11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1664)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þetta mál er nú ekki nýtt af nálinni. Eins og fram kemur í grg. og hv. þm. er kunnugt um, hefur það áður verið flutt, þó að það sé í nokkuð annarri mynd og lítils háttar breytingar hafi verið á því gerðar, frá því er það fyrst var lagt fram hér á þingi, endurskoðun á þessum lögum 1951.

Hæstv. forseti hefur þess vegna sjálfsagt fulla ástæðu til að gera ráð fyrir því, að þm. séu reiðubúnir til þess að greiða atkvæði um þetta mál nú, og einnig nm. og hv. frsm. samgmn. Ég vildi nú samt sem áður, vegna þess að allmikilvæg atriði hafa komið fram í sambandi við þessa umr. og hér er um 3. umr. að ræða, leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að umr. verði frestað, svo að okkur gefist nokkur kostur af þessu tilefni að athuga þau atriði, sem hér hafa verið reifuð nánar og eru mikilvæg og snerta atvinnuréttindi, bæði þau, sem menn væntanlega gætu öðlazt í sambandi við gistihúsahald hér, og einnig rétt og aðstöðu þeirra, sem áður hafa haft þessi veitingaleyfi, ásamt nokkrum öðrum atriðum. Skal ég einnig fúslega játa, að það kom mér nokkuð á óvart, að þetta mál væri það langt gengið, að 3. umr. málsins væri hér í dag.

Ég tel ekki, að við höfum neina ástæðu eða afsökun í því efni, en leyfi mér samt sem áður að beina þessum tilmælum til hæstv. forseta.