03.03.1958
Efri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1637)

138. mál, dýralæknar

Flm. (Sigurvin Einarsson) :

Herra forseti. Með frv., þessu á þskj. 274, sem hér er til umræðu, hef ég leyft mér að leggja til, að nokkur breyting verði gerð á tveimur dýralæknisumdæmum á Vesturlandi. Frv. er flutt skv. ósk bænda, búnaðarfélagsstjórna og tveggja kaupfélagsstjóra í bæði Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu.

Samkvæmt lögum nr. 19. frá 1955 nær Dalaumdæmi yfir Skógarstrandarhrepp í Snæfellsnessýslu, Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, en Ísafjarðarumdæmi nær yfir Vestur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað, Norður-Ísafjarðarsýslu og Árneshrepp í Strandasýslu. Af þessu er ljóst, að hér er um mjög misjafnlega stór læknisumdæmi að ræða. En breytingin, sem felst í þessu frv., er sú, að Vestur-Barðastrandarsýsla verði tekin undan Ísafjarðarumdæminu og sameinuð Dalaumdæmi. Ástæður til þessa eru m. a., að stærðarmunur þessara tveggja læknisumdæma er talsvert mikill. Það er sýnilegt, að Ísafjarðarumdæmi er miklu víðáttumeira og auk þess langtum erfiðara yfirferðar. Annað atriði má nefna í þessu sambandi, þótt það hafi kannske ekki eins mikið að segja, en það er fjöldi búpenings í þessum tveimur umdæmum. Sérstaklega eru það þó nautgripir, sem mætti nefna í þessu sambandi, þar sem mest kveður að því, að dýralækni þurfi til þeirra, miklu frekar en sauðfjár. Það er að vísu ekki ýkjamikill munur á þessu skv. síðustu skýrslum hagstofunnar, sem eru frá 1956. Þá voru 1.328 nautgripir í Dalaumdæmi, en 1.813 í Ísafjarðarumdæmi, eða 485 gripum fleira. Í Ísafjarðarumdæmi er 21 hreppsfélag auk Ísafjarðarkaupstaðar, en í Dalaumdæmi 15 hreppsfélög og enginn kaupstaður.

En ekkert af þessu er þó höfuðástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, hvorki stærðarmunur þessara umdæma né fjöldi búpenings, ekki heldur fjöldi hreppsfélaga, heldur fyrst og fremst samgönguerfiðleikar milli Ísafjarðar og Vestur-Barðastrandarsýslu. Af þessum ástæðum er það, sem ég hef verið beðinn að flytja þetta frv.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt, er hér um fjöll og firði að ræða til yfirferðar, eins og reyndar annars staðar á Vestfjörðum. En hálfu erfiðara er þó Ísafjarðarumdæmi, eins og það er nú, en Dalaumdæmi. Ef maður hugsaði sér, að dýralæknir ætlaði að koma í hverja byggð í sínu umdæmi, þá hygg ég, að hann þurfi að fara a. m. k. yfir 12–14 fjallgarða, minni eða stærri, auk þess sem hann verður að sækja yfir Ísafjarðardjúp á annan veginn og eins og enn er yfir Arnarfjörð á hinn veginn. Aftur á móti er Dalahérað þannig, að ekki er yfir önnur fjöll að fara en þrjá hálsa, sem eru í Austur-Barðastrandarsýslu, og ekki um sjóferðir að ræða, nema ef til þess kemur, að hann þyrfti að fara út í einhverja af þeim fjórum eyjum, sem enn eru í byggð og tilheyra Barðastrandarsýslu. Þó skal ég taka það fram, að mér er ókunnugt um byggðar eyjar, hvað þær eru margar í Dalasýslu.

Ég hygg, að þetta, sem ég hef nefnt, sýni, að það er ekki ósanngjarnt að gera hér nokkurn jöfnuð á. Að öðru leyti vil ég segja það um samgöngur um þessi héruð, að eigi dýralæknir að sitja á Ísafirði eða þar í grennd, og það býst ég við að verði, þegar dýralæknir kemur þangað, þá er ekki um það að ræða að komast suður í Barðastrandarsýslu nema annaðhvort með skipi eða flugvél. Á landi fer hann það ekki að vetri til, eða tæplega. Það væri mjög erfið ferð.

Það er öllum ljóst, að það er ekki greitt aðgöngu að ná til dýralæknis á þennan hátt. Flugsamgöngur að vetrinum eru fremur fátíðar milli þessara héraða og í raun og veru varla um þær að ræða. Skipaferðir eru aftur á móti til að vetrinum, en auðvitað ekki tíðar.

Um Dalahérað gegnir nokkuð öðru máli, sem leiðir af því, sem ég hef áður sagt, bæði um landslag og stærð umdæmisins. Og þótt Vestur-Barðastrandarsýslu yrði bætt við það hérað, er að vísu löng leið vestur alla þá sýslu, en sú er þó bót í máli, að þar hefur snjóbíll áætlunarferðir nú alla vetur, og bætir það mjög úr skák.

Að sumrinu er þetta að sjálfsögðu allt á annan veg. Frá Ísafirði til Vestur-Barðastrandarsýslu eru engar áætlunarferðir, þó að vegarsamband sé úr Djúpinu þangað. Vegarsamband er ekkert enn frá Ísafirði eða Vestur-Ísafjarðarsýslunni til Barðastrandarsýslu, svo að um sjóferð yrði alltaf að ræða líka, ef ætti að ná til dýralæknis á þeim tíma árs, auk þess sem þetta er býsna löng leið. Um hitt héraðið, Vestur-Barðastrandarsýslu, sem ætlazt er til með þessu frv. að bætist við Dalahérað, er það að segja, að vegasamband er komið á og áætlunarferðir eru þarna vikulega. Það er því ekki neitt sérstaklega örðugt að sumri til fyrir dýralækni að komast yfir sitt hérað, þó að þessi breyting yrði gerð, því að vegur er kominn í hverja byggð í báðum sýsluhlutunum, Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu.

Þeir fella þann dóm, sem óskað hafa eftir flutningi þessa frv., að þeim sé ekki hentugra að eiga að sækja til dýralæknis á Ísafirði, en þótt þeir ættu að sækja til hans hingað til Reykjavíkur, og sennilega væri öllu hentugra að eiga að sækja til læknis hér, vegna þess að ferðir eru greiðari milli Reykjavíkur og Vestur-Barðastrandarsýslu, heldur en Ísafjarðar og þess héraðs.

Að sjálfsögðu má nefna fleira, sem mælir með því, að orðið sé við þessari ósk þeirra fyrir vestan um tilfærslu á þessu héraði milli læknisumdæma. Hitt skal ég taka fram, að auðvitað verður aldrei gerður fullkominn jöfnuður á héruðum, þótt byggðir séu færðar milli umdæma. T. d. vil ég þegar taka það fram, að fjöldi búfjár yrði auðvitað meiri í Dalahéraði á eftir, ef þetta yrði gert. En hvað nautgripi snertir, sem ég vil sérstaklega taka til greina í þessu sambandi, yrði þó minni munur á eftir, en er nú. Það getur líka verið, að stærð héraðanna verði ekki nærri því jöfn. En móti þessu kemur hitt, að ég hygg, að samgöngurnar verði þeim mun betri á eftir fyrir hvort hérað fyrir sig, eða jafnari réttara sagt, að ekki þyrfti undan því að kvarta, þó að þessi breyting yrði gerð.

Ég vænti þess, að hv. d. greiði fyrir þessu frv., svo að það gæti náð fram að ganga á þessu þingi, og vil ekki fjölyrða þetta frekar við þessa umr., nema tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umræðu.