22.05.1958
Neðri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

56. mál, sjúkrahúsalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að þær brtt., sem hér liggja fyrir, hef ég átt kost á að kynna mér, og að athuguðu máli í ráðuneytinu tel ég, að þó að þessar brtt. valdi ríkissjóði nokkurri útgjaldahækkun, þá sé þetta, sem þarna er lagt til, miðað við fjárhagsafkomu þeirra sjúkrahúsa, sem þar eiga hlut að máli, óhjákvæmileg hækkun.

Það eru nokkur ár síðan þessi gjöld voru ákveðin 5 kr. til smæstu sjúkrahúsanna, 10 kr. til annarra og 20 kr. til fjórðungssjúkrahúsa, og útgjöld þessara stofnana hafa vaxið mjög síðan. Þess eru dæmi, að eitt bæjarfélag hefur orðið að borga á s. l. ári á 7. hundrað þús. kr. með sínu sjúkrahúsi, þó að það sjúkrahús sé að miklu leyti í þjónustu heils landsfjórðungs. Slík byrði er að mínu áliti of þung á lítið bæjarfélag, eins févana og þau yfirleitt eru, og þarna held ég að sé mjög hófsamlega í sakir farið með að hækka daggjöldin úr 5 kr. í 10 hjá þeim, sem lægstan dagstyrk fá, og úr 10 í 15 kr. hjá sjúkrahúsum í hinum stærri kaupstöðum og láta heldur fjórðungssjúkrahúsin sitja við sama og þau hafa, eða 20 kr. dagstyrk, eins og þau hafa haft. Það fjórðungssjúkrahús, sem þess dagstyrks hefur notið, veit ég ekki annað, en hafi verið rekið hallalaust s. l. ár og tel þannig ekki ástæðu til þess að hækka það núna. Þar af leiðir, að ég er andvígur þeirri till., sem borin er fram af hv. 2. þm. Eyf., hygg ég, um það, að fjórðungssjúkrahús fái sinn dagstyrk hækkaðan úr 20 kr. í 25, tel það ekki brennandi nauðsyn, eins og sakir standa, miðað við þá vitneskju, sem fyrir liggur um afkomu þess fjórðungssjúkrahúss, sem 20 kr. dagstyrks hefur notið.

Þá tel ég ekki heldur ástæðu til þess að hækka styrk sýslu- og bæjarsjúkrahúsa meira en úr 10 í 15, eða um þriðjung, í þessu skrefi, ekki í 20, eins og lagt er til af öðrum hv. þm., ef um sjúkrahús er að ræða, sem rekin eru að meginstofni fyrir viðkomandi bæjarfélög, en ættu, ef þau eru eign bæjarfélags og þjóna fyrir heilan landsfjórðung, að falla undir hugtakið fjórðungssjúkrahús og þannig að njóta 20 kr. dagstyrks, en að öðrum kosti að vera með 15 kr. dagstyrk og njóta þá 33% hækkunar frá því, sem verið hefur. Með því að halda þannig á málum tel ég, að sá útgjaldaauki, sem ríkissjóður verður fyrir við þessa lagabreytingu, sé nauðsyn, en líka nokkurn veginn sómasamlega mætt þeirri réttmætu kröfu, sem bæjarfélögin eiga á því, að ríkið geri ráðstafanir til þess að létta eitthvað svolítið byrði þessara bæjarfélaga af rekstri sjúkrahúsanna, en nú er sú byrði í sumum tilfellum nálega ofurefli þeirra.