08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

150. mál, atvinna við siglingar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 459 ber með sér, skrifaði ég undir nál. sjútvn. um þetta mál með fyrirvara og lét þess getið að ég áskildi mér rétt til að flytja brtt. við frv. Ég taldi ekki ástæðu til að flytja þessa brtt. við 2. umr., en hef nú leyft mér að flytja hana. Brtt. er á þskj. 476, þess efnis, að á eftir 15. gr. frv. komi ákvæði til bráðabirgða, um það, að ríkisstj. láti endurskoða ákvæði laga um menntun og réttindi vélstjóra og sé þeirri endurskoðun lokið fyrir næsta reglulegt Alþ. Þá felur ákvæðið það enn fremur í sér, að við endurskoðunina skuli hafa samráð við Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Vélastjórafélag Íslands, Mótorvélstjórafélag Íslands og Landssamband íslenzkra útvegsmanna.

Það er nú svo, að um menntun og réttindi vélstjóra er ákveðið í tvennum lögum. Í sérstökum lögum er fjallað um menntun vélstjóra, en ákvæðin um réttindi vélstjóra eru í lögum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Og þessi tvenn lög heyra ekki undir sama rn. Lögin um menntun vélstjóra heyra undir menntmrn., og lögin um atvinnu við siglingar heyra undir atvmrn.

Ég tel, að það sé nauðsynlegt, að nú á næstunni fari fram endurskoðun á þessum tvennum lögum samhliða og að það verði jafnhliða að gera tillögur um, hver skuli vera menntun vélstjóranna og hver skuli vera réttindi þeirra til vélstjórnar.

Nú er það svo skv. lögum, að vélstjórar fá menntun sína með þrennu móti. Í fyrsta lagi geta menn tekið próf frá vélskólanum. Sú menntun, sem er skilyrði fyrir því prófi, er í fyrsta lagi iðnmenntun, sem tekur venjulegan tíma, og því næst er þriggja ára nám í vélskólanum, fyrst eitt ár í almennri deild og síðan tvö ár í rafmagnsdeild. Prófið, sem byggist á þessari menntun, veitir réttindi til að stjórna hvers konar vélum. Í öðru lagi eru svo þeir, sem verið hafa á námskeiðum Fiskifélags Íslands, hinu meira, sem tekur sex mánuði, og hinu minna, sem tekur þrjá mánuði, en þeir, sem á þessum námskeiðum hafa verið, geta eftir ákveðinn tíma fengið réttindi til þess að stjórna vélum upp að 600 hestöflum og skv. frv. upp að 900 hestöflum. Í þriðja lagi er svo námskeið Fiskifélagsins hið minna, en þeir, sem á því hafa verið, geta fengið réttindi skv. gildandi lögum upp að 250 hestöflum, en skv. því frv., sem fyrir liggur, upp að 400 hestöflum.

Þessi ákvæði í lögunum um menntun vélstjóra og í lögunum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum tel ég nauðsyn bera til að verði endurskoðuð hið fyrsta. Ég hef hins vegar ekki viljað mæla gegn því, að aukin yrðu réttindi vélstjóra á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem fyrir liggur, og þá m. a. vegna þess, að frá samtökum útgerðarmanna hafa komið mjög eindregnar óskir um, að þetta yrði gert, þar sem þeir telja mjög erfitt að búa við það ástand, sem nú er í þeim efnum, að oft er vöntun á vélstjórum með réttindi, og verða þá ekki fengnir vélstjórar á annan hátt en með því, að þeir fái undanþágu, sem veitt er í samgmrn. með — að því er sumir telja — vafasamri heimild í lögum, en þó hefur verið talin heimil, þannig að mikið hefur verið veitt af undanþágum ár hvert.

Ég vil svo aðeins taka það fram í sambandi við þessa brtt. mína, að eins og komið hefur fram hér í hv. d., þá hefur farið fram endurskoðun á vegum menntmrn, á lögunum um menntun vélstjóra, og mun liggja fyrir álit n. um það efni. Þar er því að sjálfsögðu þegar búið að vinna nokkra undirbúningsvinnu í þessu máli, en sú endurskoðun tekur ekki til laganna um atvinnu við siglingar, og tel ég því þetta bráðabirgðaákvæði nauðsynlegt, sem ég hef lagt til að yrði bætt við frv.