29.05.1958
Neðri deild: 108. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

150. mál, atvinna við siglingar

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort ég tók það nógu skýrt fram áðan, að það, að þessi fyrri brtt. var lögð fram, var vegna þess, að það er ekki tekið fram í frv., eins og það liggur fyrir, að það eigi að sanna á lögmætan hátt, að mennirnir hafi siglt þennan tíma. En það virðist þó vera það minnsta skilyrði, sem hægt er að gera, til þess að mennirnir fái þau réttindi, sem þeim á að veita, að þeir geti sannað það á lögmætan hátt með lögskráningu á skip, að þeir hafi siglt í 24 mánuði sem slíkir, áður en þeir fá réttindin, svo að ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 2. landsk., að þetta sé óþörf tillaga og ekki tímabær og komi í bága við það, sem áður hefur verið sagt.

Í öðru lagi vil ég út af því, sem hann sagði um síðari breytinguna, aðeins segja það, að það er ekki vegna þess, að mennirnir áliti ekki, að einmitt það, sem sagt var við 1. umr., að málið hefði sennilega verið betur afgreitt með því að afgreiða það í eitt skipti fyrir öll á næsta þingi, þar sem menn voru búnir að koma sér saman um það, og að þess vegna mætti bíða til næsta þings, það væri ekki vegna þess endilega, að það væri svo bráð nauðsyn á þessum breytingum inn í lögin, að þeir komu með þessa brtt., heldur er það vegna þess, að úr því að verið er að samþ., að menn af 6 mánaða mótornámskeiði fái þessi auknu réttindi, sem eru mjög miklar líkur fyrir að ekki verði kippt út úr lögunum aftur, þegar það er einu sinni komið inn í þau, að þá sé ekki nema sanngjarnt, að menn með 5 ára námið fái einnig sömu réttindi. Það er meginatriðið í þessu máli eða mergurinn málsins, en ekki hitt, að það sé nú búið að skipta um skoðun í málinu. Skoðunin er öll hin sama, að það hefði verið eðlilegast og heppilegast, úr því að vélstjórar og mótorvélstjórar voru í eitt skipti búnir að koma sér saman um niðurstöður á því, hvað sanngjarnt væri, að hver fyrir sig fengi fyrir sína menntun í hestaflatölu við vélgæzlu, að þá væri unninn það stór sigur, að það hefði borgað sig að bíða í 3–4 mánuði til þess að setja endahnútinn á þann mikla sigur með því að ganga frá frv. og lögum á næsta Alþ. um þetta mál.