08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

150. mál, atvinna við siglingar

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram í máli þessu till. til rökstuddrar dagskrár á þskj. 482. Ég tel ekki ástæðu til að skýra þá rökstuddu dagskrá mjög, en leyfi mér að tala um málið almennt, og þá vil ég aðeins byrja með að minnast á till. hv. þm. N-Þ., þar sem hann leggur til að bæta ákvæði til bráðabirgða við frv. um það, að ríkisstj. láti fram fara endurskoðun og samið verði frv. fyrir næsta Alþ. um þessi mál. Ég vil ekki frekar fara út í það, sem hv. þm. N-Þ. sagði, en vil leyfa mér að tala almennt um málið út frá sjónarmiði mínu og þeirra, sem ég mæli fyrir.

Eins og hv. alþm. mun í fersku minni, hefur mþn., sem átti að athuga og gera till. um menntun vélstjóra, lokið störfum sínum. Meðan þessi endurskoðun var enn ekki lokið, kom frv. það fram á Alþ., sem er nú til umræðu. Þegar n. hafði skilað áliti í tvennu lagi, báðu vélstjórafélögin um frest á frv., á meðan þau væru að kynna sér till. n. Hæstv. menntmrh. vildi veita frestinn, og er málið því tekið af dagskrá 5. þ. m., en næsta dag var það tekið á dagskrá að nýju, enda þótt vélstjórafélögunum hefði ekki unnizt tími til að senda umsögn sína. Um er þó að ræða mikið hagsmunamál þeirra. Er þessi hraðskák málsins mjög andstæð framgangi ýmissa annarra mála á hinu háa Alþingi, enda þótt tillögur frv. séu að dómi hæfra manna í vélstjórastéttinni hinar hæpnustu.

Í tilefni þessa frv, gerðu Vélstjórafélag Íslands og Mótorvélstjórafélag Íslands með sér samkomulag um frumdrætti að framtíðarskipulagi vélstjórakennslunnar. Samkomulagið er undirritað af stjórnum félaganna þann 19. marz 1958. Þeir leggja til í fyrsta lagi, að kennslan verði samræmd og sameinuð, eins og meiri hl. hinnar stjórnskipuðu n, hefur lagt til, þannig að stighækkandi réttindi fáist með auknu námi, er námsmenn ganga í gegnum skólann. Telja þeir réttilega, að þetta fyrirkomulag muni auka á öryggi og bæta rekstur skipanna með bættri gæzlu. Hinn 2. maí hafa þessir aðilar komið á framfæri óskum um það, að þeim gæfist tóm til þess að athuga nál. frá meiri og minni hl. Telja þeir, að þar sé að finna lausnina á kennslukerfi því, er taka beri upp til þess að fyrirbyggja hinar hvimleiðu undanþágur í framtíðinni, telja ekki, að lausnin finnist eða sé að finna í frv. því, er hér liggur fyrir til umræðu.

Um er að ræða um 500 manna hóp af einni sérgrein sjómannastéttarinnar, og væri það mjög misráðið að gera ekki nú, þegar þessar greinar stéttarinnar hafa komið sér saman í höfuðatriðum og fullvíst er, að samkomulag næst um góða lausn, það átak, er dugir svo, að málinu sé borgið um langa tíð. Það fæst með því að gefa þessum mönnum tóm til að semja frv. fyrir samskóla vélstóra nú fyrir næsta Alþingi. Þótt bið verði um nokkra mánuði, þar eð þá mun nást endanleg og varanleg lausn, þá er enginn skaði skeður. Það kippir sér enginn upp við það að samþykkja nokkrar undanþágur enn þá eða til haustsins, þar til málið er komið í kring. Það er margfalt betra og viturlegra, en lögfesta undanþágurnar án aukinnar þekkingar. Það er ljóst mál, að það væri til þess að auka á sæmd Alþ., en ekki hið gagnstæða, að ganga frá nýrri og fullkomnari löggjöf um menntun vélstjóra í stað þess að vera ávallt að sletta bót á gamalt fat, sem í þessu tilfelli yrði ekki annað, en gat eftir sem áður.

Ég vil máli mínu til stuðnings aðeins taka tvö áberandi atriði í frv. Í a-lið 4. gr. er ekki gert ráð fyrir því, að maður þurfi annað í öðru tilfellinu til að öðlast réttindi til þess að stjórna vél allt að 400 hestöflum, en að hafa stjórnað 15 hestafla vél í 24 mánuði á eigin spýtur. Sjá allir, hversu fráleitt þetta er. En í till. n. eru þessi 15 hestöfl tekin út, og þar er ekki einu sinni tekið til, hvort það eiga að vera 15 ellegar eitt hestafl. Við getum hugsað okkur, hvernig það liti út, ef formaður á trillubát eða skipstjóri á 15 lesta bát fengi rétt til þess að sigla milli landa með allt að 400 lesta skip.

Annað dæmi: Maður með þriggja mánaða námskeiði frá Fiskifélagi Íslands getur skv. frv, þessu fengið að stjórna 400 hestafla vél, en nemanda frá Vélskóla Íslands er ætlað fjögurra ára nám í smiðju og þriggja ára nám við skólann til þess að stjórna sömu vél. Ættu allir að geta séð, að hér gætir mikils misræmis, sem eigi má lögfesta. Til þess að hin nýju ákvæði, er þarf að setja í lögin, verði í fullu samræmi við óskir og skoðanir þeirra manna, er eiga að búa við þessa löggjöf og mestan áhuga hafa fyrir sönnum umbótum í þessu efni, þyrfti n., sem semdi frv., að vera skipuð mönnum frá Vélstjórafélagi Íslands, Mótorvélstjórafélagi Íslands og einum úr meiri hluta mþn., sem þá um leið gæti verið fulltrúi ríkisstj. Þessum mönnum væri treystandi til þess að semja heildarfrumvarp um þetta vandamál á mjög skömmum tíma, þar eð þeir eru nú sammála. Væri og sjálfsagt, að þeir hefðu bæði álitin til hliðsjónar, hið meira og hið minna frá milliþinganefndinni.

Það er óhugsandi, að það sé í þágu útgerðarmanna eða þjóðarinnar í heild að lögleiða aukin réttindi án aukinnar þekkingar. Það er einnig ekki heldur í þágu sjómannanna sjálfra, því að með því útilokast þeir frá því að fá von um stighækkandi stöður, ef ekki væri tekið upp stigakerfið. Það má og fullyrða, að ef þetta frv. yrði lögfest, þá yrði það frekar til þess að draga úr áhuganum fyrir nýrri og bættri löggjöf um réttindi og menntun vélstjóra.

Ég vil aðeins í sambandi við þetta mál segja, að það er staðreynd, að það eru ýmis embætti á landi, voru, bæði læknisembætti og prestsembætti úti á landi, sem talin eru mjög rýr, en það hefur aldrei heyrzt né hvarflað að neinum alþm. mér vitanlega að lögleiða neitt minna próf fyrir lækna eða presta til embætta í þessum héruðum eftir sem áður. Það væri enda alveg ófært.

Að athuguðu máli vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að samið verði til næsta þings frv. um menntun vélstjóra í því formi, sem hér hefur verið bent á og fullvíst er að allir menn, sem bezt þekkja til, eru sammála um að sé hin eina rétta leið. Og ég undirstrika það, enda þótt það hafi komið fram í ræðu hv. þm. N-Þ., að það eru ekki útgerðarmenn almennt, sem óska eftir því, að vélgæzlumennirnir á skipunum þeirra séu lítið menntaðir, og þeir hafa heldur ekki beðið um það, að frv. þetta væri samþ., vegna þess að þeir treysti mönnunum með litlu þekkinguna betur, en hinum, sem hafa meiri þekkingu. Það er hins vegar máske hægt að afsaka það með því, að þeir hafa stundum þurft að hafa dálítið fyrir því að fá undanþágurnar, en það hefur verið vegna þess, að það hefur ávallt verið gert eins mikið og hægt hefur verið til þess fyrst að útvega þeim menn með fullum réttindum, áður en samþykkt var, að þeir skyldu fá menn með undanþágu. En aldrei mér vitanlega hafa skip verið stöðvuð af þeim sökum, að vantað hefur vélstjóra á þau eða aðra yfirmenn. Og það er óhætt að segja það, að mér er kunnugt um, að í einu stærsta fiskiveri landsins, einmitt heimahöfn hv. 2. landsk., flutningsmanns þessa frv., eru undanþáguumsóknirnar mestar og það hefur löngum verið fyrir algerlega ómenntaða menn, menn, sem ekki hafa haft leyfi til að vera við vél með einu einasta hestafli, hvað þá heldur meira. Og það hlýtur að liggja eitthvað annað til grundvallar fyrir því, að þetta frv. er flutt, heldur en áhugi fyrir því að auka á öryggi á skipunum og auka menntun og menningu sjómanna.