11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1661)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti, Hv. 1. þm. Rang. hefur nú gert grein fyrir brtt., sem hann flytur við þetta frv. ásamt hv. þm. A-Húnv. Ég vil leyfa mér að fara einnig um þessar brtt. fáum orðum. Ég fellst á það, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Rang. að þessar brtt. eru í sjálfu sér ekki um mjög veigamikil atriði, en að mínu áliti eru þær ekki til bóta á frv., eins og ég mun nú nánar víkja að.

Í 4. gr. frv. eru ákvæði um það, hvaða skilyrðum sá einstaklingur þarf að fullnægja, sem fær útgefið leyfi til þess að reka gistihús. Þau skilyrði eru ekki ströng og eru raunar þau sömu, sem nú eru í lögum og hafa verið í gildi lengi. 1. brtt. á þskj. 293 felur í sér breytingu á 5. tölul. 4. gr., að í stað þess, sem í frv. segir, að aðili hafi ekki hin þrjú síðustu ár verið dæmdur til refsingar fyrir óleyfilegan innflutning, sölu eða veitingu áfengis, þá er lagt til, að í þess stað komi, að aðili hafi ekki hin 3 síðustu ár verið dæmdur fyrir brot á áfengislögum.

Nú vil ég leyfa mér að benda á það, að þessi till., eins og hún er orðuð hér, er miklum mun víðtækari gagnvart veitingahúsaeigendum, en orðalag frv. eins og það er nú. Það er hægt að verða brotlegur við áfengislögin í ýmsum fleiri greinum, en þeim að hafa staðið að ólöglegum innflutningi áfengis. Það er t. d. bannað í áfengislögunum að búa til áfenga drykki eða gera drykkhæft áfengi, sem áður hefur verið ódrykkhæft. Það er bannað í áfengislögunum að veita áfengi manni, sem er bersýnilega ölvaður, og manni, sem yngri er en 21 árs. Það er lögð refsing við því samkvæmt áfengislögunum, ef maður verður uppvís að því, að hann hafi látið viðgangast ólöglega geymslu á áfengi í húsnæði sínu, og þetta ákvæði er áreiðanlega þess eðlis, að það getur snert mjög gistihúsaeigendur. Þá er enn fremur það ákvæði í áfengislögunum, að misnoti veitingamaður, sem leyfi hefur til áfengisveitinga, leyfi sitt með því að veita áfengi á öðrum tíma eða á annan hátt, en honum er heimilt eða aðrar víntegundir, en tekið er fram í leyfi hans, ef um það er að ræða, svo og með því að selja áfengi án þess að þess sé neytt á staðnum, þá varði það refsingu, og öll þessi brot, sem ég hef bent á, geta varðað því samkvæmt áfengislögunum, að gistihúseigandi missi vínveitingaleyfi. En ég fæ ekki betur skilið, en með þessari till., ef samþ. yrði, gæti það komið til viðbótar þeirri refsingu, sem ákveðin er í áfengislögunum, að maður missti gistihúsleyfið sjálft eða fengi það ekki endurnýjað. Mér þykir því mjög við hóf ákvæðið eins og það stendur í frv. og tel að gistihúsaeigendum yrði ekki ávinningur af samþykkt þessarar till.

Þá er 2. brtt. um það, að 5. gr. frv. falli niður. Eins og ég gat um og flutningsmaður brtt. raunar hafði áður lýst, fjallar 4. gr. frv. um þau skilyrði, sem einstaklingur verður að hlíta, sem fær leyfi til gistihúsahalds. Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að ef félag fær leyfi til gistihúsarekstrar, þurfi meiri hluti stjórnarmanna þess félags og þar á meðal allir þeir, er firmað rita, að fullnægja sömu skilyrðum og einstaklingunum eru sett. Nú leggja hv. flm. brtt. á þskj. 293 til, að þetta ákvæði falli niður. Í því sambandi er þess fyrst að geta, að þetta ákvæði, eins og það er í frv., er ekki nýmæli, heldur hefur staðið í löggjöf, sem að þessu lýtur, nú um 30 ára skeið. Í öðru lagi vil ég benda á, að ef þessi gr. yrði felld niður, þá er opnuð leið fyrir innlenda aðila, sem ekki fullnægja skilyrðum þeim, sem einstaklingum eru sett, að fá leyfi með því að mynda félag, og í sjálfu sér er alls ekki eðlilegt að opna slíka leið. En meginatriðið, sem fyrir hv. flm. brtt. vakir, mun vera það, eins og fyrri flm. gerði grein fyrir, að halda opnu í þessari löggjöf, að erlendir aðilar geti lagt fram fé og staðið að byggingu og rekstri gistihúss hér á landi, t. d. í félagi við innlenda aðila.

Mér er það kunnugt, að meðal manna, sem áhuga hafa á ferðamálum og gistihúsarekstri, er uppi sú hugmynd, að hægt sé að leysa stór viðfangsefni á þessu sviði á þennan hátt. Ég ætla ekki í sambandi við þessar brtt, að gera þá hugmynd sérstaklega að umræðuefni. Vel má vera, að hún eigi fullan rétt á sér, en ég bendi á það, að þegar við stofnum hér stór iðnfyrirtæki, t. d. sementsverksmiðju og áburðarverksmiðju, þá setjum við um það sérstaka löggjöf og kveðum nákvæmlega á um, hvernig til þeirra fyrirtækja skuli stofnað og hvernig þeim skuli stjórnað. En við höfum ekki í almennum lögum um iðju og iðnað ákvæði um slík fyrirtæki. Ég lít svo á, að ef sú hugmynd yrði framkvæmd að fá erlent fjármagn í miklum mæli hingað inn í landið til þess að reisa fyrir gistihús og halda uppi rekstri þess, þá sé sú framkvæmd þess eðlis, að það væri eðlilegt að setja um það sérstaka löggjöf og athuga það alveg sérstaklega hér á hv. Alþ., en ekki að taka sérstakt tillit til þess í sambandi við þessa almennu löggjöf um gistihúsahald í landinu.

3. brtt. er nú sannast sagna mjög veigalítil. Hún er um það, að fellt sé niður gjald hjá þeim, sem fá veitingaleyfi endurnýjað eftir gildistöku þessara laga. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að lögreglustjórarnir í hverju lögsagnarumdæmi fyrir sig veiti leyfi til gistihúsahalds. Þeim er ekki ætlað að fylgjast með rekstri gistihúsanna á hverjum stað, það er engin von, að þeir, sem veita leyfin, hafi aðstöðu til þess. En það er gert ráð fyrir því, að öll leyfi, sem veitt eru í þessu skyni, verði endurnýjuð á fimm ára fresti gegn 200 kr. gjaldi hvert sinn. Þetta er í raun og veru ekki fyrst og fremst gert vegna peninganna, heldur er miðað að því að koma þessari skipan á til þess að veita lögreglustjórunum, þeim sem veita gistihúsaleyfin, aðstöðu til þess fimmta hvert ár að afla upplýsinga og skýrslna um veitingahúsareksturinn, eins og hann hefur gengið á liðnu tímabili, og taka það allt til athugunar, þegar leyfi er endurnýjað. Það má segja, að hliðstæða í þessu efni séu t. d. bifreiðaskírteini, sem á að endurnýja fimmta hvert ár gegn smávægilegu gjaldi. Mér finnst því fullkomlega eðlilegt að samþykkja ákvæði frv, um þetta atriði eins og þau eru nú og mun ekki sjá mér fært að greiða þessum brtt. atkvæði.