24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti, Þetta frv. fjallar um breytingar á 5. kafla laga nr. 66 frá 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, en í þeim kafla er kveðið á um réttindi vélamanna á mótorskipum eftir því, hvaða námi þeir hafa lokið í sérgrein sinni og hvaða starfsreynslu þeir hafa að baki. Skv. þessum lögum öðlast þeir menn réttindi til vélstjórnar á mótorskipum með allt að 250 hestafla vélum, sem lokið hafa hinu minna mótorvélstjóraprófi Fiskifélags Íslands og uppfylla tiltekin skilyrði um starfsreynslu og starfstíma sem vélamenn. Í næsta réttindaflokki koma svo þeir, sem lokið hafa hinu meira mótorvélstjóraprófi Fiskifélagsins, og geta þeir unnið sig upp í þau hámarksréttindi að mega stjórna vélum í mótorskipum með allt að 600 hestafla vélum. Loks koma svo þeir, sem lokið hafa hinu meira vélstjóraprófi við vélskólann í Reykjavík og hafa einnig staðizt próf í rafmagnsfræði fyrir vélstjóra við þann skóla. Þessir menn hljóta réttindi til vélstjórnar á mótorskipum með yfir 600 hestafla vélar að tilskildum nokkrum öðrum skilyrðum um starfstíma o. fl.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir þeim breytingum á réttindum, að hið minna mótorvélstjórapróf Fiskifélagsins geti veitt rétt til vélstjórnar á skipum með allt að 400 hestafla vélum í stað 200 áður, og einnig, að hið meira mótorvélstjórapróf Fiskifélagsins veiti réttindi til stjórnar allt að 900 hestafla véla 1 stað 600 áður, hvort tveggja að uppfylltum hliðstæðum skilyrðum og þó allmiklu strangari um starfsreynslu og annað en þau, sem nú eru í gildi.

Loks er gert ráð fyrir, að sú viðbót komi aftan við 34. gr. laganna, að hver sá, sem hefði rétt til að vera undir- eða yfirvélstjóri á fiskiskipum með allt að 400 hestafla vél, skuli hafa sömu réttindi til vélstjórnar við vél, sem stærri kann að vera, ef um er að ræða vélstjórn á skipi, sem er 115 rúmlestir að stærð eða minna.

Þegar núgildandi lög um atvinnu við siglingar voru sett fyrir 12 árum, voru réttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra að sjálfsögðu bundin við þá skipa- og vélastærð, sem þá tíðkaðist í fiskibátaflota þjóðarinnar. Síðan hefur þróunin orðið á þá lund, sem öllum er kunnugt, að bæði skipa- og vélastærð hefur breytzt mjög til stækkunar. Af þeim ástæðum hefur reynzt nauðsynlegt að auka réttindi skipstjórnarmanna á fiskibátum og auðvelda þeim námsmöguleika. Var þetta gert, eins og hv. þm. muna, með löggjöf frá síðasta Alþingi. Allar aðstæður eru þó þannig, að þær knýja síður en svo minna á um breytingar á lagaákvæðum um réttindi vélstjóra.

Það er alkunnugt, að vélakraftur bátanna hefur aukizt stórkostlega í hlutfalli við stærð þeirra. Geta vélarskipti í einum bát þannig orðið til þess, að vélstjóri, sem um margra ára skeið hefur stundað starf sitt á honum við ágætan orðstír, hefur vegna þessa glatað réttindum sínum til þess að stjórna nýrri vél í þeim sama bát, sem hann hefur unnið á, þótt hann hafi til þess næga reynslu og þekkingu. Reynslan hefur orðið sú, að þær takmarkanir á réttindum þeirra manna, sem aflað hafa sér þeirrar þekkingar, sem talin var nægjanleg vélstjórum á bátaflotanum, er núgildandi lög um atvinnu við siglingar voru sett, eru nú farnar að kreppa svo að bæði útveginum og atvinnuöryggi vélstjórastéttarinnar á fiskiflotanum, að ekki er við það unandi. Stór hluti bátaflotans er nú í dag mannaður vélstjórum, sem ekki hafa lagalegan rétt til að stjórna vélum af þeirri stærð, sem í bátunum eru. Hið hvimleiða undanþágufargan, sem veitir mönnum, að því er sumir telja með vafasömum lagarétti, atvinnurétt í þessari starfsgrein til sex mánaða í senn, er í fullum gangi. Af þessu leiðir öryggisleysi, sem oft og tíðum ýtir mönnum af bátunum til atvinnu í landi, og aukin vandkvæði útgerðarmanna á að fá næga hæfa menn til starfa, en undanþágurnar eru að óbreyttum lögum eina úrræðið til þess að forða verulegum hluta bátaflotans frá stöðvun, sem aftur mundi leiða af sér stórfellt framleiðslutap fyrir þjóðina.

Með þessu frv. er ætlunin sú að draga, svo sem kostur er á, úr undanþáguvandræðunum, á þann hátt sem bezt þykir samrýmast eðlilegum kröfum um öryggi. Þannig er, jafnframt því sem réttindin eru nokkuð rýmkuð, krafizt tvöfalds starfstíma eða tveggja ára, til þess að vélstjórar fái réttindi til yfirstjórnar á 100–400 hestafla vélum og einnig hvað við kemur bæði undir- og yfirvélstjóraréttindum á 400–900 hestafla vélum. Það má því segja, að aðalbreytingin sé fólgin í því, að starfsaldur og reynsla er í vissum tilfellum metin til jafns við nám á skólabekk.

Sjútvn. hefur haft þetta frv. til athugunar og kynnt sér þau gögn, sem fram komu við athugun málsins í hv. Nd. Meðal þeirra er umsögn Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem er frv. mjög hliðholl, en bendir á atriði, sem betur mættu fara, og hefur þegar verið tekið tillit til þeirrar ábendingar í meðferð hv. neðri deildar. Þá er erindi Fiskifélags Íslands, sem telur, að sú réttindaaukning, sem í frv. felst, sé í samræmi við þá þróun, sem orðið hefur á vélarstærð í bátaflotanum. Þá hefur n. einnig athugað sameiginlega álitsgerð Vélstjórafélags Íslands og Mótorvélstjórafélags Íslands, þar sem lögð er áherzla á, að aðalatriði þessa máls sé að endurskipuleggja allt vélstjóranám og koma á auknum tengslum innan þess. Telja þessi samtök, að þetta frv. sé engin framtíðarlausn á þeim vanda, sem við er að fást.

Það er tvímælalaust rétt, sem fram kemur í álitsgerð þessara samtaka, að framtíðarlausnar á menntun vélstjóra er ekki að vænta nema með mjög breyttri löggjöf um allt það námskerfi, sem að henni lýtur, og skynsamlegri samtengingu á námstigum vélfræðinnar. Hitt er aftur á móti upplýst, að n. þeirri, sem um langt skeið hefur unnið að endurskoðun laga um menntun og réttindi vélstjóra, hefur ekki tekizt að bræða saman ólík sjónarmið, sem uppi eru í þeim málum, og mun af því leiða, að nokkur undirbúningsvinna verði enn að vinnast, til þess að ný heildarlöggjöf um þessi efni verði sett. Þetta frv. fjallar hins vegar ekki um þann þátt málsins, sem við kemur framtíðarlausn á menntun vélstjórastéttarinnar, heldur eingöngu um réttindi þeirra manna, sem starfað hafa á flotanum til þessa, eykur nokkuð rétt þeirra í samræmi við hina miklu aukningu vélakrafts í bátunum og skapar þeim, sem nú eru þar starfandi, atvinnuöryggi til frambúðar. Sá vandi er hins vegar látinn bíða nauðsynlegs undirbúnings, að koma bættu framtíðarskipulagi á sjálft menntunarkerfið, en um það eru hins vegar sett ákvæði til bráðabirgða, að þeim undirbúningi verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþ. og þá í samráði við viðkomandi stéttarfélög og félög atvinnurekenda.

Sjútvn. flytur nokkrar brtt. við frv., og eru þær allar gerðar að ósk Vélstjórafélags Íslands, Helztu breytingarnar eru þær, að í nokkrum greinum frv. er orðið fiskiskip sett í stað orðsins mótorskip. Hefur Vélstjórafélag Íslands lagt áherzlu á þessa breytingu með tilliti til þess, að ekki væri neinn skortur vélamanna til starfa á farmskipunum og því væri ekki ástæða til að rýmka réttindi þeirra, sem nám hafa hlotið á námskeiðum Fiskifélags Íslands, til starfa annars staðar, en á fiskiflotanum, í öðru lagi er sú breyting gerð, að réttindi þeirra, sem nám hafa hlotið við Vélskóla Íslands, eru aukin í allmörgum tilfellum. Er sú breyting í samræmi við aukningu vélastarfa, sem nú er orðin og er að verða algeng í hinum stærstu mótorskipum flotans, þ. e. a. s. dísiltogurunum. Aðrar brtt., sem n. flytur, eru allar bein afleiðing af þessum tveim breytingum, sem ég hef nú nefnt.

Rétt er að geta þess, að Vélstjórafélag Íslands hefur fremur mælt með því, að afgreiðslu þessa frv. yrði frestað, en mun hins vegar, eins og fram kemur í grg., sem frá því félagi liggur fyrir, sætta sig sæmilega við frv. að gerðum þeim breytingum, sem það telur nauðsynlegt að á því séu gerðar með tilliti til hagsmuna þeirra, sem menntun sína hafa sótt í Vélskóla Íslands. Sjútvn. hefur lagt sig fram um að samrýma ólík sjónarmið, sem fram hafa komið undir meðferð málsins, og orðið sammála um þá afgreiðslu, sem fyrir liggur á þskj. 553. Ætla ég, að um leið og frv. tryggir verulega atvinnuréttindi vélstjóra á fiskiflotanum og honum lífsnauðsynlega starfskrafta, þá munu aðrir, sem mál þetta snertir, eftir atvikum sætta sig við frv., eins og sjútvn. leggur nú til að það verði.