24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

150. mál, atvinna við siglingar

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni af þeirri till., sem hv. þm. N-Ísf. flutti hér nú varðandi afgreiðslu á þessu máli. Ég teldi mjög miður farið ef hv. þd. samþykkti slíka till. Ég hélt satt að segja, að það væri öllum ljóst, að það er orðin knýjandi nauðsyn á því að fá fram slíka lagabreytingu eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. eða samkvæmt þeim brtt. á því, sem nú liggja hér fyrir frá sjútvn. þessarar deildar.

Það er kunnugt, að þau lagaákvæði, sem í gildi eru um réttindi vélstjóra, eru gersamlega orðin úrelt og ástandið er þannig, að segja má, að á meiri hluta fiskibátaflota okkar séu menn með undanþágur, og í rauninni er svo komið, að á þessu er ekki hægt að hafa neitt eftirlit. Undanþágur ráðuneytisins í sambandi við vélstjóraréttindi skipta orðið mörgum hundruðum á hverju ári, og stappar þá orðið nærri því, að eins gott sé að líta á það, að engin lög um þetta gildi, eins og að hafa slíka framkvæmd á. Ég tel því, að mjög sé aðkallandi að breyta þeim ákvæðum, sem um þetta eru í lögum, a. m. k. í samræmi við það, sem hér er gert í þessu frv., og vil benda á það, að þetta þótti óhjákvæmilegt einnig að gera viðvíkjandi skipstjóraréttindum, og það hefur Alþ. afgreitt hér áður, að fara svipaða leið með breytingu á réttindum manna þar með tilliti til þess, sem reynslan hefur sýnt að er alveg óhjákvæmilegt. Að ætla enn þá að skjóta þessu máli á frest, svo aðkallandi sem það er, vegna þess að milliþn. hafi átt að athuga um framtíðarfyrirkomulag á öllum kennslumálum í sambandi við vélfræði, er alveg fráleitt, þegar það liggur nú fyrir, að sú n. er búin að starfa í óheyrilega langan tíma og hefur ekki aðeins af einum ráðh., heldur mörgum, og ekki í einni ríkisstj., heldur fleirum, verið innt eftir því, að n. lyki störfum. Og loksins, þegar hún lýkur störfum, þá dettur hún í nokkurn veginn jafnmarga parta og hún gat dottið í. Það er vitanlega ekkert annað, en víkja sér alveg undan þessu verkefni, og ég tel, að þótt málið sé nú leyst á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þá komi það ekki á neinn hátt í veg fyrir það, að sett verði löggjöf, þegar fram líða stundir og samkomulag getur orðið um það, um vélfræðikennsluna alla sem heild. En hér er sem sagt glímt við það að koma í viðunandi lagaform, sem mætti standa á, því, sem aðkallandi er að leysa í þessu máli, og ekki er kunnugt um, að verulegur ágreiningur sé um að leysa þó a. m. k. þennan þátt.

Ég skal svo ekki ræða um efnishliðar málsins að öðru leyti, en vil eindregið mæla með því, að brtt. sjútvn. verði samþykktar og málið nái afgreiðslu á þessu þingi, og veit, að það er brýn þörf á því, að málið fái þá lausn.