08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í sambandi við þær till., sem hér hafa verið bornar fram til breytinga á frv., vildi ég aðeins segja örfá orð.

Í sambandi við till. þá, sem hv. þm. N-Þ. flytur á þskj. 476, skal ég taka það fram, sem ég hef raunar oft tekið fram áður við umræðu málsins, að ég tel það vera mjög brýna nauðsyn að endurskoða allt skólakerfið, það sem varðar menntun vélstjóra, og vil fyrir mitt leyti eiga allan þann hlut, sem í mínu valdi kann að standa að eiga, til þess, að sú endurskoðun geti orðið sem fljótast framkvæmd og á sem hyggilegastan hátt. Og það hefur sömuleiðis margsinnis áður komið fram, að ég tel, að vélstjóramenntunin eigi að fara fram stig af stigi, þannig að sú reynsla og sú þekking, sem menn hafa aflað sér á einu stigi, geti orðið þeim lyftistöng til áframhaldandi náms í þessu. Ég tel þess vegna að till. þm. N-Þ. miði að því að gefa stéttarfélögum þeim, sem hér eiga hlut að máli, bæði að því er varðar sjómennina sjálfa og einnig útvegsmenn, kost á því að láta í ljós sitt álit um málið, áður en það verður lagt fyrir Alþingi í lagafrumvarpsformi, og að sú n. eða þeir athugunaraðilar, sem í till. hans eru tilnefndir, geti þá unnið úr og haft að leiðarsteini, að svo miklu leyti sem þeir telja það eðlilegt, það álit eða réttar sagt þau álit, sem nefnd menntmrn. hefur þegar lagt fram. En það hefur áður verið upplýst, að nefnd, sem starfaði í um það bil tvö ár að málinu á vegum menntmrn., skilaði áliti í tvennu lagi, varð ekki sammála, og munu þau álit liggja fyrir. Ég tel þess vegna eðlilegt, að sú till. verði samþykkt, enda hindrar hún á engan hátt framgang þess máls, sem hér er aðalatriði í frv., sem fyrir liggur, þ. e., að breytt sé réttindum vélstjóra til samræmis við það, sem raunveruleikinn heimtar, og til samræmis við það, sem nú er raunverulega í gildi, þótt með undanþágum sé.

Um till. hv. 5. þm. Reykv. gegnir hins vegar allt öðru máli. Hún er þess eðlis, að hún mundi í rauninni stöðva það mál, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. réttindi vélstjóranna, að láta það endilega bíða eftir endurskoðun á menntunarkerfinu. Ég tel, eins og komið er, að það séu engin rök fyrir að samþykkja þá till. Og í sambandi við þau orð eða þá ræðu, sem hv. 5. Reykv, hélt hér máli sínu til stuðnings og skýringar, hef ég raunar þó nokkrar athugasemdir að gera.

Í fyrsta lagi nefndi hann meðferð málsins hér á Alþingi hraðskák, af því að honum finnst málið ekki eins seint ganga og hann hefði kosið. Flokksmenn hans hafa hér að undanförnu margir komið upp í ræðupontu og krafizt þess, að ekki yrði annar eins seinagangur á afgreiðslu mála hér á Alþingi og þeir vissulega með nokkrum rétti, a. m. k. í sumum tilfellum, hentu á að væri. Ég held, að það sé sízt að lasta, þó að Alþ. reyni að mjaka þeim málum eitthvað áleiðis, sem fyrir það eru lögð; og að hér sé um óvenjulegan hraða að ræða, því vil ég hreinlega mótmæla. Það hefur einnig verið áður upplýst í þessu máli, að lagafrv., sem hér um ræðir, lá alllengi fullbúið án þess að vera lagt fram á Alþingi, vegna þess að beðið var eftir áliti þeirrar nefndar, sem svo seint skilaði, að ekki varð eftir því beðið, ef von átti að vera til þess, að Alþ. hefði tíma til að afgreiða málið. Í öðru lagi hefur hraði á málinu hér alls ekki verið hafður umfram það, sem eðlilegt má teljast í alla staði. Það hefur fengið mjög gaumgæfilega athugun í nefnd. Þegar um fresti hefur verið beðið sérstaklega í því, þá hafa þeir hingað til verið veittir, og ég sé ekki, að hv. þm. þurfi um þetta að kvarta. Hér hefur þó fremur verið þannig unnið, að í hina lofsverðari átt horfir.

Hann virðist tala hér um frv. af nokkrum ókunnugleika, þótt hann hefði nú átt að hafa alla möguleikana til að vita betur. Hann talar hér um, að lögfesta eigi undanþágur án aukinnar þekkingar, undanþágur, sem auka réttindin. Þetta er ekki rétt hjá honum. Það er margframtekið og sér enda hver maður, sem frv. les, að hér er alls ekki um það að ræða, að það eigi að auka réttindin, án þess að þekking viðkomandi manna aukist. Það er sem sagt tvöfaldaður í frv. allur sá reynslutími, sem krafizt er í núgildandi lögum. Það er svo annað mál, þótt einhverjir menn kunni að líta svo á, að lífsreynsla og þjálfun í starfi sé ekki menntun, en þá er það þeirra skoðun og á ekki skylt við það, að hér sé gengið fram hjá því atriði. Það er annað mál, sem hægt er að deila um. Ég er þeim fullkomlega ósammála, sem þá skoðun hafa.

Þá segir hann enn fremur, hv. 5. þm. Reykv., að a-liður 4. gr. frv, sé fráleitur vegna þess, að menn þurfi ekki annað, en vera vélstjórar á trillubát í tvö ár til þess að fá réttindi til þess að stjórna 400 hestafla vélum. Þetta er nú í fyrsta lagi alrangt, vegna þess að hér er alls ekki um það að ræða, heldur verða menn, áður en þeir fá sína tveggja ára reynslu í starfinu, að hafa lokið prófi frá hinu minna mótornámskeiði Fiskifélags Íslands. Það er að vísu ekki nema eitthvað um það bil fjögurra mánaða námskeið, en það er nú samt fulllangt gengið, þótt ekki sé námskeiðið lengra, að jafna því alveg við jörðu og tala um hlutina eins og það sé alls ekki til og virða það að engu sem menntun. Í öðru lagi hefði ég nú haldið, að hv. 5. þm. Reykv. ætti að vita það manna bezt, að vélstjórar eru yfirleitt ekki skráðir á trillubáta, og skilyrði fyrir því, að menn öðlist þessi réttindi, auk námskeiðsins hjá Fiskifélagi Íslands, er það, að þeir hafi verið lögskráðir vélstjórar á íslenzkum fiskiskipum í tvö ár. Það kann að vera, að einhver dæmi séu þess, að lögskráðir séu vélstjórar á trillubáta. Ég veit ekki um nein dæmi þess, og væru það sannarlega nokkrar nýjungar fyrir mig, ef þær upplýsingar lægju fyrir í málinu. En hér er hins vegar ekki um það að ræða, að þetta eigi yfirleitt við trillubáta, þetta atriði er yfirleitt um það, að menn eigi að fá þjálfun í starfi sínu, og með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa yfir þennan umdeilda lið, sem er á þessa leið, — það er sem sagt skilyrði fyrir því, að menn fái réttindi sem vélstjórar við allt að 400 hestafla vélar, auk prófs frá mótornámskeiði Fiskifélags Íslands, þá segir hér í 4. gr., a-lið:

„Hefur siglt sem undirvélstjóri á mótorskipi með yfir 100 hestafla vél í 24 mánuði eða sem yfirvélstjóri á eigin spýtur á mótorskipi í 24 mánuði.“

Ég sé ekki neitt óeðlilegt við þetta, og það högg, sem hv. andstæðingar málsins hafa reynt að koma á frv. með þessum útleggingum sínum og ívitnunum um trillubátavélstjóra, er hreint vindhögg út í loftið, eins og allir geta séð, sem kynna sér málið til nokkurrar hlítar.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um það, að þetta frv, mundi máske skapa eitthvert misræmi. Þá á hann sjálfsagt við misræmi á milli skólasetumánaða í vélskólanum og á mótornámskeiðunum. Það kann vel að vera, að það geri það. En að halda þessu óbreyttu, það hefur þegar skapað og skapar í auknum mæli með hverju árinu sem liður misræmi á milli veruleikans og þess, sem lagabókstafurinn heimtar. Og það er það misræmi, sem ég tel sjálfsagt og eðlilegt að leiðrétta.

Hv. 5. þm. Reykv. fullyrðir, að samþykkt á þessu frv. geti ekki verið í þágu útgerðarmanna og ekki í þágu sjómanna heldur. Að vísu játar hann í leiðinni, að útgerðarmaður, sem þarf að skrá eða þarf að ráða sér vélstjóra á skip sitt, verði, áður en hann getur það, jafnaðarlega fyrst að leita eftir því, hvort hann getur ekki fengið mann með fullum réttindum, hjá viðkomandi stéttarfélögum eða skrifstofum þeirra eða ráðningaraðilum fyrir þeirra hönd. Og í öðru lagi, ef hann fær það ekki, sem hann í fæstum tilfellum fær, ef hér er um að ræða vélbátsútgerðarmenn, þá verður hann að sækja um undanþágu fyrir þann mann, sem hann getur fengið til starfsins, og er óþarfi um það að ræða, að þetta eru mikil óþægindi fyrir óviðkomandi útgerðarmenn. Þetta verður að ske jafnaðarlega tvisvar á ári, því að undanþágurnar eru venjulega veittar til hálfs árs í senn, enda leynir það sér ekki, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur tekið algerlega undir frv., sem fyrir liggur, og meira að segja óskað eftir, að í vissu tilfelli væri gengið skrefinu lengra í veitingu hærri réttinda en frv. gerði ráð fyrir, og fært rök að því, að það væri nauðsynlegt, enda hefur það nú verið tekið inn í frv. með brtt.

Þá segir hann, að þetta sé ekki heldur í þágu sjómannanna. Ég hef áður rakið það hér, og ég skal ekki telja það eftir mér að benda á það aftur, að sá sjómaður, sem ræðst vélstjóri á skip, þannig að hann hefur ekki réttindi til starfsins, heldur aðeins undanþágu, á það á hættu, að á næstu eyktamörkum verði hann settur í land, vegna þess að þá kann að vera, að það bjóðist einhver með hærri réttindi. Hann er þess vegna öryggislaus í starfi sinu, og það er alveg þýðingarlaust að halda því fram, að það sé einskis virði fyrir starfsmann í einni starfsgrein að hafa réttindi fyrir því starfi, sem hann tekur að sér.

Þetta frv. er þess vegna hvort tveggja í senn í þágu útgerðarmanna og einnig þeirra sjómanna, sem hér um ræðir.

Ég get ekki heldur látið alveg hjá líða að víkja að þeirri einkennilegu samlíkingu, sem hv. þm. kom hér með varðandi presta og lækna úti á landsbyggðinni, að það hefði aldrei komið til mála þrátt fyrir nokkurn hörgul á þessum embættismönnum að fara að gefa út einhver minni próf fyrir presta og lækna. Ég veit ekki, hvort þetta ber að skilja svo, að enginn maður megi stjórna vél á Íslandi framvegis, það sé hans hugmynd, að enginn maður á Íslandi megi stjórna vél, nema hann hafi lokið hinu hæsta vélstjóraprófi. Ef svo væri, þá er það líka nýjung í málinu, því á ýmsum stigum, og mér vitanlega hefur enginn lagt til, fyrr en ef þetta væri tillaga um það, að sú skipan yrði afnumin. Hér er þess vegna ekki um það að ræða. Eftir sem áður, þó að lögin yrðu endurskoðuð, þá reikna ég með því, að próf verði veitt á ýmsum stigum og þar af leiðandi verði eitt prófið minna en annað. Hér er hins vegar um það að ræða að veita þeim mönnum, sem á sínum tíma hafa lokið tilskildum prófum sem vélstjórar á íslenzkum fiskiskipum, réttindi í samræmi við það, sem þróunin hefur nú breytt málunum. Þegar þeir tóku sín próf, var algengt, að skipsvélar væru um 250 hestöfl það stærsta í íslenzkum fiskibátum. Nú er það algengt, að þær séu 400 hestöfl og jafnvel þar yfir, og það er þetta bil, sem hér stendur til að brúa. Ég efast ekkert um, að frá því að hv. 5. þm. Reykv. tók sitt próf frá stýrimannaskóla, muni ýmislegt í siglingafræðum hafa þróazt áfram og þar muni jafnvel nú vera kenndir ýmsir hlutir, sem ekki voru kenndir á hans tíð. Mundi hann nú telja það sanngjarnt, að hann yrði settur í land sem skipstjóri af Heklu út á það, að farið væri að kenna í stýrimannaskólanum nú einhver þau fræði, sem þar voru ekki á dagskrá, þegar hann lauk þar prófi? Ég held ekki. Ég held, að það hljóti jafnan að verða litið svo á, bæði í þessum efnum, sem frv. fjallar um, og öðrum, að þeir menn, sem á sínum tíma hafa lokið tilskildum prófum og uppfyllt þau skilyrði, sem áskilin voru, hljóti jafnan að halda réttindum til þeirra starfa, sem þeir þannig áunnu sér. Allt annað væri óeðlilegt. Nú hefur þróun málanna hins vegar orðið sú, að þessi réttindi hafa í rauninni verið af vélstjórum fiskiskipaflotans tekin að verulegu leyti. Og til þess að bæta þar úr, þá tel ég, að þjóðfélaginu beri skylda til þess að breyta þeim lögum, sem hér um ræðir.

Ég skal taka það sérstaklega fram, að þetta frv. fjallar aðeins um atvinnu við siglingar. Hitt málið, sem að vísu er ekki með öllu óskylt og sumir menn virðast hafa, að því er mér virðist, óeðlilega tilhneigingu til þess að hnýta hér saman við, er um skipun skólamála, skipun fræðslumála að því er vélstjóramenntun varðar. Ég þykist hafa sýnt fram á það hér, að það er ekki eðlilegt á því stigi, sem málin eru nú, að hnýta þetta tvennt svo fast saman, að undanþágufarganið og öryggisleysi viðkomandi sjómanna ásamt þeirri óþarfa fyrirhöfn, sem fjöldi útvegsmanna landsins verður fyrir af þessum sökum, haldist, og fyrir því vona ég, að þessi hv. þm. afgreiði málið með þeim hætti að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir.