02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í sambandi við þá ræðu, sem hv. 2. þm. Eyf. flutti hér, vil ég aðeins taka fáein atriði fram.

Hann flutti hér þingheimi bréf frá Vélstjórafélagi Íslands. Efni þess er okkur í sjútvn. vel kunnugt. Þeir hafa kynnt það þar áður og enda vafalaust kynnt það fleiri þm., og ég hef margtekið fram, að ég skil vel þeirra sjónarmið, og það er ósköp skiljanlegt, að menn, sem hafa gengið í gegnum það að taka á sínar herðar langt nám á þeim æviárum, sem annars eru mönnum tekjudrjúg, ef þeir geta einbeitt sér að starfi, þeir hafa leyst af hendi miklar prófraunir, og það er ekki nema eðlilegt, að þegar þeir eru búnir að því, þá hafi þeir tilhneigingu til þess að halda undir þær prófraunir og undir það nám sérréttindum á allri þeirri vélstjórn, sem þær í upphafi tóku til. Þetta sjónarmið er ekkert óskiljanlegt.

Hins vegar hef ég ekki getað fallizt á það, að þetta sjónarmið eigi hér að ráða, og vil færa fyrir því þau rök: Réttindi vélstjóranna, sem hafa þau takmörkuð við ákveðna hestaflatölu vélar, eru í rauninni alltaf að minnka fyrir tilverknað þróunarinnar. Sá maður, sem á sínum tíma lauk prófi, sem átti að gefa honum réttindi til þess að vera vélstjóri á venjulegum fiskibát, missir þau réttindi, vegna þess að þróunin hefur hagað málum svo, að nú eru notaðar stærri vélar í þann bát, sem hann upphaflega miðaði starf sitt við, heldur en gert var, þegar hann lauk sínu námi. Á hinn bóginn fá þeir, sem lokið hafa endanlegu vélstjóranámi frá Vélskóla Íslands og uppfyllt þau skilyrði, sem selt eru til vélstjórnar við vélar, sem eru af ótakmarkaðri stærð, þessi auknu réttindi alltaf af sjálfu sér. Þróunin færir þeim þau. Þeir hafa máske, þegar þeir luku sínum prófum, reiknað með því, að þeir hefðu réttindi til að vera vélstjórar við stærstu vél, sem þá tíðkaðist á Íslandi. Ég er ekki í neinum vafa um það, að nú tíðkast stærri vélar á Íslandi, en þeir vélstjórar reiknuðu með að starfa við, sem nú eru máske búnir að vera einn áratug í starfi eða svo. Hér er þess vegna ekki einasta um það að ræða, og mér finnst það heldur of þröngsýnt sjónarmið frá jafnágætri stétt eins og vélstjórum, þeim sem lokið hafa prófi frá æðstu menntastofnunum þjóðarinnar í þeirri grein, að telja það alveg fráleitt að láta í kjölfar þessarar þróunar réttindi vélstjóranna, sem hlotið hafa menntun sína á námskeiðum Fiskifélags Íslands, þokast upp á við einnig. Enn fremur vil ég taka það fram, að ég hef líka athugasemdir að gera, þó að ég telji þau sjónarmið ekki fráleitt, sem liggja til grundvallar beiðni Vélstjórafélags Íslands um, að málinu verði frestað, — ég tel mig að nokkru skilja þau, en ég get ekki samþykkt þau að heldur.

Mér skilst, að auk þess, sem ég þegar hef nefnt, sé aðallega um þrennt að ræða: 1) Það sé verið að draga úr réttindum vélstjóra með æðstu menntun. 2) Það sé verið að minnka kröfur til menntunar vélstjóra á fiskiskipum. 3) Frv., ef samþ. yrði, mundi valda ósamræmi í væntanlegri lagasetningu um menntun vélstjóra á Íslandi. Ég vil aðeins leyfa mér að taka þessi atriði fyrir hvert um sig með örfáum orðum.

Er verið að draga úr réttindum vélstjóra frá Vélskóla Íslands? Ég segi nei. Það er ekki verið að draga úr réttindum þeirra, það er aðeins verið að draga úr sérréttindum þeirra. Nú hafa þeir sérréttindi til vélstjórnar á öllum vélum í íslenzkum skipum, sem eru af stærðinni frá 600 hestöfl og upp í það stærsta, sem tíðkast. Með frv. mundu þeir einnig mega vera vélstjórar á öllum þessum vélum og raunar öllum vélum, sem notaðar eru í íslenzkri þjónustu, en þeir mundu missa sérréttindin til vélstjórnar á vélum frá 600 hestöfl upp í 900 hestöfl. Það er allt og sumt, sem þeir missa. Hver vill svo halda því fram, að einn útgerðarmaður á fiskiskipi, sem á þess kost að fá hámenntaðan vélstjóra á skip sitt, muni frekar taka þann, sem minni hefur menntunina? Ég held, að á því sé engin hætta. Þar með hlýt ég að verða að álykta svo: Það er ekkert frá þeim vélstjórum tekið, sem hlotið hafa menntun sína hjá Vélskóla Íslands,

Þá kem ég að öðru atriðinu: Er verið að minnka kröfurnar til vélstjórnar? Það er vissulega alveg rétt, að alls öryggis vegna væri það alvarlegur hlutur, þegar vélar eru að verða fjölbreytilegri og vandasamari í stjórn, að minnka kröfurnar. En er nú verið að gera það með þessu frv.? Ég verð einnig að neita því. Það er að vísu rétt, að frv. gerir ráð fyrir því, að án aukinnar setu á skólabekk eigi réttindi vélstjóra, sem lokið hafa námi á mótornámskeiðum Fiskifélags Íslands, að hækka nokkuð. En er einskis krafizt í staðinn? Jú, það er tvöfölduð krafan um reynslutíma manns í starfi.

Ég er nú kennari að atvinnu, og út frá því sjónarmiði situr það kannske ekki vel á mér að halda því fram, að ýmsir aðrir hlutir geti verið eins notadrjúgir sem raunhæf menntun eins og seta á skólabekk. En ég verð nú samt að leyfa mér að halda því fram, að það sé ekki minna um það vert, að menn fái reynslu í hinu raunhæfa starfi, en þó að bætt væri við einhverri setu á skólabekk. Að því er þetta frv. varðar, þá gerir það kröfu um lengingu reynslutíma viðkomandi vélstjóra úr einu ári í tvö ár í starfinu sjálfu. En ég er sannfærður um það, að þeir, sem telja, að hér sé um að ræða tilslökun eða minnkun á kröfum til menntunar vélstjóra, mundu flestir segja, að einn mánuður á skólabekk gæti komið í staðinn fyrir þetta. Ég leyfi mér að halda því fram, að heilt ár í starfi sé ekki minna virði sem menntun en einn eða tveir mánuðir í skóla.

Kem ég þá að þriðja atriðinu, varðandi ósamræmið, sem haldið er fram að frv. mundi gera á væntanlegri löggjöf um vélstjóramenntun. Í sambandi við það vil ég fyrst taka fram, að þó að þrír menn í nefnd hafi borið saman bækur sínar um það, hvernig haga beri vélstjóramenntuninni á Íslandi, ekki náð neinu samkomulagi og skilað tveimur nál. til ráðuneytis um það, hvernig þeir teldu hyggilegt að haga þessari löggjöf í framtíðinni, þá held ég, að þegar við hugsum til þarfanna á líðandi stund, þá sé það harla ónákvæmt kennileiti til þess að miða við afstöðu sína, hvað hugsanlega kæmi út úr löggjöf, sem soðin yrði upp úr tveimur ósamhljóða nál., sem lögð hafa verið inn í menntmrn. Í öðru lagi má segja, að ósamræmi geti verið til skaða. En við skulum þá athuga annað. Þó að hægt væri nú að komast hjá því að skapa ósamræmi í réttindum þeirra manna, sem þegar hafa lokið sínum prófum í þessu efni, og væntanlegri löggjöf, væri það ægilegra, en það gapandi ósamræmi, sem í dag er á milli raunveruleikans sjálfs og menntunar vélstjóra og löggjafarinnar um menntun vélstjóra? Ég hef áður farið hér með tölur um það, hversu mikil brögð eru að því, að menn hafi ekki réttindi til þeirra starfa, sem þeir eru að inna af hendi núna hvern dag og þjóðin að verulegu leyti byggir afkomu sína á. Væri það voðalegra að hugsa sér eitthvert samræmi í raunveruleikanum og réttindamálum vélstjóra, eins og þau eru í dag, heldur en þó að hugsanlegt ósamræmi yrði á milli væntanlegrar löggjafar og þeirra réttinda, sem hér yrðu ákveðin? Ég held ekki.

Að lokum skal ég aðeins koma að því, að andmælendur þessa máls hafa bent á það, að aldrei muni vélskipaflotinn stöðvast fyrir það, að ekki séu til vélstjórar, sem hafa réttindi skv. lögum til starfsins, því að undanþágur séu auðvitað alltaf veittar, frekar en til stöðvunar komi. Þetta er út af fyrir sig rétt. En þetta er ekki nema önnur hliðin á málinu. Hin hliðin snýr að þeim mönnum, sem eru að inna af höndum það starf, sem hér eru gerðar tilraunir til að sporna við, að þeir fái réttindi til.

Sá maður, sem ræður sig á skip, reiknar auðvitað með því, að hann fái að halda þeirri atvinnu, sem hann ræður sig til, ef hann reynist sæmilegur í sínu starfi. Er það nú svo með þá vélstjóra, sem hafa undanþágur til starfsins? Ég þekki dæmi þess, að á vetrarvertíð og á meðan hörðust eru veður og erfiðust er sjósókn, þá er hörgull á að fá menn, sem uppfylla öll skilyrði, og þá ganga til starfanna menn, sem skortir upp á í réttindunum. Þeir fá undanþágu til starfsins. En máske þegar vorar og blíðviðri ganga í garð og léttara verður um störfin, þá þegar viðkomandi maður ætlar að fá nýja undanþágu til starfsins, svo að hann megi nú fara á síldveiðar á bátnum, sem hann var vélstjóri á yfir vetrarvertíðina, þá er kominn pappír, sem segir: Nei, nú er fáanlegur maður með fullum réttindum, og við veitum ekki undanþágur, á meðan slíkir eru tiltækir. — Þetta er líka hlið, sem vert er að virða fyrir sér, og þjóðfélagið hefur vissulega nokkrar skyldur við þá menn, sem ganga í hörðustu verkin og þegar fæstir fást til þess, og þeir mega gjarnan eiga réttindi til þess að vinna sama starf líka, þó að blíðari veður séu í lofti.