08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Ég tel mér skylt eftir beiðni hv. 5. þm. Reykv. að færa rök að því, að það, sem ég sagði hér varðandi þau skilyrði, sem krafizt er, til þess að menn geti öðlazt vélstjórnarréttindi samkvæmt frv. við vélar allt upp í 400 hestöfl, se ekki bara það, að þeir hafi verið vélstjórar á trillubát í tvö ár, eins og hér hefur verið látið liggja að, heldur dálítið annað og meira.

Í 34. gr. mundi segja að frv. samþykktu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Sá einn getur öðlazt yfirvélstjóraskírteini á mótorskipi með meira en 100, en ekki yfir 400 hestafla vél, sem a) hefur siglt sem undirvélstjóri á mótorskipi í 24 mánuði eða vélstjóri á eigin spýtur á mótorskipi í 24 mánuði.“

Hins vegar segir í 32. gr. laganna eða þar er kveðið á um það, með hverjum hætti hann getur öðlazt réttindi til þess að vera undirvélstjóri á skipi, væntanlega að frv. samþykktu með vél af vélastærðinni 100–400 hestöfl, eða vélstjóri á eigin spýtur. Þar segir:

„Sá einn getur öðlazt vélstjóraskírteini á mótorskipi með allt að 100 hestafla vél eða undirvélstjóraskírteini á mótorskipi með meira en 100, en ekki yfir 400 hestafla vél, sem í fyrsta lagi hefur staðizt hið minna mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands.“

Ég skal játa það, að lögin um þetta eru býsna margbrotin og að því er mér skilst með allmiklu fleiri greinum, en nauðsynlegt væri. En áður en maður kveður upp dóma um það, hvaða efni sé í einni grein, þá verður hann að kynna sér málið það rækilega, að maður fullyrði ekki það, sem rangt er. En ég efast ekkert um það, að hv. þm. hugleiði þetta nánar og komist þá að þeirri niðurstöðu, að hér var ekki út frá réttri forsendu ályktað hjá honum.

Í sambandi við ræðu hans hef ég í rauninni engar athugasemdir að gera aðrar en þær, að ég er honum þakklátur fyrir að hafa nú breytt um afstöðu í því að virða lífsreynslu og starfsreynslu að engu. Það er nákvæmlega það, sem ég hef verið að halda fram hér í þó nokkrum ræðum um málið, að það sé rangt, að hér sé ekki krafizt neinnar aukinnar þekkingar fyrir hækkun réttindanna. Það er krafizt tveggja ára reynslutíma í staðinn fyrir það, sem áður var eitt ár, og þetta hafa andstæðingar málsins og þar með hv. 5. þm. Reykv. virt algerlega að vettugi og haldið því fram, að hér væri um réttindaaukningu að ræða án nokkurrar þekkingaraukningar. Nú hefur það hins vegar góðu heilli komið fram í ræðu hjá honum, að hann vill virða lífsreynslu, og þá erum við sammála um það og þurfum ekki lengur um það að deila.

Ég álít hins vegar, að það sé mjög gálaus fullyrðing hjá honum, að þessir menn, sem nú eru mótoristar, séu hættulegir öryggi sjófarenda vegna þekkingarskorts, Sem betur fer, mun fátt í reynslunni sanna, að svo sé. Og hann ályktar sem svo, að menn, sem ekki hafa réttindi til vélstjórnar á fiskiskipum, ættu ekki að vera þar vélstjórar, heldur ættu þeir bara að vera hásetar eða kokkar. En ég get upplýst, að ef svo væri, þá væru ólíkt færri fiskiskip gerð út á Íslandi, en nú er, því að það hefur reynzt og á því byggja útgerðarmenn vafalaust ekki hvað sízt sitt álit um málið, — það hefur reynzt ógerningur að fá til vélstjórnar á fiskiskipaflotann menn, sem hafa til þess full réttindi, og liggur það skjallega fyrir sannað, að samgmrn. gefur út fram undir 300 undanþágur til þess starfs árlega, eins og nú er komið, — 294 voru gefnar út á síðasta ári. Það er þess vegna ekki öruggara fyrir íslenzka sjómenn á fiskiskipum, að þeir menn, sem nú annast vélgæzlu á undanþágum, hverfi frá því starfi, heldur en sá háttur, sem nú er á, því að með þeim hætti mundi enginn annast vélgæzluna á verulegum hluta fiskiskipaflotans.

Ég vil svo enn þá undirstrika það, að fyrir þá, sem hafa aflað sér hinnar beztu vélstjórnarmenntunar, sé ég enga hættu í samþykkt þessa frv. Ég get ekki ályktað svo, að útgerðarmenn muni fremur sækjast eftir því að ráða í þjónustu sína lítið menntaða menn heldur en mikið menntaða menn til vélstjórnar. Frv. gerir ekki ráð fyrir því að taka nein réttindi af vélstjórum þeim, sem hafa hlotið hina meiri vélstjóramenntun. Það gerir einungis ráð fyrir því, að af séu numin sérréttindi þeirra til starfa við vélar af stærðinni 400–900 hestöfl. Ef þeir eru nægir fyrir hendi í landinu, eiga þeir fullan aðgang að þessu starfi, og eins og ég hef áður tekið fram, ég tel enga ástæðu til að álykta, að þeir muni síður verða ráðnir í slík skiprúm heldur en þeir, sem minni hafa menntunina, heldur þvert á móti, svo að þeir hafa í rauninni engu við þetta að tapa. Hér er einungis verið að brúa það bil, sem þróun málanna hefur opnað á milli þess, sem í raunveruleikanum er, og hins, sem í lögunum er ákveðið.