ákvæðum þeim, sem á hverjum tíma eru sett og þykja eðlileg við setningu, um það, hve stórum bátum menn megi stjórna, sem hlotið hafi þá menntun, sem á þeim tíma er ætluð fiskibátaskipstjórum og stýrimönnum, og á sama hátt verður einnig að breyta ákvæðum um það, hverra réttinda þeir skuli njóta í starfi sínu, þeir vélstjórar, sem stjórna vélum fiskibátanna. En þjóðfélagið hefur miðað sérstakt menntunarkerfi í þeirri grein við þá vélstjóra, sem útskrifast af námskeiðum Fiskifélags Íslands í mótorfræði. Þeir fá réttindi, sem eru miðuð við það, að þeir megi vera vélstjórar á fiskibátaflotanum. Hins vegar hefur svo farið, sérstaklega á síðustu tólf árum, sem liðin eru frá því, að gengið var frá lögum um atvinnu við siglingar, að fjölmargir af þeim vélstjórum, sem þá stjórnuðu og höfðu réttindi til að stjórna vélum í fiskibátum, hafa það ekki lengur, þótt þeir séu enn vélstjórar á sama fiskibátnum og þeir voru á þá. Það hefur verið skipt um vélar í þeim bátum og komið með stærri vélar í staðinn fyrir þær, sem teknar voru burt, og það hefur verið farið yfir það hámark, sem þá var ákveðið. Það hafa verið gerðar hér tilraunir til þess fyrr að breyta þessum ákvæðum, hækka þau, þannig að vélstjórar geti fengið að halda áfram við sín eðlilegu störf án þess að þurfa að sækja þar undir einn eða neinn um undanþágur, ef þeir hafa lokið því námi, sem þjóðfélagið á þeim tíma, sem þeir voru við nám, ætlaðist til af þeim, sem þessa atvinnu stunduðu.

Það má segja, að eðlilegt sé, um leið og breytt er til um hámark réttinda, bæði skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna á skipum, að þá sé einnig breytt námskerfinu, sem til er ætlazt að þeir taki próf frá, þeir menn, sem hér er um að ræða.

Nú hagar því hins vegar svo, að nýlega hafa verið gerðar breytingar hér á varðandi skipstjórnarmennina, skipstjóra og stýrimenn, en ekki að því er varðar vélstjóra, þar sem þörfin þó var enn þá brýnni.

Það er allmikið kerfi, það námskerfi, sem íslenzkum vélstjórum er ætlað. Þar er um að ræða aðskilda þætti og ósamantengda, þannig að sá maður, sem hefur lokið því námi, sem ætlazt er til af vélstjórum fiskibátaflotans, þ. e. a. s. lokið námskeiðum Fiskifélags Íslands og öðlazt tilskilda reynslu í sínum fræðum, getur komizt upp að ákveðnu marki í sínum réttindum, nú hæst í það að mega stjórna 600 hestafla vélum, en vilji hann komast lengra á sinni námsbraut, þá getur hann það ekki með eðlilegum hætti, heldur verður hann að byrja gersamlega frá rótum á nýjan leik í nýju skólakerfi.

Þetta er augljós ágalli, sem hlýtur að verða leiðréttur, um það er lýkur. En það er hins vegar meira vandaverk en svo að byggja upp fræðslukerfi fyrir vélstjóra á okkar vélaöld, að það verður tæplega gert í einu þingmannsfrv. Það er verk, sem hlýtur að verða leyst af hendi af opinberum og þar til kvöddum aðilum, enda mun nú unnið að þessu. Hitt er annað mál, að breyting á réttindum þeirra vélstjóra, sem nú eru í því starfi, kallar meira að en svo, að hægt sé að bíða eftir því, að öllu námskerfinu verði breytt og komið í skynsamlegt horf, enda veit ég ekki til þess, að fyrirsjáanlegt sé, að till. verði gerðar um það alveg í náinni framtíð.

Ég hef því lagt til hér í þessu frv., að réttindum þeirra vélstjóra, sem þegar hafa tekið próf frá mótornámskeiðum Fiskifélags Íslands, verði breytt og þau hækkuð, þannig að hið minna mótornámskeið Fiskifélagsins gefi mönnum þegar réttindi til þess að stjórna allt að 100 hestafla vélum, í staðinn fyrir að nú hafa þeir réttindi til þess að stjórna 50 hestafla vélum, einnig að með fenginni reynslu fái þeir réttindi til þess að stjórna ekki aðeins 250 hestafla vélum, eins og þeir hafa nú með eins árs reynslutíma, heldur fái þeir réttindi til þess að stjórna allt að 400 hestafla vélum, að vísu með lengdum reynslutíma, tvöföldum, þannig að nú þurfi þeir tvö ár til þess að vinna sér þau réttindi. En einnig legg ég hér til, að þessi réttindi verði ekki einskorðuð við 400 hestaflatölu vélar, heldur verði þau bundin við þá tölu að nokkru leyti, en þó þannig, að vélstjórar, sem uppfylla þessi skilyrði, sem þegar eru nefnd, skuli jafnan hafa rétt til þess að vera vélstjórar á fiskiskipum, sem eru 100 rúmlestir að stærð eða minni, þó að vélar slíkra skipa séu stærri en 400 hestöfl.

Þá er enn fremur lagt til, að þeir vélstjórar, sem lokið hafa hinu meira námskeiði Fiskifélags Íslands í mótorfræði, geti öðlazt rétt til að stjórna allt að 900 hestafla vélum, í staðinn fyrir að það hámark, sem lögin ákveða í því efni nú, er bundið við 600 hestöfl.

Þegar eru fjölmargir vélstjórar á undanþágum við sín störf, og fyrirsjáanlegt er, að þegar hin 12 nýju fiskiskip væntanlega koma til landsins á yfirstandandi ári, þá munu fáir, ef þá nokkrir vélstjórar fást til starfa á þeim úr hópi þeirra manna, sem til þess hafa full réttindi.

Það er þess vegna alveg óeðlilegt að koma upp svo að segja nýjum flota í landinu, þar sem ábyrgir yfirmenn á skipunum, — ég á þar við vélstjórana, — hafa ekki réttindi til starfa sinna, heldur verða allir eða svo til allir að sækja um undanþágu til stjórnarvaldanna til þess að fá að gegna því starfi, sem þeir fyrirsjáanlega hljóta þó að gegna. Það er enn mál út af fyrir sig, að því hefur verið haldið fram, að auk þess sem undanþágur þessar eru mjög hvimleiðar og óþörf skriffinnska, þá sé beinlínis ekki til nein lagaheimild fyrir þeim, svo að þær séu í rauninni álíka löglausar og þótt engra réttinda væri krafizt af þeim mönnum, sem í hlut eiga.

Þessari kenningu hefur verið haldið fram. Ég er að vísu ekki sá lögspekingur, að ég geti fullyrt, að hún sé rétt, en ég hef ekki séð henni mótmælt. Er ekki sízt ástæða til þess, að Alþingi flýti endurskoðun og breytingu á ákvæðum um réttindi þessara vélstjórnarmanna með tilliti til þess, að máske er mjög stór hluti vélstjórastéttarinnar á fiskiflotanum að löglausu við störf.

Það er líka augljóst mál, að ekki kemur til greina að beita gildandi lagaákvæðum út í æsar gegn þeim mönnum, sem nú vinna störf sem vélstjórar á fiskibátaflotanum. Það mundi ekki geta þýtt neitt annað en það, að verulegur hluti af fiskiflotanum stöðvaðist, og hlyti þjóðarbúið að sjálfsögðu við það mikið framleiðslutap.

Þetta frv., sem hér er flutt, miðar því að því tvennu: að veita starfandi vélstjórum fiskibátaflotans atvinnuöryggi við það starf, sem þeim er eðlilegt að vinna og þeir koma til með að vinna, hvað helzt sem lög um þetta segja, og að hinu leytinu miðar það að því að létta af því skriffinnskufári, sem í kringum undanþágurnar er, bæði hjá hinum opinbera aðila, sem samþykkir undanþágur, og þeim einstaklingum, sem þurfa um þær að sækja, máske margsinnis á sama árinu.

Það mun rétt vera, að frv. þetta, ef að lögum yrði, gæti í einhverju raskað hlutfallinu, sem nú er á milli námsviknafjölda vélstjórnarmanna á hverju námskeiði eða í hverjum skóla og þeirrar tölu hestafla í réttindum, sem þeir hljóta. En ég held, að við því sé ekki mjög mikið að segja. Það er ekki nema eðlilegt, að með framþróun tímanna breytist einnig það hlutfall, því að það er ekki byggt á stöðugri grundvelli, en margt annað, sem breytingum hlýtur að taka í þjóðlífinu. Og til viðbótar skal ég aðeins geta þess, að þegar flutt hafa verið frv., sem ganga í svipaða átt og þetta frv., hér á Alþingi áður, þá hefur það orðið þeim helzti þröskuldur til samþykktar, að þeir menn, sem lokið hafa námi við Vélskóla Íslands, hafa yfirleitt sett sig á móti því, að réttindi vélstjóra frá mótornámskeiðum Fiskifélags Íslands verði aukin. Það er skiljanleg tilhneiging.

Sá maður, sem fer í gegnum Vélskóla Íslands, hefur í rauninni lokið býsna miklu námi, og í rauninni eru þau réttindi, sem hann fær eftir það nám, ekki meiri en svo, að það er eðlilegt, að slíkir menn vilji halda vel utan að sínum réttindum. Þar er því þó til að svara, að með þessu frv., ef að lögum yrði, væru engin réttindi frá þeim tekin nema sérréttindi. Auðvitað mega þeir eftir sem áður vera vélstjórar við þær vélar, sem þessi hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir í réttindum þeirra vélstjóra, sem hlotið hafa nám sitt á námskeiðum Fiskifélags Íslands, nær til. Aðeins sérréttindin hverfa. Ef t. d. vélstjórar frá Vélskóla Íslands væru fáanlegir til þess að gerast vélstjórar á hinum nýju 250 lesta fiskiskipum, þá stendur þeim það að sjálfsögðu opið, þó að sú breyting væri þá gengin í gildi á lögunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar hafa þeir ekki sérréttindi til þeirra starfa að samþykktu þessu frv. Þau skip munu væntanlega verða með 800 eða rúmlega 800 hestafla aflvélar, svo að, að verulegu leyti eru ákvæðin í þessu frv. miðuð við það, að til starfa við vélstjórn á þeim fáist menn, sem nú eru í starfi á fiskibátaflotanum og eðlilegt er að taki við þessum störfum.

En auk þess, sem ég hef þegar nefnt af því, sem mælir gegn því, að mjög fast sé haldið í réttindi þeirra vélstjóra, sem nú hafa einir réttindi til þess að stjórna stærri vélum en 600 hestafla, er það, að það er í rauninni ekki ástæða til þess að krefjast ætíð meira náms til þess að stjórna stærri vél, því að eðli málsins breytist oft ekki, þó að vélin stækki. Þetta er nokkuð hliðstætt því, sem nefna má, að ekki er krafizt neins annars prófs til þess að stjórna stórri bifreið en lítilli, vegna þess að sá maður, sem einu sinni hefur lært þær undirstöður, sem til þess þarf að stjórna bifreið, er líklegur til þess að geta færzt það í fang að stjórna stórri bifreið, eftir að hann er búinn að fá þjálfun í starfinu. Ég neita því ekki, að það kann að vera í tilfellum meiri vandi að stjórna hinni stærri bifreið, en eðlismunur er ekki á því, og sú uppfræðsla, sem slíkur stjórnandi hefur fengið, getur nægt honum með fenginni reynslu til þess að fara með hin stærstu farartæki í þessum efnum. Þannig er þessu einnig farið í mörgum tilfellum um vélar. Þó að sett sé stærri vél í einn fiskibát, en áður var í honum, þá getur hún verið nákvæmlega sams konar eðlis og sú fyrri, og oft er það einmitt þannig, að vélin, sem við bætist, er máske einum eða tveimur strokkum stærri, en að öllu leyti hin sama í byggingunni og hin fyrri vél var, og þess vegna þarf í rauninni sömu þekkingu til þess að stjórna hinni minni vél eins og hinni stærri. Á þetta ber einnig að líta. Hitt er annað mál, að ég vona, að við endurskoðun menntunarkerfis vélstjóra verði horfið að því ráði að auka einnig möguleika þeirra vélstjóra, sem lokið hafa námi frá Vélskóla Íslands, helzt þannig, að þeir geti haldið áfram til háskólanáms í sínum fræðum og orðið vélaverkfræðingar án þess að þurfa að byrja alveg frá rótum og geta ekki notfært sér nema þá að mjög takmörkuðu leyti þá sérþekkingu, sem þeir hafa fengið í Vélskóla Íslands, til þess að ljúka fræðilegum prófum í sinni grein, hliðstæðum háskólaprófum.

Ég vænti þess svo að, að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til sjútvn.