02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

150. mál, atvinna við siglingar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Um réttindamál vélstjóra hafa verið flutt hér á þessu þingi tvö mál: annars vegar það frv., sem hér liggur fyrir, og hins vegar þáltill., sem felur í sér þá sömu hugsun, sem í frv. felst, en er þó að því leyti á annan veg, að það er gert ráð fyrir að leggja áherzlu á endurskoðun löggjafarinnar með það í huga að tryggja réttindi þeirra manna, sem hér er einkum um að ræða.

Hv. sjútvn. hefur lagt til, að frv. þetta verði samþykkt, sem hér liggur fyrir. Hins vegar kemur það fram í umsögnum þeim, sem nefndinni hafa borizt, og er gerð grein fyrir því í nál., að það hafi komið fram gagnrýni á frv., einkum frá Vélstjórafélagi Íslands.

Það er auðvitað rétt hjá hv. frsm, n., að það er ekki einhlítt að taka í öllu tilllt til þeirra sjónarmiða, sem kunna að koma fram þannig frá mönnum, sem sérréttindi hafa, í þessu sem öðru. En hinu er þó ekki að leyna, að hér er um mál að ræða, sem er þess eðlis, að það getur verið töluvert varhugavert að stíga þar þau skref, sem hér er gert ráð fyrir, án þess a. m. k. að málið sé íhugað mjög rækilega. Ég er alveg sammála hv. frsm. n. um, að það er mikið vandamál með vélstjóra á fiskiflotann og það verður að sjálfsögðu að reyna að tryggja, að nægilegir vélstjórar séu jafnan til reiðu, þannig að hægt sé að halda útgerðinni gangandi af þeim sökum. En hins vegar held ég, að það geti þó naumast farið á milli mála, að það sé alltaf töluvert alvarlegt skref, sem stigið er, þegar farið er inn á þá braut að draga úr réttindum eða minnka kröfur, sem gerðar eru til kunnáttu manna til ýmissa starfa og þá ef til vill ekki hvað sízt þeirra starfa, sem hér um ræðir. Með þessu er ég ekki að segja, að það geti ekki verið fullkomlega rétt sjónarmið, sem liggur að baki þessu frv. En ég efast þó um, að því hafi verið gefnar nægilegar gætur, hvernig þessi mál standa í dag, og ég hygg, að það séu ekki miklar líkur til, að það muni skapa aukin vandræði fyrir fiskiflotann, þó að beðið væri um skeið þess, að löggjöfin um vélstjóranám væri endurskoðuð.

Það liggur auðvitað í augum uppi, að ef með lögum nú á að fara að staðfesta réttindi ákveðinna starfshópa, sem ekki hafa áður haft þau, þá verða þau réttindi vitanlega ekki af þeim tekin né við þeim haggað með nýrri löggjöf, enda þótt í þeirri löggjöf kynni að verða talið, að samræmis vegna væri eðlilegra að hafa þessa tilhögun eitthvað á annan veg, þó að margir þessara manna kynnu að vísu að fá þau réttindi, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil við þessa umr. láta koma hér fram sjónarmið stjórnar Vélstjórafélags Íslands. Eins og ég áðan sagði, er ekki endilega víst, að það sjónarmið sé svo rétt, að til þess beri að taka tillit að öllu leyti. En mér sýnist þó, að það sé þess eðlis, að það sé vert að íhuga það töluvert, áður en afgreiðslu þessa máls lýkur hér.

Ég vildi — með leyfi hæstv. forseta — fá að lesa upp bréf, sem ég hef verið beðinn að koma hér á framfæri frá Vélstjórafélagi Íslands varðandi þetta mál, til athugunar fyrir hv. þm., þegar þeir meta málið eins og það liggur hér fyrir. Þetta bréf hljóðar svo:

„Vélstjórafélag Íslands vill leyfa sér að koma á framfæri við hv. alþingismenn eftirfarandi athugasemdum:

Stjórnskipuð nefnd hefur starfað að því að endurskipuleggja vélstjóranámið í landinu. Nefndin hefur nú skilað áliti fyrir nokkrum dögum. Hæstv. menntmrh. hefur léð oss eintak af till., sem vér erum nú að athuga gaumgæfilega. Tillögurnar eru í tveimur álitum, meiri hluta og minni hluta álitum. Eigi að síður er í tillögunum að finna lausn vélstjóramálanna, en tíminn er hins vegar of naumur til að geta gengið frá kennslumálunum á þessu þingi. Atvinnulöggjöfin, sem hér er til umræðu, er orðin mjög úrelt, en verði till. herra Karls Guðjónssonar samþykktar, er hann gerir ráð fyrir að gera á löggjöfinni, verður mikið ósamræmi milli þessa hluta hennar og annarra, sem skapar óþarfa erfiðleika Atvinnulöggjöfina verður alla að taka til endurskoðunar samhliða breytingum á skólalöggjöfinni. Réttindaaukningin er heldur ekki eins aðkallandi mál og sumir vilja láta, því að þótt nokkrum vélstjórum verði veitt meiri réttindi, læknar það ekki vélstjóraeklu fiskiskipaflotans, nema síður sé, þar sem hér er opnuð leið inn á verzlunarflotann, og er oss eigi grunlaust, að margir mundu reyna að notfæra sér það.

Flestar undanþágur, sem einstakir alþingismenn vitna í, eru frá mönnum, sem engan lærdóm og enga þjálfun hafa til þessara starfa, Í þjóðfélagi voru er víða vöntun á sérmenntuðum mönnum, svo sem iðnaðarmönnum, kennurum, verkfræðingum og prestum. Aldrei verður þess þó vart, að Alþingi hafi beinan áhuga á að létta á kröfunum til þessara stétta.

Sjómannastéttin, skipstjórnarmenn og vélstjórnarmenn, er þó næstum árlega á dagskrá hjá hv. Alþingi, og virðist áhugi því miður talsverður fyrir því að draga úr þekkingu þeirra. Í trausti þess, að hv. alþm. vilji taka fræðslu- og réttindamál vélstjórastéttarinnar með sanngirni og velvilja, leyfum vér oss vinsamlegast að fara þess á leit við hv. Alþingi, að það fresti afgreiðslu frv. til næsta Alþingis, svo að nægur tími gefist til að vinna úr skólalöggjöfinni og heildarendurskoðun siglinga- og atvinnulöggjafarinnar.

F. h. Vélstjórafélags Íslands,

Tómas Guðjónsson, Örn Steinsson.“

Eins og ég áðan sagði, þá er vitanlega ekki þar með sagt, að öll einstök atriði þessara sjónarmiða Vélstjórafélagsins hafi við rök að styðjast. En mér sýnist þó, ef málið liggur þannig fyrir, að búið sé að tilhlutan ríkisstj. að framkvæma endurskoðun á þessari löggjöf og ganga frá till. um skipulag vélstjóranámsins í framtíðinni og þar af leiðandi að sjálfsögðu þeirra réttindamála, sem hér um ræðir, þá væri a. m. k. mjög æskilegt, áður en afstaða væri tekin til þessa frv. hér, að heyra um sjónarmið hæstv. menntmrh., hvað hann fyrirhugar í þessu efni.

Ég veit það vel, að hér er við vandamál að stríða, og vafalaust getur orðið nauðsynlegt að fara inn á þær brautir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., vegna skorts á vélstjórum. En það er hins vegar jafnrétt, að það er alltaf dálítið viðurhlutamikið, þegar er verið að breyta reglum sem þessum og minnka kröfur til náms, sem gerðar eru til einstakra sérgreinahópa, og þó að það geti verið réttlætanlegt, eins og málið hér liggur fyrir, þá sýnist mér þó vert að taka til greina eða a. m. k. íhuga rækilega þetta sjónarmið Vélstjórafélagsins og hefði talið mjög æskilegt, ef hægt hefði verið að fresta þessu máli nú á þessum fundi a. m. k., þannig að gefizt hefði þá tóm til þess að fá að heyra frá hæstv. menntmrh., hvernig háttað er með þær till., sem til hans hefur verið skilað, að því er mér skilst nú fyrir mjög skömmu, um endurskoðun þessarar löggjafar í heild, og hvort hann hugsar sér að flytja þau mál inn á Alþingi.

Þetta sýnist mér ekki geta verið annað en skynsamleg og eðlileg vinnubrögð og þurfi ekki að fela í sér nein sérstök vandræði eða torvelda það, að fáist fram viðunandi lausn á þessu máli.