02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

150. mál, atvinna við siglingar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er alls ekki tilætlun mín að fara að taka upp deilur um þetta mál hér. Ég geri ráð fyrir, að það beri ekki svo mjög mikið á milli skoðana okkar hv. 2. landsk. um málið, heldur er þar nánast aðeins um að ræða, hvaða vinnubrögð séu í því skynsamlegust. Mér dettur ekki í hug að mótmæla því, sem hann hefur hér mælt, en hins vegar verð ég að segja það, að ég finn ekki í orðum hans nein sérstök rök fyrir því, að það sé óumflýjanlegt að gera þessa breytingu á réttindamálunum núna, þótt fyrir dyrum standi, eftir því sem bezt verður séð, að gera heildarendurskoðun á þessari löggjöf.

Það er vitanlega alveg rétt hjá honum, að margir vélstjórar, sem ekki hafa réttindi, eru kannske miklu færari menn og reynast betri vélstjórar en þeir, sem í gegnum skóla hafa farið, og það er þannig, eins og við þekkjum, í mörgum greinum, fleiru en vélstjóranámi. Við þekkjum það í ýmsum iðngreinum. Það eru t. d. til trésmiðir, sem engin réttindi hafa og eru kannske miklu færari menn en þeir, sem gegnum skóla hafa gengið. Það er þess vegna á mörgum sviðum, sem má benda á þessi dæmi, þó að þannig sé ástatt varðandi vélstjórana, að eins og sakir standa í dag, eru kannske fáar af þessum sérgreinastéttum, sem eru eins mannfáar til þess að manna okkar fiskiflota, og af því stafa allar þessar mörgu undanþágur. En hvað sem þessu líður og að þarna sé hægt að finna í mörgum greinum hæfa menn, sem ekki hafa fengið nema takmarkaða eða jafnvel enga skólamenntun, þá held ég samt ekki, að menn muni vilja leggja út á þá braut að rýra þær kröfur, sem gerðar eru til náms í hinum einstöku greinum, á þann veg að veita slíkum mönnum öllum fullgild réttindi. Það er alltaf töluvert alvarlegt spor, sem stigið er, þegar slík breyting er gerð, og það er nauðsynlegt að íhuga vel sinn gang í því efni.

Það er vitanlega mjög bagalegt og í rauninni óviðunandi, eins og hv. 2. landsk. hér sagði, að þessir menn, sem undanþágur hafa og verða að grípa inn í til þess að bjarga fiskiflotanum frá stöðvun, séu svo hraktir frá sínum störfum, þegar betur viðrar og fleiri vilja fara á sjó, ef því er þannig háttað, sem ég efa ekki að hann fari rétt með, að um það séu einhver dæmi.

Allt eru þetta vissulega rök, sem benda á nauðsyn þess að íhuga þetta mál. En engu að síður er ég þeirrar skoðunar við nánari athugun á þessu máli og við það einnig að hlýða á orð hv. 2. landsk., að það séu á þessu máli ýmsar hliðar, sem nauðsynlegt sé að íhuga rækilega. Og einmitt þau rök, sem hann hefur hér lagt fram, sannfæra okkur um hina miklu nauðsyn þess að hraða sem mest endurskoðun löggjafarinnar um vélstjóranám. En hins vegar held ég, að það séu dálítið óeðlileg og óvenjuleg vinnubrögð, þegar fyrir dyrum stendur, jafnvel eftir skamma hríð vonandi, að fyrir Alþingi komi slík endurskoðun í heildarfrumvarpi, að þá sé hlaupið til og gerðar breytingar, sem hagga mjög verulega þeim námskröfum, sem gerðar hafa verið til vélstjóra. Það er alveg rétt hjá hv. 2. landsk., að vélstjórar hafa yfirleitt ekki yfir neinu að kvarta sem slíkir, meðan þeir hafa nóga vinnu, þó að einhverjir aðrir komi inn í störfin, sem ekki hafa sambærilega menntun. En það er ekki eingöngu þetta, sem á er að líta í þessu sambandi, heldur námskerfið sem slíkt og hversu brýn nauðsyn kann að vera til þess að gera ákveðnar kröfur til sérnáms í þessari grein eins og öðrum þeim greinum, sem sérnám þarf til.

Ég skal ekki eyða um þetta fleiri orðum, en ég vildi aðeins leyfa mér að ítreka ósk mína til hæstv. forseta um það, af því að ég hygg, að það hljóti að vera okkur öllum töluvert atriði í þessu máli, að fresta nú umr. málsins, þannig að tækifæri gefist til þess að fá hér fram skoðun hæstv. menntmrh. á því, hvort hann telur þessa breytingu munu á nokkurn hátt skapa vandkvæði í sambandi við þá löggjöf, sem væntanlega verður sett, eða a. m. k. fá fram yfirlýsingu hans um það, hvort slík löggjöf verði lögð fyrir þingið innan skamms tíma, því að það hlýtur að hafa töluverð áhrif á viðhorf manna til afgreiðslu þessa frv.