13.03.1958
Neðri deild: 65. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

150. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Karl Guðjónsson):

Ég vil aðeins í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (ÁS) taka það fram, að ég er honum alveg sammála um það og tel enda víst, að svo verði gert, að frv. verði sent til umsagnar Farmanna- og fiskimannasambandsins og máske fleiri aðila, sem sérstaklega kynnu að hafa um þetta mál eitthvað að segja, og ég sem flm. vil hreint ekki halda því fram, að hér sé um slíka smíði að ræða, þar sem þetta frv. er, að þar megi í engu bæta um til hins betra. Hitt get ég ekki fallizt á, sem hann heldur fram, að það sé vert að bíða með þetta mál. Það má trúa honum fyrir því, að það hefur verið allmikið beðið með þetta mál og það hefur dregizt það lengi hjá þeirri n., sem í þessu er að vinna, að skila áliti sínu um það, að þó að ég vilji í engu kasta rýrð á nefndina eða nefndarmenn, þá vil ég hins vegar draga það fram, að þörfin í þjóðfélaginu kann að eiga einhvern rétt á sér líka og jafnvel alveg til jafns við þá ágætu nefnd, sem hefur ekki enn þá skilað af sér og mér skilst auk þess að sé ekki sammála og muni tæplega skila einu áliti.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði sérstaklega um 4. gr. þessa frv., um það, að sá maður, sem kynni að hafa verið með undanþágu til starfa við vélstjórn við 100–400 hestafla vél í fiskiskipi, geti öðlazt réttindi út á undanþáguna eina, að því er mér skildist, þá gætir þar misskilnings, sem mundi leiðréttast, ef menn athuguðu þau skilyrði, sem sett eru fyrir því, að hann fái þessi réttindi, því að þau eru ekki bara það, að hann hafi haft undanþágu, heldur einnig, að hann hafi lokið prófi frá mótornámskeiði Fiskifélagsins. En ég mun nú ekki ræða einstakar greinar frv., nema þá sérstakt tilefni gefist, að þessu sinni, en skal alveg taka undir það, að ég tel eðlilegt, að leitað sé umsagna stéttarfélaga um þetta, þ. á m. Farmanna- og fiskimannasambandsins. Ég tel hins vegar ekki rétt, að beðið sé með þetta, því að það er á allra vitorði, að það líður nú óðum á þing, og ekki að vita, hve lengi það stendur úr þessu. En ég tel, að þessu þingi megi ekki ljúka svo, að ekki séu gerðar breytingar á þessum lögum, og hef ég þegar tilnefnt eina af ástæðunum. Auk hins almenna undanþáguflóðs, sem í þessari grein er oft þarf að leggjast af, er það, að á yfirstandandi ári koma til með að bætast í flotann mörg skip, sem vitað er fyrir fram að ekki fást neinir menn til vélstjórnar á eða a. m. k. ekki nema þá sárafáir menn til vélstjórnar á nema þeir, sem undanþágu þurfa til þeirra starfa að óbreyttum lögum.